Húsfreyjan
D(+), WI3+, AI3, M3, 55-75°, 450m
Leiðin byrjar á snjóhrygg sem leiðir inn á Norðaustur hrygg Þuríðartinds. Sá hryggur/veggur er klifinn upp í nokkrum blönduðum spönnum á snjó, ís og klettum. Það eru nokkur brattari höft í þessum spönnum en vel tryggð með ísskrúfum. Ofarlega á veggnum er val um tvær kverkar og við fórum þá vinstri sem er brattari en hún virðist að neðan. Þaðan er klifrað þar til toppur hryggsins rís upp í brothættum turni. Þá er farið yfir litla öxl til vinstri (til Suðurs) og hliðrað fram hjá turninum og upp lítinn foss og snjóbrekku á góðan stall. Af stallinum sést toppahryggurinn vel. Frá stallinum er fyrsti hluti hryggjarins hnífbeittur og laus, öruggari leið er að niðurklifra um 20m kverk Sunnan megin á hryggnum niður í topp rennu sem er þar. Þaðan er brött snjóbrekka klifin aftur upp á hrygginn og hann svo eltur, ýmist á hryggnum eða rétt vinstra megin við hann í blönduðu klifri. Þessi hluti er ekki sérlega erfiður en alvarlegur, enda hryggurinn hvass og brattur og langt niður til beggja átta. Hryggurinn er samtals um 200m. Hryggurinn breytist í þægilegan snjóhrygg rétt neðan við toppinn þar sem leiðin endar (1741m).
FF.: Árni Stefán Haldorsen og Íris Ragnarsdóttir Pedersen, 19. apríl 2025
Aðkoma: Hvaða leið sem er á Öræfajökul, yfir Snæbreið og niður í Tjaldskarð eða um Breiðamerkurjökul að Hermannaskarði gengur. Þaðan er farið beint inn að Þuríðartind og gengið niður með Suðurhlíðinni og beint inn á snjóhrygginn og að upphafi leiðarinnar.
Niðurferð: Hefðbundna leiðin á Þuríðartind um Vesturvegginn gengin niður. Eftir að á hrygginn er komið er ekki mögulegt að flýja úr leiðinni til Suðurs (veggurinn neðan við snjóbrekkurnar er stór og lóðréttur) og líklega ekki betra til Norðurs.
Tryggingar: Var meiri tryggjanlegur ís í leiðinni en við bjuggumst við og allir brattari kaflar voru vel tryggðir. Eins og í öðrum leiðum í Öræfajökli þarf að hafa augun opin og jafnvel brjóta smá til að finna góðan ís. Snjóhæll og spectra komu að góðum notum. Við höfðum engar bergtryggingar, en bergið er mun betra en við reiknuðum með og lítill rakkur (amk hnetur og fleygar og litlir vinir) hefðu nýst vel og þá ekki bara sem sálfræðitryggingar í möl.
Nafn tindsins er líklega komið frá dönskum landmælingamönnum sem voru á ferð um landið í byrjun 20. aldar. Þuríður Runólfsdóttir var húsfreyja í Skaftafelli á þeim árum og var hópnum minnisstæð. Hún hafði víst bakað dásamlegar pönnukökur handa þeim í nesti og var tindurinn nefndur henni til heiðurs.
Klifursvæði | Öræfajökull |
Svæði | Þuríðartindur |
Tegund | Alpine |