Farartálmi

Leið númer 4. á mynd

Gráða II, 175 m

Skemmtileg snjóklifurleið upp á austurhrygg Syðstusúlunar, upp úr Miðsúludal. Engir meiriháttar erfiðleikar eru á leiðinni, en bratti er mikill, sérstaklega efst. Farið er upp austast úr skálinni fyrir norðaustan hátind Syðstusúlunar. Er þá stefnt til austurs, upp í gilið undir stóra klettinum, sem er um 200 m  fyrir neðan (austan) hátind Syðstusúlu. Dálítil ísing getur verið á klettinum og smáhengja rétt áður en farið er upp í gilið, annars er leiðin greið og án teljandi farartálma.

Klifursvæði Botnssúlur
Svæði Syðstasúla
Tegund Alpine

Þrengslin

Þessi grein er ekki til á íslensku. For the sake of viewer convenience, the content is shown below in the alternative language. You may click the link to switch the active language.

Leið númer 3 á mynd

Gráða III/IV, 150 m (erfiðleikarnir efstu 70m)

Úr leiðavísi frá 1979:
Löng ís og snjóklifurleið, fær við bestu skilyrði og aðeins fyrir mjög „vana“ klifurmenn. Lagt er af stað úr Miðsúludal og farið upp breitt gil, sem sker klettabeltið, og snjóbrekku að þrengslunum. Þessi kafli er um 80 m og telst til I. gráðu snjóklifurs. Höft eða hengjur eru ekki á þessari leið. Bratti er mikill uppi í mynni sjálfra þrengslanna og neðst í þeim er um 5 m langt 70° bratt íshaft. Hér er best að reka inn ísskrúfu eða ísfleyg og tryggja næsta mann upp til sín áður en lagt er á brattann. Þegar komið er upp fyrir fyrsta íshaftið minnkar hallinn í um 50° og helst það næstu 10 m. Þá tekur við um 8 m langt og 70° bratt íshaft. Ágætt er að reka inn millitryggingu áður en lagt er í haftið. Þegar upp fyrir haftið er komið, klofnar leiðin í tvennt, best er að halda beint áfram, því leiðin til hægri er ekki samfelld, klettar slíta hana í sundur á kafla. Haldið er áfram, uns leiðin skiptist aftur, þá er stansað, enda um 35-40 m niður til næsta manns. Nú er tryggt með ísöxi og/eða snjóankeri (stundum betra að nota ísskrúfur) og til öryggis má negla bergfleyg í klettinn. Nú er næsti maður tekinn, því næst farið upp íshaftið sem er lengt til hægri (vesturs), því að jafnaði er mesti ísinn þar. Upp að haftinu, sem er jafnframt síðasti og erfiðasti „farartálminn“ á leiðinni er um 50° bratti, en haftið sjálft er yfir 80° og 4-6 m langt. Millitrygging áður en langt er á haftið er ákjósanleg. þegar komið er upp úr þrengslunum, tekur við samfelld snjóbrekka. Er þá klifrað upp á hrygg Syðstusúlunnar og næsti maður tekinn upp.

Klifursvæði Botnssúlur
Svæði Syðstasúla
Tegund Alpine

Klettur

Leið númer 2 á mynd

Gráða I, 130 m

Löng klifurleið úr Miðsúludal upp að kletti á austurhrygg Syðstusúlunnar. Tryggingar eru nauðsynlegar og heppilegast að nota snjóankeri og /eða ísaxir. Gilið, sem farið er upp eftir, er fremur einföld snjóleið. Alvarlegar hengjur eða íshöft eru ekki á þessari leið.

Klifursvæði Botnssúlur
Svæði Syðstasúla
Tegund Alpine

John Snorri á topp Lhotse

Mynd fengin frá http://www.mountainsoftravelphotos.com/Lhotse/Main.html

Þann 16. maí, klukkan 10:20 varð John Snorri Sigurjónsson fyrstur Íslendinga til að stíga á topp Lhotse. Þessu er sagt frá á heimasíðu styrktarfélagsins Líf.

Lhotse er hluti af Everest fjallgarðinum og er fjórða hæsta fjall í heimi, á eftir Everest, K2 og Kangchenjunga, öll í Everest fjallgarðinum. Lhotse er 8.516 m á hæð og tók það John Snorra um 17 klukkustundir að ganga upp á tindinn sjálfan og fjórar stundir niður aftur.

Næst er John Snorri að miða á að klífa fjallið K2 sem er það næst hæsta í heimi, 8.611 m, en jafnframt það erfiðasta og hættulegasta. Aðeins um 300 manns hafa náð á tind K2 en 77 hafa látið lífið við það að reyna.

Við óskum John Snorra alls hins besta í þessum leiðangri og hlökkum til að heyra fleiri fréttir af framvindu ferðarinnar.

 

Botnssúlur

Ísalp hefur um árabil átt og séð um skálann Bratta í Súlárdal í Botnssúlum. Skálinn hefur lent í ýmsum hremmingum í gegnum tíðina. Farið var með nýjan skála upp í Súlárdal í mars 1983. Gengið var frá honum þannig að hann myndi þola vond veður þar til að gengið væri endanlega frá honum um sumarið. 17 apríl gerði hins vegar fárviðri af norðaustri. Að sögn bænda í Brynjudal var þetta alversta veður í áraraðir og fuku meðal annars þök af húsum þar. Í þessu veðri fauk Bratti í heilu lagi og brotnaði niður í spýtnabrak. Strax var hafist handa við endurbyggingu og 1984 var kominn upp nothæfur skáli.
2011 var Bratti aðframkominn vegna slæms viðhalds og var fluttur í bæinn til lagfæringar. Árið 2014 fékk klúbburinn nýjan og veglegan skála að gjöf frá bílaframleiðandanum Land Rover og kemur sá skáli til með að leysa Gamla-Bratta af hólmi. Gamli-Bratti var gefinn til að rýma fyrir þeim nýja og hann þjónar nú sem verkfæraskúr við sumarbústað á Suðurlandi.
Til stendur að flytja nýja skálann upp í Botnssúlur næsta vetur í samstarfi við Ferðafélag Íslands.

Frá Bratta eða úr Súlárdal, einnig þekktur sem Súludalur, er hægt að stefna á nokkrar mismunandi Súlur. Skráðar eru leiðir í Hásúlu, Miðsúlu og Syðstusúlu en líklegt þykir að hægt sé að fara leiðir í Vestursúlu eða í Súlnabergi.

Gefnir hafa verið út nokkrir leiðavísar um Botnssúlusvæðið:
Leiðavísir Ísalp nr. 6 – Botnssúlur, fyrri hluti
Leiðavísir Ísalp nr. 7 – Botnssúlur, seinni hluti
Leiðavísir Ísalp nr. 19. – Leiðir í Bratta

1. Syðstasúla (1093m)
Hæðsta Súlan og jafnframt sú vinsælasta til að ganga á.

Norðausturhlíð
1. Austurhryggur – Gráða I
2. Klettur – Gráða I
2a. Klettur afbrygði – Gráða II
3. Þrengslin – Gráða III/IV
4.  Farartálmi – Gráða II

Norðurhlíð
4a. Morgunfýla – WI 3/4

Norðvesturhlíð
5. Tog – Gráða II
6. Dráttur – Gráða II

 

2. Háasúla (1023m)
Læðsta súlan í Botnssúlum, aðeins Súlnaberg er lægra. Ekki er vitað hvaða kaldhæðni var í gangi þegar að þessi tindur var nefndur eða hvort að fólk hafi almennt haldið að Háasúla væri hæðst.

Vesturhlíð
7. Vesturgil – Gráða II
8. Norðurgil – Gráða II

3. Miðsúla (1086m)
Jafn há og Vestursúla og stendur næst skálanum Bratta. Leiðirnar á norðurhlíðinni eru skýrðar eftir frægum persónum úr Andabæ Ripp, Rapp og Rupp. Bræðurnir þrír eru jafnhæfir í öllu, hvort sem um er að ræða að gáfnafari, leikhæfni í tölvuleikjum, og eru allir jafnir að hæð og þyngd, þetta kemur saman við leiðirnar þrjár sem eru allar Gráða I/II og eru 90-100 m

Suðausturhlíð
9. Direct – Gráða II/III
10. Sveigjan – Gráða I

Norðurhlíð
11. Ripp – Gráða I/II
12. Rapp – Gráða I/II
13. Rupp – Gráða I/II

4. Vestursúla (1086m)

Vinsæll tindur til að ganga á, sérstaklega úr Botnsdal. Engar leiðir skráðar hér en sennilega hægt að klifra eitthvað.

5. Súlnaberg (954m)
Engar leiðir skráðar en nafnið gefur til kynna að þarna sé eitthvað sem vert er að skoða.

 

Suðurhlið Tindsins

Önnur af tveim leiðum á Tindinn, 1251 m háan klettastapa sem Tindfjöll eru kennd við.

Frá Efstaskála (Ísalp skálanum) er um 300 m lækkun niður í gil Þórólfsár. Þaðan um 700 m hækkun á Tindinn.

Áætlaður göngutími: 4-6 klst. úr Efstaskála upp að Tindi. Auk þess má ætla 1-2 klst. í klifrið upp á Tindinn.

Farið er upp Tindinn að suðaustan. Er það um 80 m hátt klifur, fært bæði vetur og sumar, en mun aðveldara í hjarni og ís. Er þetta ca. 2.-3ju gráðu snjó/ís-klifur. Að sumarlagi er fátt um góðar tryggingar, bergið yfirleitt laust.

Leið nr 11.

Klifursvæði Tindfjöll
Svæði Tindurinn
Tegund Alpine

Norðurhlið Tindsins

Ein af tveimur leiðum sem liggja upp á Tindinn, 1251 m hár klettastapi sem Tindfjöll eru kennd við.

Frá efsta skála (Ísalp skálanum) eru um 5 km að Tindinum, um 2,5-2,5 klst og 1-2 tímar í klifrið sjálft.

Þægilegt er að klifra SV hrygginn upp á Hornklofa og halda svo eftir hryggnum sem liggur í suður þar til komið er að Tindinum.

Norðurhlið Tindsins er talin erfiðari en suðurhlíðin, trúlega ófær að sumri til. Bestu aðstæðurnar yrðu seinni hluta vetrar og að vori til, í ís og harðfenni. Þessi hlið Tindsins var fyrst klifin, svo vitað sér, í apríl 1979. Klifrið er um 80 m hátt, meðalhalli 55°, tvö höft þó um 70° brött. Telja má þetta  3ju gráðu snjó/ís-klifur. Lagt er upp frá lægð í háhryggnum, rétt norðan undir Tindinum. Er þá fyrst farið yfir í bratta austurhlíðina, síðan upp klettahaft, oft ísi lagt. Er þá komið upp að klettarana, þaðan haldið upp snjólænu norðan í Tindinum sem liggur upp á hæðsta kollinn.

 

FF: Jón E. Rafnsson og Guðjón Ó. Magnússon, 28.04 1979, WI 3

Klifursvæði Tindfjöll
Svæði Tindurinn
Tegund Alpine

Kerling

Eftir stofnun Íslenska alpaklúbbsins var þessi drangi fyrsta frumferðin sem að var farin í nafni klúbbsins og um það birtist lítil fréttagrein í öðru tölublaði af Ísalp fréttabréfinu.

Þar segir: Kerlingin í Kerlingarfjöllum var klifin helgina 29.-30. október af Helga Benediktssyni, Arngrími Blöndahl og Arnóri Guðbjartssyni. Þeir voru rúma 5 tíma að klifra upp og lá við að þeir klifu í hring á leiðinni upp. Hæðin á Kerlingunni reyndist vera um 23m brekkumegin en nálægt 30m hinu megin. Hún er úr móbergi og hefur ekki verið klifin áður, að því að bezt er vitað. Þeir félagar skildu kræklóttan fleyg eftir uppi á toppnum.

Ári síðar var Kerlingin endurtekin og birtist á forsíðu sjöunda tölublaðs Ísalp fréttabréfsins.

Þar er klifrinu lýst aðeins nánar: Kerlingin er gerð úr þursabergi, sem er mjög laust í sér, og verða fleygafestur þar af leiðandi mjög ótryggar. Nauðsynlegt er að nota stiga við hluta klifursins, vegna þess, hve handfestur eru fáar og ótryggar.
Við byrjuðum á austurhlið klettsins, og var þar fyrir um 5 m hár veggur, þverhníptur. Fyrir ofan hann varð fyrir sylla, og fikruðum við okkur þaðan nokkra metra upp stalla , en fórum þó ávalt lítið eitt til hliðar, réttsælis. Þá varð fyrir okkur veggur ca. 70° brattur, en sléttur eins og sópað stofugólf. Rákum við þar tvo fleyga beint inn í steininn, en þeir voru ekki fastari en svo að þeir rétt héldu þyngd eins manns.
Þegar þessi veggur varð á enda, komumst við á gríðarmikla syllu í 20m hæð, en þar fyrir ofan var slúttandi veggur um 4-5 m hár, og var bergið í honum líkt og jökulruðningur, samþjöppuð möl, sem molnaði við hamarshögg. Þarna stöldrum við lengi við og reyndum árangurslaust að finna leið framhjá. Reyndum við marga fleyga þarna, en þeir bognuðu flestir. Að lokum komum við lengsta fleygnum okkar inn, reyndar svo kyrfilega, að erfiðlega gekk að losa hann síðar.
Eftir að þessi hindrun var yfirunnin, var greið leið upp á topp, en toppur klettsins er tvíklofinn, og kemst aðeins einn maður fyrir á þeim hærri í einu.

Frá 1977 og næsta áratuginn um það bil var mjög vinsælt að fara á Kerlingu. Eftirfarandi skopmynd birtist í 21. tölublaði Ísalp fréttaritsins.

FF: Helgi Benediktsson, Arngrímur Blöndahl og Arnór Guðbjartsson 30. október 1977

Klifursvæði Kerlingarfjöll
Svæði Kerling
Tegund Alpine

Kerlingarfjöll

Kerlingarfjöll eru fjallgarður á hálendi Íslands, nálægt Kili og mitt á milli Langjökuls og Hofsjökuls. Kerlingafjöll eru nefnd eftir dranga við Kerlingartind sem heitir Kerling.

Á Kerlingafjallasvæðinu er aðeins ein klifurleið þekkt, en það er á drangan Kerlingu.

 

Vegvísir WI 4+

Leiðin er vinstra megin á svæði 2

Vegvísir er níutíu metra IV-V gr. (IV+) ísfoss í botni Blikdals í Esjunni. Fossinn var klifraður i fjórum stuttum spönnum. Aðalerfiðleikarnir fólust í tveimur litlum Þökum og lengd leiðarinnar. Þegar fossinn er í góðu ástandi er hann með skemmtilegustu leiðum sem hægt er að klifra, segir Páll Sveinsson, annar þeirra sem leiðina fóru. Mestar líkur eru á að leiðin sé í góðu ástandi seinni hluta vetrar eftir snjólétt tímabil.

FF: April 1991, Páll Sveinsson og Guðmundur Helgi Christensen.

Klifursvæði Esja
Svæði Blikdalur
Tegund Ice Climbing

Hvannartak

Leið 37a, nákvæm staðsetning óljós

Þriggja spanna III gr. leið austarlega i Búahömrum á klettahöfða vinstra megin við Flatnasa (37) . Leiðin er nefnd Hvannartak.

FF: Snævarr Guðmundsson og Árni Tryggvason, október 1990

Klifursvæði Esja
Svæði Búahamrar
Tegund Alpine

Bland í poka

Leið 30a, nákvæm staðsetning er óljós en þarna rétt til hægri eru rifin þrjú sem ættu að vera nokkuð áberandi

Blönduð klifurleið vestan við leið nr. 31 (Miðrif)  og vestasta rifið (30b). Alvarleg spönn þar sem brattur klettakafli er klifinn á þunnum mosa.

FF: Páll Sveinsson og Snævarr Guðmundsson 25.02. 1990, Gráða IV+, ís

Klifursvæði Esja
Svæði Búahamrar
Tegund Alpine

Kannan WI 4

Leið merkt inn sem 11a

Leiðin liggur upp gil vinstra megin við leið nr. 12. (Lauganípugil vestara). Hún byrjar í stuttu 4. gr. íshafti, síðan tekur við snjóbrekka upp að stuttu 3. gr. klettahafti, að lokum tekur við snjógil upp á brún. Leiðin er um 200 metra löng.

FF: Haraldur Örn Ólafsson, Ingimundur Stefánsson og Stefán S. Smárason, febrúar 1990

Klifursvæði Esja
Svæði Vesturbrúnir
Tegund Ice Climbing

NA-hlíð Kirkjunar

Tindaborg (1695 m) er tindur sem skagar upp úr ísfallinu í Svínafellsjökli, mitt á milli Hvannadalshnúks og Hrútfjallstinda. Tindurinn er einnig þekktur sem Fjallkirkja eða Tröllkirkja á meðal fjallamanna. Þessi tindur er aðeins fær í vetraraðstæðum þegar að snjór og ís hafa myndast á Kirjunni. Oft duga þessar vetraraðstæður fram í maí en þegar að bergið er bert verður veggurinn ókleifur vegna þess hver lélegt bergið er í tindinum.

Aðkoman um Svínafellsjökul fer upp austan megin á honum, yfir skriðuna sem nú er komin á hann og upp austan megin við ísfallið, þar hafa einhver teymi tjaldað en vel gerlegt er að fara upp og niður á einum löngum degi. Stefnt er á vinstri (vestari) hlið Kirkjunar og farið norður fyrir.

Einnig er hægt að koma að Tindaborg frá Hvannadalshnúk, þá er gengið norður fyrir Hnúkinn og þaðan beint niður að Kirkjunni.

Þriðja leiðin að Kirkjunni er að fara frá Dyrhamri og vestur fyrir Hnúkinn.

Myndin hér að neðan sýnir leiðina frá Svínafellsjökli á Hvannadalshnúk með viðkomu við Kirkjuna

 

Í fréttabréfi Ísalp númer 10, segir:

Var það allerfitt klifur upp NA -hlíðina, 100m háan ísvegg. Voru þeir félagar 4 1/2 klsti úr tjaldstað, í um 400 m hæð á Svínafellsjökli, upp að Kirkjunni. Klifrið tók síðan 4 tíma og notuðu þeir ísskrúfur til tryggingar enda meðalhalli brekkunar 60-70°.

Þessi leið var um tíma erfiðasta ísklifurleið á íslandi og var fyrst til að fá fjórðu ísklifurgráðuna

 

FF: Arngrímur Blöndahl, Arnór Guðbjartsson og Helgi Benediktsson, 1.04 1979

Klifursvæði Öræfajökull
Svæði Tindaborg
Tegund Alpine