Um Ísalp

 

ÍSALP er félag áhugamanna um fjallamennsku sem leggur áherslu á að vera sameiginlegur vettvangur fjallamanna og stuðla að vexti fjallamennsku á Íslandi. Nafnið dregur Alpaklúbburinn af samskonar félögum sem eru starfrækt um allan heim. Þessi félög miðla upplýsingum um fjallamennsku, halda námskeið, sjá um ferðir, o.s.frv.

Í flestum skilgreiningum á fjallamennsku eru undirgreinar fjallamennsku klifur og fjallaskíðun. Klifri er skipt niður í allskonar undirflokka, inni/úti, klettaklifur/vetrarklifur, sportklifur, dótaklifur grjótglíma, ísklifur, mixklifur, alpaklifur, þurrtólun, háfjallamennska og svo mætti lengi telja. ÍSALP gerir ekki upp á milli klifurstíla eða erfiðleika leiða heldur leitast við að styðja og efla þá alla. Ef þú stundar klifur,  fjallaskíðun eða einhverskonar fjallamennsku þá átt þú heima í ÍSALP.

ÍSALP býður í samstarfi við Íslenska Fjallaleiðsögumenn upp á námskeið í flestum þáttum fjallamennsku. Klúbburinn skipuleggur ferðir við flestra hæfi sem eru gráðaðar eftir erfiðleikastigi. Haldnar eru myndasýningar og umræðukvöld um klifur og fjallamennsku. Árvissir viðburðir eru meðal annars Telemark-festival í Hlíðarfjalli, Ísklifurfestival með breytilegri staðsetningu og Banff kvikmyndahátíðin. Myndarlega er staðið að útgáfustarfsemi með veglegu ársriti, útgáfu leiðarvísa og þessum vef.

ÍSALP hefur haft verulega þýðingu fyrir þróun fjallamennskunnar hérlendis. Í gegnum tíðina hafa flestir Íslenskir fjallamenn verið í klúbbnum í styttri eða lengri tíma. Reynsla félaganna er einn helsti styrkur ÍSALP.

In English

Félagsheimili ÍSALP er í Klifurhúsinu, Ármúla 23, Reykjavík.

Netfang ÍSALP: info [at] isalp.is eða stjorn [at] isalp.is

Póstfang ÍSALP:
Pósthólf 1054
101 Reykjavík
Iceland

Kennitala ÍSALP: 580675-0509

ÍSALP hefur ekki VSK númer

Lög Íslenska alpaklúbbsins

  1. grein Um Íslenska Alpaklúbbinn

Félagið heitir Íslenski Alpaklúbburinn, skammstafað ÍSALP. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Ísalp er félag áhugamanna um fjallamennsku sem leggur áherslu á að vera sameiginlegur vettvangur fjallamanna og stuðla að vexti fjallamennsku á Íslandi.

  1. grein Félagsaðild

Félagar geta þeir einir orðið sem náð hafa 16 ára aldri. Einstaklingar yngri en 18 ára skulu þó leggja fram skriflegt samþykki forráðamanna fyrir aðild. Atkvæðisbærir og kjörgengir eru þeir einir sem greitt hafa árgjald síðastliðins árs fyrir upphaf aðalfundar.

  1. grein Skipun stjórnar og valdbærni

Stjórn Ísalp skipa 7 félagsmenn sem kosnir eru á aðalfundi með leynilegri kosningu. Í stjórninni sitja formaður og sex meðstjórnendur. Kosið er um formann sérstaklega, en stjórn skipar sér gjaldkera og ritara, sem jafnframt er varaformaður, til eins árs. Stjórn skipar árlega fulltrúa í Samtök útivistarfélaga (Samút). Stjórn getur skipað nefndir eftir þörfum.

Kjörtímabil formanns og fjögurra meðstjórnenda er tvö ár en tveggja meðstjórnenda eitt ár. Af þeim meðstjórnendum sem kosnir eru til tveggja ára ganga tveir úr stjórn annað hvert ár. Stjórnarmenn sem ganga úr stjórn geta boðið sig fram til áframhaldandi setu.

Formaður skal ekki sitja lengur en sex ár samfellt.

Stjórnarfundir eru bærir til þess að taka ákvarðanir í samræmi við lög Ísalp ef fjórir stjórnarmenn eru viðstaddir. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns.

Formaður ritar firma félagsins. Formaður og gjaldkeri rita prókúru félagsins.

  1. grein Uppstillingarnefnd

Uppstillingarnefnd er skipuð þremur mönnum sem kosnir eru á aðalfundi og skal kjósa formann hennar sérstaklega, Uppstillingarnefnd skal sjá til þess að framboð berist í allar lausar stöður og sjá um framkvæmd kosninga á aðalfundi. Uppstillingarnefnd skal auglýsa lausar stöður í stjórn. Öllum félagsmönnum er heimilt að bjóða sig fram til stjórnar

  1. grein Skoðunarmenn og reikningsár

Stjórn ber ábyrgð á bókhaldi félagsins. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningum félagsins skal lokið 10 sólarhringum fyrir boðaðan aðalfund.

Á aðalfundi skal kjósa tvo skoðunarmenn. Skoðunarmenn félagsins skulu fá reikninga til skoðunar eigi síðar en 4 sólarhringum fyrir aðalfund svo hægt sé að bera þá upp til samþykktar.

  1. grein Framboð

Framboð til formanns eða meðstjórnenda félagsins þurfa að hafa borist uppstillingarnefnd minnst 10 dögum fyrir auglýstan aðalfund og vera kynntar félagsmönnum með birtingu á vef Ísalp sem og með tölvupóstsendingu á netföng skráðra félagsmanna minnst viku fyrir aðalfund. Berist ekki framboð í öll laus embætti geta kjörgengir félagsmenn boðið sig fram í lausar stöður á aðalfundi eftir að kosningar um framkomin framboð hafa farið fram.

  1. grein Félagsfundir

Stjórn boðar til félagsfunda eftir þörfum. Fundarboð skal birt á vef Ísalp og sent með tölvupósti til skráðra félagsmanna samkvæmt félagatali með minnst viku fyrirvara. Óski minnst fimmtungur skráðra félagsmanna eftir fundi skal stjórn boða til hans á sama hátt.

  1. grein Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málum Ísalp og skal halda hann í september ár hvert. Til hans skal boða með minnst tveggja vikna fyrirvara. Telst fundur löglegur sé hann auglýstur með birtingu fundarboðs á vef Ísalp sem og með tölvupóstsendingu á netföng skráðra félagsmanna skv. félagatali. Á fundinum gilda almenn fundarsköp og ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum mála.

Verkefni aðalfundar eru:
Kosning fundarstjóra sem síðan skipar fundarritara.
Skýrsla stjórnar.
Ársreikningar lagðir fram til samþykktar, undirritaðir af tveimur skoðunarmönnum.
Lagabreytingar.
Kjör formanns Ísalp og meðstjórnenda.
Kjör uppstillingarnefndar.
Kjör tveggja skoðunarmanna ársreikninga.
Ákvörðun árgjalds næsta árs.
Önnur mál.

Atkvæðisbærir félagsmenn geta veitt öðrum félagsmönnum umboð til atkvæðagreiðslu í sínu nafni. Skal umboðið vera skriflegt og berast formanni uppstillingarnefndar í upphafi fundar. Enginn getur þó farið með umboð fleiri en eins manns. Umboð til atkvæðagreiðslu gildir einungis til greiðslu atkvæðis um þau málefni sem kynnt voru félagsmönnum með réttmætum hætti minnst viku fyrir aðalfund.

  1. grein Lagabreytingar

Lagabreytingartillögur skal leggja fyrir aðalfund til samþykktar eða synjunar.

Tillögur að lagabreytingum þurfa að hafa borist stjórn minnst 10 dögum fyrir auglýstan aðalfund og vera kynntar félagsmönnum með birtingu á vef Ísalp sem og með tölvupóstsendingu á netföng skráðra félagsmanna minnst viku fyrir aðalfund Samþykktar lagabreytingar skal birta á heimasíðu Ísalp eins fljótt eftir aðalfund og kostur er og taka þær þá gildi um leið.

  1. grein Slit félagsins

Eigi má slíta félaginu nema það sé samþykkt á tveimur félagsfundum sem boðað er til á sama hátt og til aðalfundar og haldnir eru með minnst mánaðar millibili enda hafi fundarefnis verið getið í fundarboði.

Sé félaginu slitið og hætt starfsemi skulu allar eignir þess, lausa- og fastafjármunir fengnir Ferðafélagi Íslands til vörslu og umsjónar þar til Ísalp verður endurvakið eða annað félag með sama markmiði stofnað. Skal Ferðafélag Íslands fá hinu nýja félagi eignirnar í hendur er það óskar þess.

 

 

Siðareglur Ísalp

Stefna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi

Stefna

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi eru ekki undir neinum kringumstæðum liðin hjá Íslenska Alpaklúbbnum (ÍSALP). Meðlimir sem með framkomu sinni, orðum, viðmóti eða atferli sýna slíka hegðun gagnvart öðrum meðlimum í viðburðum félagsins, hvort sem um er að ræða einstakt tilvik eða ítrekaða hegðun, telst brjóta gegn þessari grundvallarreglu félagsins. Slík hegðun getur leitt til áminningar eða eftir atvikum brottvikningar úr félaginu.

Stefna þessi gildir um alla meðlimi og stjórn félagsins.

Markmið

Markmið þessara stefnu er að vinna gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi og leggur félagið áherslu á að skapa og viðhalda umhverfi þar sem gagnkvæm virðing, traust, heiðarleiki og faglegt viðmót er í hávegum haft í öllum samskiptum. Allir félagar á viðburðum skulu njóta jafnræðis án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kyntjáningar, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu í allri starfsemi ÍSALP.

Mikilvægt er að allir þeir sem koma fram fyrir hönd félagsins fari fram með góðu fordæmi og stuðli að því með framkomu sinni að skapa menningu þar sem öllum hagaðilum líður vel og gagnkvæm virðing ríkir.

Það er markmið að allir þeir sem starfa eða ferðast á vegum ÍSALP þekki boðleiðir ef upp kemur grunur um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi og geti brugðist við með réttum hætti ásamt því að vera meðvitaðir um málsmeðferð slíkra mála.

Það er enn fremur markmið að tryggja hagsmuni bæði meints þolanda og meints geranda og að faglega og yfirvegað sé tekið á öllum málum.

Skilgreiningar

Einelti

er endurtekin ótilhlýðileg háttsemi sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður svo sem með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda viðkomandi ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir. Almennt gildir að til að hegðun teljist einelti þarf mynstur endurtekinnar, lítillækkandi eða neikvæðrar hegðunar og þróunar samskipta að vera til staðar og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.

Kynferðisleg áreitni

er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundin áreitni

er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Ofbeldi

er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða svipting frelsis.

Tilkynningar

Einstaklingur sem telur sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi í viðburðum á vegum ÍSALP eða af hálfu einstaklings sem kemur fram fyrir hönd félagsins, eða hefur rökstuddan grun eða vitneskju um slíka hegðun, getur tilkynnt slíkt til stjórnar ÍSALP. Ef stjórnarmeðlimur er aðili að máli skal tilkynna til formanns félagsins. Formaður félagsins, ber ábyrgð á að unnið sé úr slíkri tilkynningu í samræmi við viðbragðsáætlun félagsins.

Viðbragðsáætlun

Félagið fer eftir viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarfs sem er landslæg áætlun vegna atvika og áfalla sem geta komið upp í félagsstarfi slíkrar starfsemi. Í samræmi við viðbragðsáætlunina skal við meðferð máls sýna varfærni og nærgætni með virðingu allra málsaðila í huga. 

Samþykkt stefnu

Stefna þessi skal vera aðgengileg öllum á vefsíðu ÍSALP. Stefnan skal kynnt fyrir nýjum stjórnarmeðlimum.

Stefna þessi skal vera endurskoðuð þegar þurfa þykir og samþykkt á stjórnarfundi félagsins.

Þannig samþykkt á stjórnarfundi ÍSALP þann 17.apríl 2023