Kannan WI 4

Leið merkt inn sem 11a

Leiðin liggur upp gil vinstra megin við leið nr. 12. (Lauganípugil vestara). Hún byrjar í stuttu 4. gr. íshafti, síðan tekur við snjóbrekka upp að stuttu 3. gr. klettahafti, að lokum tekur við snjógil upp á brún. Leiðin er um 200 metra löng.

FF: Haraldur Örn Ólafsson, Ingimundur Stefánsson og Stefán S. Smárason, febrúar 1990

Klifursvæði Esja
Svæði Vesturbrúnir
Tegund Ice Climbing

NA-hlíð Kirkjunar

Tindaborg (1695 m) er tindur sem skagar upp úr ísfallinu í Svínafellsjökli, mitt á milli Hvannadalshnúks og Hrútfjallstinda. Tindurinn er einnig þekktur sem Fjallkirkja eða Tröllkirkja á meðal fjallamanna. Þessi tindur er aðeins fær í vetraraðstæðum þegar að snjór og ís hafa myndast á Kirjunni. Oft duga þessar vetraraðstæður fram í maí en þegar að bergið er bert verður veggurinn ókleifur vegna þess hver lélegt bergið er í tindinum.

Aðkoman um Svínafellsjökul fer upp austan megin á honum, yfir skriðuna sem nú er komin á hann og upp austan megin við ísfallið, þar hafa einhver teymi tjaldað en vel gerlegt er að fara upp og niður á einum löngum degi. Stefnt er á vinstri (vestari) hlið Kirkjunar og farið norður fyrir.

Einnig er hægt að koma að Tindaborg frá Hvannadalshnúk, þá er gengið norður fyrir Hnúkinn og þaðan beint niður að Kirkjunni.

Þriðja leiðin að Kirkjunni er að fara frá Dyrhamri og vestur fyrir Hnúkinn.

Myndin hér að neðan sýnir leiðina frá Svínafellsjökli á Hvannadalshnúk með viðkomu við Kirkjuna

 

Í fréttabréfi Ísalp númer 10, segir:

Var það allerfitt klifur upp NA -hlíðina, 100m háan ísvegg. Voru þeir félagar 4 1/2 klsti úr tjaldstað, í um 400 m hæð á Svínafellsjökli, upp að Kirkjunni. Klifrið tók síðan 4 tíma og notuðu þeir ísskrúfur til tryggingar enda meðalhalli brekkunar 60-70°.

Þessi leið var um tíma erfiðasta ísklifurleið á íslandi og var fyrst til að fá fjórðu ísklifurgráðuna

 

FF: Arngrímur Blöndahl, Arnór Guðbjartsson og Helgi Benediktsson, 1.04 1979

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Tindaborg
Tegund Alpine

Granni WI 3

Leið númer 53/55 á mynd

Leiðin er beint á móti Grafarfossi sjálfum en nær að fá aðeins minni sól þar sem að hann snýr betur.

Flestir láta sé nægja að klifra bara fossinn sjálfan sem sést á myndinni en einnig er hægt að elta gilið sem klifrað er upp í. Viðtekur að mestu snjóklifurleið með stöku íshöftum

WI 2/3, 650 m ef farið er alla leið.

FF: Jón Geirsson og Snævarr Guðmundsson, 06.03 1983

Klifursvæði Esja
Svæði Grafarfoss
Tegund Ice Climbing

Grafarfoss WI 4+

Grafarfoss er breytt ísþil undir Kistufelli í Esjunni. Allmörg afbrygði af fossinum hafa verið farin en þau hafa ekki fengið ný nöfn og teljast kanski ekki sem sér leiðir.

Útgáfurnar af Grafarfossi eru á bilinu WI 4 -WI 5 og veltur þetta allt á aðstæðum eins og svo oft. Fossinn snýr ekki alveg í suður en fær samt hellings sól og á ísinn því það til að bakast og verða illtryggjanlegur á köflum.

Upprunalega útgáfan og sú klassískasta til að fara er lengst til hægri í kverkinni, telst það afbrygði vera um WI 4 og er um 65 m.

FF: Björn Vilhjálmsson og Einar Steingrímsson, 20.12 1980.

Klifursvæði Esja
Svæði Grafarfoss
Tegund Ice Climbing

Orginallinn

Græn lína á mynd.

Sjá aðkomulýsingu hér 

Suðaustan á Ingimundi, klifrað upp í augljósa gróf sem leiðir upp í sprungu austan megin við hátindinn. Komið upp á milli beggja tindanna á toppnum.

FF: Stefán Steinar Smárason, Haraldur Örn Ólafsson og Guðmundur Eyjólfsson, 17.07 1988, dótaklifur, tvær spannir 5.6

Klifursvæði Eyjafjöll
Svæði Ingimundur
Tegund Alpine

Mundi

Rauð lína á mynd.

Sjá aðkomulýsingu hér 

Vestan við upprunalegu leiðina og lítið eitt strembnari. Fylgir stöllum inn í áberandi stromp og þaðan upp á góða syllu. Síðan er farið upp víða sprungu og klaufina austan megin við toppinn. Efsti hluti leiðarinnar er sameiginlegur upprunalegu leiðinni

FF: Stefán Steinar Smárason og Leifur Örn Svavarsson sumarið 1989, dótaklifur, tvær spannir 5.6

Klifursvæði Eyjafjöll
Svæði Ingimundur
Tegund Alpine

S fyrir Stratos

Gul lína á mynd.

Sjá aðkomulýsingu hér 

Vestasta leiðin á Ingimundi. Nokkuð augljós S-laga sprunga, ca. í miðjum Ingimundi vestanverðum, er klifruð. Síðan er farið upp sprungu sem liggur upp á toppinn vestan megin við hærri tindinn.

FF: Björn Baldursson og Stefán Steinar Smárason, sumarið 1991, dótaklifur, tvær spannir 5.8

Klifursvæði Eyjafjöll
Svæði Ingimundur
Tegund Alpine

Mjóni WI 4+

Sextíu metra ísfoss af gráðunni IV – V (IV+) gráðu. Ísfossinn samanstendur af tveimur mjóum tíu metra ískertum sem standa hvort upp af öðru, eftir það er strembið klifur upp íshröngl. Ísfossinn var klifinn um áramótin 90-91. Fossinn er á milli Skagfjörðsskála og göngubrúarinnar yfir Krossá í Þórsmörk.

FF: Páll Sveinsson og Guðmundur Helgi Christensen. 1990-1991

 

Klifursvæði Þórsmörk
Svæði Skagfjörðsskáli
Tegund Ice Climbing

SA veggur Miðfellstinds

Mynd og nánari staðsetning óskast

Í ársriti Ísalp frá 1990 segir:

Miðfellstindur í Skaftafellsfjöllum páskana ’90 var Miðfellstindur (1430 m) klifinn af þeim Leifi Erni Svavarsyni og Hjörleifi Finnssyni. Fóru þeir upp suðurhlíðina sem telst 3. gráða og er 400 m löng og liggur leiðin upp stutt íshöft og snjóbrekkur.

FF: Leifur Örn Svavarsson og Hjörleifur Finnsson, páskar 1990, gráða 3, 400 m

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Miðfellstindur
Tegund Alpine

Svínshaus

Mynd óskast

Hátindur Svínakambs sem liggur á milli Tindaborgar og Dyrhamars. Klettadrangur, klifrið upp á hann er meira klettaklifur en ísklifur.

Svínshaus er 30m há hlettaspíra sem stendur upp úr Svínakambi og nær í 1550 m hæð. Klifrað er af einhverju leiti á ís en mest á bergi. Í frumferðinni náðist bara að setja inn eina millitryggingu, lykkja (slingur) utan um nibbu.

FF: Björgvin Richardsson og Óskar Þorbergsson, páskar 1983, gráða IV

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Svínakambur
Tegund Alpine

Neðri Dyrhamar

Númer 1 á mynd, lægri af þessum tveim tindum og fjær Hvannadalshnúk

Neðri Dyrhamar er erfiðari uppferðar en sá efri því að það er ekki hægt að ganga upp á hann, heldur verður að klifra þar upp.

Í fréttabréfi Ísalp nr. 27 segir:

Jón Geirsson og Snævarr Guðmundsson héldu upp í Öræfajökul um páskana. Fóru þeir upp á skírdag og bjuggu til snjóholu á Hvannadalshrygg, þar sem þeir gistu um nóttina. Á föstudaginn langa lögðu þeir til atlögu við Neðri-Dyrhamar, sem hafði aldrei verið klifinn áður. Þetta var ísklifur í miklum bratta með lóðréttum íshöftum. Tryggingarnar voru slakar. Klifrið tók rúmlega klut. Síðan þurftu þeir að síga niður á snjópollum. Að sögn Jóns og Snævars er þetta mjög alvarlegt klifur og mun erfiðara en Kirkjan.

Norður hliðin á Tindaborg eða Fjallkirkjunni var á þessum tíma erfiðasta ísklifurleiðin á Íslandi og var gráðuð sem IV klifur. Við þessa ferð hefur Neðri Dyrhamar um tíma tekið sessinn sem erfiðasta ísklifurleið á Íslandi og má þá draga ályktun að klifrið hafi verið IV+ eða V, án þess að erfiðleikagráðu hafi verið hent niður.

Til að komast að neðri Dyrhamri er annaðhvort hægt að koma frá Hvannadalshnúk eftir hryggnum og hliðra undir Efri Dyrhamar eða hægt er að koma upp Hvannadalshrygginn neðan frá. Í þessari frumferð var Neðri Dyrhamar klifinn á norðurhliðinni, þar sem hann er lægstur og árennilegastur.

FF: Jón Geirsson og Snævarr Guðmundsson, páskar 1983.

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Dyrhamar
Tegund Alpine

Efri Dyrhamar

Efri Dyrhamar er númer 2 á myndinni, hærri og nær Hvannadalshnúk.

Efri Dyrhamar er yfirleitt ekki strembinn uppferðar frá norðurhliðinni, þar sem hann er lægstur, oft er vindskafinn snjóhryggur alla leið upp á topp, svo að oft þarf ekki einu sinni að klifra til að komast á tind Efri Dyrhamars.

Þarna hefur þó verið klifrað upp í erfiðari aðstæðum en lítið af heimildum finnst um það klifur eða hvort að það hafi verið á annari hlið en norðurhliðinni

Algengast er að ganga frá Öræfajökulssléttunni, undir Hvannadalshnúk og elta þar hrygginn upp á Efri Dyrhamar. Einnig er hægt að koma eftir Hvannadalshryggnum, hliðra undir Neðri Dyrhamar, fram hjá Dyrunum og svo hliðra undir Efri Dyrhamar, þar til komið er að norðurhliðinni.

FF: Helgi Benediktsson leiðsögumaður og hópur, 06.08 1978

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Dyrhamar
Tegund Alpine

Leiðangur niður austurströnd Grænlands

Fyrirhuguð leið Grænlandsleiðangurs 2017

Nú reyna nokkrir fjallamenn og Ísalparar að skíða og kite-a niður austurströnd Grænlands, um 1200 kílómetra leið á 40 dögum. Þetta eru þeir Leifur Örn Svavarsson, Hallgrímur Magnússon, Einar Stefánsson, Tómas Júlíusson og Skúli Magnússon. Afrek hópsins eru m.a. hæstu tindar allra heimsálfa, þrír Everest farar, báðir pólarnir og umtalsverð reynsla hjá EFTA dómstólnum.

Þeir sem til þekkja vita að þessir menn eru allir miklir meistarar og leynast gullkorn á borð við þessi í leiðangursblogginu:

„Each of us did bring one day of food and Hallgrímur had his food bag yesterday giving us beef filé for dinner and a luxury dinner today. Now, Skúli is baling pancakes for us for desert. We will be two weeks into he expedition before we have to start eating normal, dried expedition food.“

„Our philosophy is to continue to struggle for the next two weeks or so and then we will take stock of the situation, think about how we are doing and if there is whiskey, we will certainly last the whole journey.“

Einnig ætla þeir félagar mögulega að klífa óklifna tinda sem þeir sjá á leiðinni og mögulega hæsta fjall Grænlands.

Vonandi gengur sem allra best hjá þeim, hægt er að fylgjast með leiðangursbloggi hér: http://expeditions.mountainguides.is/

Súlutindur

Súla (694 m) stendur vestan megin í Skeiðarárjökli. Súlutindur er fallegur 60 m hár tindur en er víst úr alveg gífulega rotnu og ótraustu bergi.

Tindurinn hefur aðeins verið klifinn einu sinni, lýsing teymisins var: Ekki reyna þetta!

FF: Ari Hauksson,  Björgvin Richardsson, Jón Haukur Steingrímsson og Valdimar Harðarson, sumar 1990

Klifursvæði Öræfi, Vestur
Svæði Skeiðarárjökull
Tegund Alpine

Gamlárspartý WI 5

Leiðin er í Stólnum í Skíðadal, um 1 km innar en Super Dupoint

WI 4+/5-, 40m

Leiðin er víst stífari en hún lítur út fyrir að vera, ísinn var einnig mjög harður þennan daginn

FF: Freyr Ingi, Jökull Bergmann og Sigurður Tómas

Myndirnar eru í boði Sigga Tomma, fleiri myndir má sjá hér

Klifursvæði Svarfaðardalur
Svæði Skíðadalur
Tegund Ice Climbing

Hraundrangi

Gefnir hafa verið út tveir leiðavísar um Hraundranga, annar er frá 1981 og birtist í 19. tölublaði af Ísalp tímaritinu en hinn er frá 2009 og birtist í ásriti sama ár.

Eina breytingin á milli þeirra er að árið 2007 bættist við vetrarleið sem liggur upp NV hrygg Hraundranga, en að öðru leiti er klassíska leiðin sú sama.

Tindurinn hefur líklega í upphafi verið nefndur Drangi og er enn kallaður Drangi Hörgárdalsmegin en hefur svo síðar meir verið kenndur við bæinn Hraun í Öxnárdal og þess vegna verið nefndur Hraundrangi en fjallið sjálft er kennt við Drangann og nefnist Drangafjall.

Einhverstaðar má sjá vísað til allrar drangaraðarinnar sem Hraundranga eða Hraundrangar nefndir í fleirtölu en þetta er rangt með farið, Hraundranginn er aðeins einn þó svo að það séu margir drangar á Drangafjalli, margir þeirra eru ónenfdir. Sjá hér.

Um tvær leiðir er að velja þegar gengið er upp að Hraundranga. Sunnan megin úr Öxnadal eða norðan megin úr Hörgárdal. Tveir fyrstu hóparnir sem fóru á Drangann gengu frá bænum Hrauni í Öxnadal, upp vesturhlíðar Einbúa yfir svokallaðan Stapa og upp skriðurnar í skarðið, sem lægst ber á hryggnum. Hæðamismunur á þessari leið er um 850 m og er áætlaður göngutími um 2-3 stundir.
Hin leiðin liggur frá bænum Staðabakka í Hörgárdal en göngubrú er yfir Hörgá, rétt fyrir neðan bæinn. Þegar komið er yfir brúna liggur ein samfelld brekka upp að Dranganum. Hæðamismunur er um 700 m, áætlaður göngutími er um 2-3 stundir.

Þegar komið er upp á brún austan við drangann er best að gera línur og annan klifurbúnað tilbúinn. Eitthvað er af gömlum fleygum í Dranganum en það eru sennilega bestu tryggingarnar sem hægt er að koma inn á leiðinni, bergið er mjög laust í sér alla leið!

Klifirið sjálft er um 70 m og er frekar létt framan af upp stóra gras og mosastalla en eftir um 25m klifur er komið að fyrri lykilkafla leiðarinnar, þar sem þarf að vanda hand og fótfestur. Á stallinum ofan við þennan kafla var millistans en hann var færður ofar þar sem að hann hélt ekki fleygum lengur. Rúmum 10 m hærra er komið að sæmilega traustu akkeri þar sem hægt er að gera millistans og tryggja upp.

Rétt áður en komið er upp á toppinn er komið að síðari lykilhreyfingu klifursins. Hér er bergið orðið nokkuð gott og þægilegt er að kom fyrir tryggingu áður en lagt er þar upp.

Toppakkerið er traust, sigkarabínur, slingar og vírar utan um stóra grjótblokk og þaðan er 2-3 m smáskrölt upp á blátoppinn. Best er að senda einn í einu upp síðustu metrana því það er þröngt og einmannalegt á toppnum.

Þægilegast er að síga niður í einu sigi á tveimur 70 m línum en einnig er hægt að síga í millistansinn og þaðan niður í skarðið.

FF: Finnur Eyjólfsson, Nicholas Clinch og Sigurður Waage, 05.08 1956

Hraundrangi átti 60 ára uppferðar afmæli árið 2016. Þá sló Sigurður Waage til og fékk sér sitt fyrsta tattú og var það af dranganum, Fékk það þó nokkuð mikla fjölmiðlaumfjöllun:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/04/fekk_sitt_fyrsta_hudflur_88_ara/
http://www.ruv.is/frett/fekk-ser-hudflur-i-tilefni-klifurafreks
http://www.visir.is/g/2016160809550/fagnar-afreki-med-tattui

Í frumferðinni tók gangan að Dranganum um þrjár klukkustundir, klifrið tók um sjö stundir. Þeir tryggðu alls 15 sinnum og það tók þá allt upp í hálftíma að komast eina hreyfingu. Eftir stutta viðdvöl á toppnum sigu þeir niður aftur og héldur til Akureyrar eftir alls 18 stunda ferð.

Næsta ferð upp á Drangann varð ekki fyrr en 1977, rúmum tveim áratugum seinna. Voru þar á ferðinni Helgi Benediktsson, Pétur Ásbjörnsson og Sigurður Baldursson. Klifrið sjálft tók þá um fimm tíma og ferðin sjálf um 13 stundir.

Uppferðasagan er vel skráð og varðveitt allt fram til 2010 en það var gert með gestabók sem lá í kassa á toppnum, ásamt Ísalp pela af malt viskí.

Klassíska leiðin er rauða punktalínan á hægri myndinni.

 

Klifursvæði Hörgárdalur
Svæði Hraundrangi
Tegund Alpine

Myndbönd