Skálar

 

Íslenski Alpaklúbburinn á og rekur tvo fjallaskála, Tindfjallaskála og Bratta í Botnssúlum. Sem stendur er Bratti ekki á sínum stað uppi í Súlnadal en það mál er allt í vinnslu.

Tindfjallaskáli

 

Tindfjallaskáli

Tindfjallaskáli hefur verið í umsjón og varðveislu Íslenska alpaklúbbsins frá árinu 1979.

Skálinn tekur 9 manns í rúm og er útbúinn olíukyndingu og gashellu.  Tindfjallaskáli er mikið nýttur á veturna og sækja Hjálparsveitir á Suður- og Vesturlandi í skálann til að halda námskeið og æfingar.

Sagan

Skálinn er nátengdur sögu fjallamennsku á Íslandi og mikilvægur fulltrúi annars hverfulla mannvirkja þessa sértæka menningararfs. Tindfjallaskáli var byggður af félaginu Fjallamenn (stofnað 1939) sem Guðmundur Einarsson frá Miðdal var í forsvari fyrir. Guðmundur hannaði útlit skálans og Karl Sæmundsson burðarvirki. Þorsteinn Þorsteinsson yfirsmiður hjó grindina í skálann í Reykjavík úr harðfuru sem rak á Skógafjöru. Byggingu skálans var lokið árið 1941 og er hann 22 fermetrar að stærð. Starfsemi Fjallamanna minnkaði til muna eftir lát Guðmundar Einarssonar árið 1963 og hún lagðist endanlega af í kringum 1970.

Frá 1979 hefur Ísalp haft skálann til varðveislu. Skálinn stendur í um 800 m.y.s. og er einn fyrsti háfjallaskálinn sem byggður var á Íslandi og þrátt fyrir veður og vinda stóð hann enn árið 2008. Sambærilegur skáli var byggður á Fimmvörðuhálsi af Fjallamönnum en hann eyðilagðist og var síðan rifinn. Þannig að skálinn hefur í marga áratugi þjónað fjallamönnum og björgunarsveitum landsins. Flestar björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu hafa haldið nýliðanámskeið sín í fjallamennsku í nágrenni skálans og má því segja að í Tindfjöllum hafi stór hluti íslenska fjallamanna hlotið eldskírn sína. Enda bjóða Tindfjöllin uppá mikla möguleika til hvers kyns klifurs og skíðunar.

Staðurinn

Tindfjöll eru glæsilegt fjalllendi og ótal möguleikar á ferðamennsku og útiveru, sannkallaðir íslenskir alpar. Hæstu tindarnir á svæðinu eru með þeim svipmestu á Suðurlandi og eru helstu kennileitin Ýmir (1462m) sem er hæsti tindur svæðins og áföst Ými er Ýma (1448m). Saxi (1305m)

Þar eru nú fjórir skálar, Tindfjalasel og Nýr skáli Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og á Hellu eru neðstir. Þá Miðskáli (Miðdalur) sem er í einkaeign og efstur er svo skáli Ísalp.

Endurbygging skálans

Í vorið 2008 var myndaður stór hópur manna og kvenna innan Ísalp, „Vinir Tindfjallaskála“, sem hefur það að markmiði að vinna að endurbótum, rekstri og viðhaldi skálans. Ástand Tindfjallaskála var þá orðið mjög bágborið, klæðning og burðargrind farin að fúna og snjór milli þilja. Ljóst var að skálinn þoldi ekki afskiptaleysið öllu lengur. Hópurinn vann úttekt á ástandi skálans auk kostnaðar- og verkáætlunar. Fljótlega kom í ljós að viðhald skálans yrði ekki unnið í Tindfjöllum sökum slæms ástands skálans og erfiðra aðstæðna. Það var því ákveðið að fyrsta verk hópsins yrði að koma skálanum til Reykjavíkur. Í ágúst 2008 var skálinn sóttur upp í Tindfjöll og fluttur í bæinn. Skálanum var komið fyrir á lóð Reykjavíkurborgar við Kirkjusand (gamla SVR lóðin) þar sem unnið var að endurbyggingu hans, í rúmt eitt ár.

Endurnýjuð var bárujárnsklæðning skálans, nýir gluggar smíðaðir, gert við burðarvirki, nýr pappi og klæðning sett undir bárujarn. Einnig voru gólffjalir, panel í veggjum og lofti og einangrað í hólf og gólf. Nýr rekháfur og kyning var einnig sett upp.

Við framkvæmd verksins var upprunarlega hönnun höfð að leiðarljósi og var framhlið skálans verið færð í upprunalega mynd.

Hópurinn hélt úti vefsíðu um verkefnið, http://isalpskalar.blogspot.com/.

Nánari upplýsingar um Tindfjallaskála.

Bratti 

er í Súlnadal í Botnssúlum. Skálinn hefur verið í niðurníðslu árum saman og var fluttur í bæinn árið 2011 til lagfæringar. Árið 2014 fékk klúbburinn nýjan og veglegan skála að gjöf frá bílaframleiðandanum Land Rover og kemur sá skáli til með að leysa Gamla-Bratta af hólmi. Til stendur að flytja nýja skálann upp í Botnsúlur næsta vetur.

Nýi-Bratti í flutningum
Nýi-Bratti í flutningum