Reykjavík
Reykjavík er ekki þekkt fyrir ísklifur en þó leynast einhverjar línur hér og þar. Þessi síða er fyrst og fremst búin til til að miðla aðstæðum og upplýsingum um ísklifurturninn í Gufunesi en þó taka til stakar línur í nágrenni Reykjavíkur líka.
Gufunes
Í frístundarmiðstöðinni í Gufunesi er gamall súrheysturn. Innan í honum eru klifurfestur þar sem að börn geta klifrað. Utan á turninum fékk alpaklúbburinn að koma fyrir úðarakerfi sem lætur vatn leka niður norðurhlið turnsins þegar að frost fer niður fyrir -2°C.
Aðeins má klifra turninn í ofanvaði (top-rope) svo að það þarf að fara inn í turninn og setja línur í gálga sem skaga út á toppnum. Til að komast inn í turninn þarf að nálgast lykilinn af honum. Ísalp hefur komið fyrir lyklaboxi fyrir aftan einn af gámunum á lítið áberandi stað. Til að nálgast númerið skal senda skilaboð eða hringja í:
- Frey Inga í númerinu 778-1122
- Hauk Má í númerinu 692-1684
- Jónas G. í númerinu 690-7607
Þegar inn er komið skal ýta á grænan takka hægra megin við stigan sem liggur upp. Takkinn slekkur á vatnsflæðinu í 30 mín, tæmir lögnina svo að það frjósi ekki í henni og kveikir á kastara sem lýsir upp ísinn ef verið er að klifra á kvöldin. Því næst þarf að fara upp stigann á pall, opna glugga og skella línu í gálgann sem skagar út. Einn gálgi fyrir hvora leið.
Almennar umgengnisreglur fyrir turninn:
- Ekki klifra þegar að ÍTR er með sína starfsemi í gangi.
- Ekki klifra ef ísinn er of þunnur,f ylgjast með hvenær ísbændur gefa grænt ljós á klifur í turninum.
- Huga að fallandi ís og að allir nálægt séu með hjálm.
- Reyna skal að brjóta eins lítinn ís og hægt er, leyfa fleirum að njóta.
- Alltaf skal klifra í ofanvaði, við megum sennilega ekki vera þarna áfram ef alvarlegt slys verður.
- Setjið lykilinn strax í lyklaboxið um leið og búið er að opna turninn.
- Muna að loka turninum þegar búið er að klifra og að hann sé örugglega læstur.
Úlfarsfell
Nokkrar línur eru mögulegar í Úlfarsfelli en lítið er vitað um klifur í fjallinu. Norðurhliðin sem snýr að Mosfellsbæ hefur að geyma allskonar gilskorninga og veggi, suma hverja með ís. Þetta gæti orðið príðis svæði til að skjótast á og brölta aðeins.
Vitað er um eina leið á norðvestur hlið fjallsins, sem snýr að þjóðveginum. Leiðin er alla jafna stutt WI 3 en verður stundum jafnvel WI 2 eða bara snjóbrekka ef að gilið fyllist af snjó
Korputorg
Á Korputorgi kemur vatn út úr bergi á einum stað á bílastæðinu. Veggurinn er um 4-5m hár og myndar þetta byrjendavænar aðstæður til að æfa ísklifur
Höfðatorg
Komið hefur verið fyrir boltum á einum veggjana á Höfðatorgi. Um fjórar leiðir er að ræða
- Vinstri leiðin – 5.10a
- Hægri leiðin – 5.10c
- Byrja á vinstri og enda á hægri – 5.10c
- Byrja á hægri og enda á vinstri – 5.10b
Klifurfélag Reykjavíkur hefur fengið leyfi hjá eigendum til þess að mega klifra á veggnum. Eigendur hafa beðið um að nokkrum reglum sé fylgt:
- Ekki klifra á þeim tíma sem starfsemi er í byggingunni þ.e. 9:00-16:00 á virkum dögum, það truflar vinnufrið á skrifstofum.
- Ekki klifra á nóttunni þ.e. eftir 00:00.
- Ekki vera með óþarfa læti eða hávaða.
Svona leit turninn út í gær: http://www.isalp.is/wp-content/uploads/2018/01/20180121_150356.jpg
Vinstra megin nær ísinn alveg upp (er reyndar holur að innan). Ég og Dóri affrystum lögnina, svo að það ætti allt að virka fínt núna.