Gin Glyms WI 5
Veturinn 2023 var óvenju kaldur; á suðvesturhorninu var talað um kaldasta veturinn í hundrað ár. Þetta skapaði einstakar aðstæður í Glymsgili og þá sérstaklega fyrir vatnsfallið Glym. Þann 17. janúar héldu íslendingur búsettur á ítalíu og ítali búsettur á Íslandi inn gilið, með það að markmiði að klifra eina af mörgum sögufrægum leiðum innst í gilinu. Það fór hins vegar á annan veg. Sökum einstakra aðstæðna og ruglingslegra teikninga þá klifruðu þeir nýja leið. Á meðan klifrinu stóð töldu þeir sig vera á Sacrifice (WI5+) eða tilbreytingu við Draumaleiðina (WI5+) en síðar kom í ljós að um hvorugt var að ræða.
Fyrri helmingur leiðar liggur beint up í „gin“ Glyms – þar sem flæði vatns er sterkast og fossinn er venjulega opinn og vatnið spýtist úr honum eins og úr gapandi munni. Leiðin Sacrifice er á vinstri hönd og Draumaleiðin er töluvert til hægri (hún endar á suðurbarmi gilsins). Þessi fyrri partur innihélt heila spönn af yfirhangandi blómkálshausum sem gerði tryggingar nokkuð snúnar og klifrið krefjandi þar sem hver þrívíddarþrautin tók við af annarri. Það má segja að ísmyndanir á þessum hluti hafi minnt á stórar skattar tennur í jötni, sem er afar viðeigandi. Á seinni helmingi leiðar þurfti að hliðra til hægri þar sem fossin var ennþá opinn í efri hlutanum. Nafnið „Gin Glyms“ þykir því lýsa leiðinni nokkuð vel, það er stuðlað sem er vinsæll siður í íslenskri tungu, og svo má vera að áhugi klifrara á Gin&Tonic hafi spilað eitthvað inn í.
Leiðarlýsing
Leiðin hefst milli Sacrifice og Draumaleiðin. Þær leiðir eru númeraðar 14,1 og 14,5 hér. Miðað við þessar tölur ætti Gin Glyms að vera 14,2 þar sem hún er nær þeirri fyrrnefndu. Leiðin er löng (yfir 200 metrar) og hér er tilraun að vídeótópo til þess að sýna hana í heild sinni.
Spönn 1 (35m WI4+): Í fyrstu spönn er farið beint upp, á nær lóðréttum ís sem er að mestu sléttur. Akkerið var valið þar sem fyrsta hvíldin bauðst – áður en blómkálshausasúpan tók við. Í upphafi spannar þurfti að klöngrast yfir sprungu þar sem ísinn á botni árinnar hafði skilið sig frá fossinum.

Spönn 2 (55m WI5): Fyrst er hliðarð til hægri um fimm metra. Þannig er tryggjarinn úr falllínu og klifrarinn er beint fyrir neðan blómkálshausaævintýrið. Gæði íssins í þessari spönn var allskonar en alltaf fundust samt tryggingar til að róa sálarterið. Þökin og grýlukertin útheimtu tækni sem var meira eins og grjótglíma en hin dæmigerða rútina sem fylgir bröttum ís. Það var stundum erfitt að sjá hvert ætti að halda þegar hvíld var tekin undir þaki og þá var gott að geta kallað niður til tryggjarans og spurt til vegar. Spönnin endar við stóran ísvegg, við botninn þar sem fossin var opinn, en þar var skjól fyrir úða og fallandi ís.

Spönn 3 (75m WI4+): Hefst á ísgöngu í aflíðandi rás sem endar hægra megin við dynjandi fossinn. Það er hægt að tryggja hægra megin við rásina og í frumferð var sett ein skrúfa þar, á miðri leið. Það var talið mikilvægara að koma sér sem fyrst yfir þennan kafla þar sem hann veitir enga vörn gegn úða eða hrynjandi ís. Þegar komið er á hinn endann er nóg af ís fyrir skrúfur. Þessi rás er um 15-20 metrar, afgangurinn af spönninni er hefðbundið bratt ísklifur. Notað var 60m einfalt reipi í frumferð og var það framlengt í 75 metra með því að nota hlaupandi trygginar við lok spannarinnar.

Spönn 4 (60m WI4+): Hefst á bröttu en frekar stuttu íshafti. Eftir það var klifrað á afar viðkvæman máta, þar sem snjór huldi ísinn. Brattinn var ekki 90 gráður þannig að það var hægt að halla sér inn í snjóinn en allar hreyfingar þurfti að framkvæma varlega til að fara ekki að renna af stað, í vitlausa átt! Tryggingar þurfti að leita uppi, oft voru langir kaflar með engum tryggingum. Eftirá að hyggja hefði verið hægt að klifra á betri ís lengra til vinstri en það hefði sett klifrara nær dynjandi fossinum sem býður heim öðrum hættum. Á þessari spönn kláruðum við líka reipið og fundum þar góða ís fyrir akkeri. Þetta leiddi þó til þess að við þurftum að klifra stutta aukaspönn til að komast upp á Botnsá þar sem hún fellur fram af gilinu.
Spönn 4.1 (10m WI3): Þessi spönn virkaði fislétt í samanburði við allt annað sem við höfðum gert þennan dag. Ekki mikið um hana að segja annað en að þegar við hófum hana þá höfðum við ekki hugmynd um hvað væri langt eftir, þar sem ekki sést upp úr gljúfrinu frá akkerinu á fjórðu spönn.

FF. Halldór Fannar og Matteo Meucci, 17. janúar 2023
Klifursvæði | Glymsgil |
Tegund | Ice Climbing |
Myndbönd