Til hvers isalp.is?

Home Umræður Umræður Almennt Til hvers isalp.is?

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #47593

    Það er að verða algengara að fólk sniðgangi algerlega ísalpvefinn þegar það fjallar um t.d. ísklifurferðir eða spjallar um klifurtengd málefni sem venjulega hafa verið rædd á Ísalpspjallinu. Skil alveg að menn pósti myndum á fésinu rétt eins og í annars konar gallerýum sem lengi hefur verið gert. En hingað til hafa menn þó sett linka inn á Ísalpvefinn. Þegar menn eru hættir því þá er bara alveg gengið framhjá spjallinu á Ísalpvefnum.

    Ég sá að heilmikil umræða hefur verið í gangi um hjálma á fésinu, eitthvað sem ég sá t.d. ekki fyrr en löngu eftir að hún hófst því ég nota fésið mjög lítið. Það er auðvitað val hvers og eins hvort og hvernig þeir nota Ísalpvefinn. En ef menn velja að sniðganga hann í auknum mæli þá fer maður að spyrja sjálfan sig hvort það sé þess virði að halda þessum klúbbvef uppi og leggja heilmikla vinnu í það.

    Það getur vel verið að fólki finnist skemmtilegra og þægilegra að hafa þetta allt innan minni og lokaðri hópa á fésinu í stað þess að hafa þetta opið og aðgengilegt fyrir alla. Ég er ekki sammála því og er hálfsvekktur yfir þessari þróun þar sem mér þykir mjög vænt um klúbbvefinn og þann vetvang sem hann hefur verið. Fyrir mér er isalp.is bakbeinið í klúbbnum og ef hann missir gildi sitt þá er ekki mikið eftir af Ísalp.

    Það væri áhugavert að heyra hvað þið hafið um þetta að segja.

    Kv. Björgvin

    #56001
    1908803629
    Participant

    Ég tek undir þessar vangaveltur hjá Bjögga… Finnst alltaf jafn leiðinlegt hvað umræða er alla jafna lítil á síðunni og þegar eitthvað er sagt þá er það gjarnan fámennur hópur sem er eitthvað að tjá sig.

    Þessi fámenni hópur lætur þetta stundum líta út eins og isalp.is sé í raun enn ein fámenna klíkan og hef ég reyndar heyrt aðra fjallamenn benda á þessa „staðreynd“ til að útskýra takmarkaða aðkomu að síðunni og klúbbnum.

    Nú veit ég ekki hversu margir eru að fara inn á síðuna en ef það er ágætis fjöldi þá er heimasíðan eflaust að standa undir sínu. Hitt er hve óduglegir menn/konur eru að segja frá sínum ævintýrum og jafnvel enn verra er hve fólk er óduglegt að kommenta á hvað aðrir eru að gera – sem dregur líklegast úr líkum á því að sagt verði frá næsta ævintýri.

    Ég er kannski kominn í of djúpar pælingar um orsök og afleiðingu en er kannski að gefa í skyn að hugsanlega hefur einhver bolti farið af stað og það hefur hlaðist á hann jafnt og þétt og engn ein orsök fyrir þessu. Afraksturinn er aftur á móti sá að á ca. 5 árum hefur Ísalp breyst úr því að vera hjartað í fjallamennsku íslands (kannski full jákvæð lýsing) yfir í það að vera einn af mörgum valkostum sem upprennandi fjallakall/kella getur sótt í og tengt sig við. Léleg þáttaka á isalp.is er síðan bara ein birtingarmyndin á þessu vandamáli…

    Annars fer ég örugglega 5 sinnum á dag á síðuna og fylgist gaumgæfilega með flestu sem gerist þar… Ómeðvitað er ég, held ég, að stilla mínum kommmentum í hóf einfaldlega af því að þá væri ég eflaust „þessi sem er alltaf að skrifa á síðuna“ – af því að skrifin eru það lítil… Yrðu samskiptin virkari myndi ég eflaust láta heyra meira í mér.

    #56002
    0703784699
    Meðlimur

    Það var lagst í mikla könnun hér f. all nokkrum árum um gildi vefsins og hlutverk hans. Það skapaði einhverja umræðu á þeim tíma og kannski vert að taka aftur upp þráðinn.

    Ísalp skipar veigamikinn sess í fjallaumræðunni hjá mjög svo þröngum hópi, sennilega þeim sem klifra meira en hinn almenni björgunarmaður. Einhvern tímann var komist að orði að kalla þá sem stunda Ísalp meira harðkjarna en hina, og var það frekar umdeilt orðaval (en það tengdist því hvort við ættum að tengjast Ferðafélagi Íslands ofl). Ég held að björgunarfólk sem klifrar af og til haldi sig annarsstaðar en hér. Ég held að þeir sem teljist til sportklifrara séu ekki mikið að hanga á Ísalp? Er þetta bara mín tilfinning og er ég alveg á villigötum þegar ég segi það.

    Nú veit ég ekki hvaða umræðu um hjálma þú ert að tala og ég held að mér gæti ekki verið meira sama hvort að menn vilja nota þennan eða hinn hjálminn, hvað hann er gamall osfrv. Hvort þessi umræða á heima hér á vefnum en ekki öðrum samskiptaforritum er vandsvarað. En eitt er víst að á næstu árum á það eftir að breytast mjög hvernig við höfum samskipti.

    Það sem er hættulegast með svona vefi er að viss húmor, úttúðun og fleira getur fælt fólk frá vefnum. Þannig að við sem sækjum hann verðum að passa okkur á því hvað fer hér inn. Ég veit ekki til þess ða hér hafi veri stunduð ritskoðun. Ég held að allir geti sannmælst um það að umræða um nýjar leiðir, ferðir framundan, aðstæður og annað sé af hinu góða.

    Ég held að ég sé ekki langt frá því þegar ég segi að þeir sem skoði vefinn reglulega séu ekki mikið fleiri en 200 ef þeir ná þeirri tölu. Efast um að við fáum mikið fleiri en 400 einstaklinga sem skoða vefinn á ári. Það er ansi þröngur markhópur. En ég hef svo sem ekkert til að styðjast við þessar tölur.

    Persónulega finnst mér alltaf gaman þegar settar eru inn fréttir af umræðunni sem er á öðrum síðum, erlendis. Ég hef ekki tíma til að skoða klifur.is, klifurhusid.is, klifur.com og aðrar síður sem eru að reyna að henda inn efni um það sem er að gerast hér. Ég treysti því bara að það helsta skili sér á Ísalp og það nægir mér. En varðandi topo mál að þá held ég að það sé í lagi að vera með það á öðrum síðum, klifur.is osfrv en bara ef við erum með skilmerkilega linka á það hér á isalp.is

    kv.Himmi sem er með skoðun á vel flestu

    #56003

    Halló

    Ég verð víst að játa að hafa hent fram spurningu um hjálma á facebúkk síðuna mína. Svörin sem ég fékk voru nokkuð góð en eftir á að hyggja hefðu fleiri haft gagn og gaman af þeirri umræðu.

    Virknin hér á vefnum hefur verið nokkuð góð að mínu mati. Það sem mér finnst hins vegar miður er að í haust þá voru menn frekar latir við að deila upplýsingum um aðstæður hér á spjallið. Það er mál sem er allir ættu að vera sammála um. Upplýsingar um aðstæður á hinum ýmsu svæðum rötuðu ekki á vefinn og of oft var maður að lesa um aðstæður inni á facebook.

    Lifi isalp.is

    Ági

    #56004
    Skabbi
    Participant

    Góð og þörf umræða. Ég hef, eins og þið hinir, tekið eftir því að umræður sem áður hefðu skýlaust ratað á síður ísalp fara í æ ríkari mæli fram á Facebook. Eins og Ági bendir á hefur maður séð umræðum um hinar og þessar græjur, myndir úr ýmsum ferðum og upp á síðkastið lýsingar á aðstæðum hér og þar.

    Auðvitað finnst mér leiðinlegt að ísalp, og þá sérstaklega ísalp vefurinn, njóti ekki lengur trausts sem vettvangur fyrir svona skoðana- og upplýsingaskipti. Hitt er svo annað mál að ég gæti líklega passað mig að fylgjast (enn) meira með fésinu og reynt að fá þær upplýsingar sem ég áður fékk á isalp.is þaðan. Kannski getur okkar heimatilbúni vefur einfaldlega ekki lengur keppt við facebook, þar sem allir virðast eyða fleiri tímum á dag.

    Auðvitað langar mig mest til að breyta hugsunarhætti íslenskra klifrara og fjallamanna á þann hátt að þeir leiti fyrst og fremst á Ísalp vefinn þegar kemur að svona löguðu en það er kannski til of mikils ætlast. Væri klúbburinn ef til vill betur kominn ef hann legði þennan vef einfaldlega niður og færði sig alfarið yfir á facebook? Tæknilega hugsa ég að það sé alls ekki óhugsandi, þó að vissulega fái ég óbragð í munninn við tilhugsunina. En á mót spyr maður; hvað þarf að gerast með þennan vef til þess að fólk komi hingað, deili myndum og upplýsingum um aðstæður?

    Ég er svosem ekki með svör á reiðum höndum og þetta leiðir hugann að annari mikilvægri spurningu, til hvers er Íslenski Alpaklúbburinn?

    Allez!

    Skabbi

    #56005
    oskarara
    Meðlimur

    Sæl veriði!

    Óskar heiti ég og er búsettur á Höfn. Ég fór að hafa áhuga á klifri og fjallamennsku fyrir rúmum 3 árum. Þar sem að ég er langt frá höfðuborginni,þar sem sennilega flestir ísalparar búa og kjarni starfseminnar fer fram,hefur maður fylgst með því sem verið er að gera og hvernig menn gera hlutina í gegnum þessa síðu. Ísalpsíðan spilaði alveg risa hlutverk í því að ég fékk bakteríuna. Ég hef verið alltof latur við að setja inn myndir og annað af því sem ég hefur verið að gera, inná síðuna en það gæti breyst. Ég nota síðuna mikið og mér finndist mikill missir af því að missa þennan vettfang í eitthverja facebúkksósu, droppa hérna inna daglega. Kannski eru fleiri draugar eins og ég sem gætu glætt síðuna meira lífi……spurning!!

    #56006
    0803733339
    Meðlimur

    Sæl öll
    Þar sem að ég er nú búsettur í Bergen þá get ég sagt að vefurinn er frábær, ég fer inn á hann allavega einu sinni á dag bara til að fylgjast með því sem er að gerast. Ég er til dæmis að reyna að finna fjallaklifursamfélagið hér og þá hefði verið frábært að hafa aðgang að síðu eins og þessari. Vefurinn á örugglega sinn þátt í að útbreiða boðskapinn sem að myndi kanski ekki gerast í eins ríku mæli á fésinu. En um það hverijir skrifa inná vefinn….. það hljóta að vera þeir sem að finnst að þeir hafi frá einhverju að segja og vilja deila því með öðrum við erum jú mjög misjöfn. En ég bið ykkur sem að eruð svo viljug að skrifa að halda því áfram því að það er fullt af fólki sem að les það og hefur gaman af. Verum dugleg að setja myndir inná með greinunum, ég þurfti til dæmis að gefa eftir og skrá mig á fésið til að geta fylgst með myndum af klifri það var svartur dagur ;)(ákv formaður vildi ekki leyfa mér að skoða myndirnar nema að ég kæmi yfir til þess illa)

    #56007
    Björk
    Participant

    Það versta við Facebook er að þar týnast umræðurnar/statusarnir. Ég hef mjög oft notað leitina hérna því maður man eftir umræðum um t.d. búnað, ákveðna leið, bætur á fatnað o.s.frv.

    þannig að þessar umræður hérna eru oft á tíðum mikilvæg heimild þegar kemur að aðstæðum, leiðum, hvert maður getur leitað upplýsinga og þess háttar. Þetta glatast á Facebook.

    Mér finnst ágætt ef Ísalparar hafi þetta í huga þegar þeir pósta upplýsingum um fjallamennsku á Facebook sem nýtast öðrum. (fyrir utan að maður er ekki vinur allra sem stunda fjallamensku á fésinu)

    En kannski mætti bæta þessum FB-fídusum á þessa síðu eins og er á svo mörgum síðum þar sem hægt er að deila, líka og hvað það er allt þetta FB-dót.

    #56008
    0111823999
    Meðlimur

    Ég er sammála þessu með að missa Isalp.is ekki inn í Facebook! Ég kíki daglega hérna inn og finnst eins og Hauki nauðsynlegt að geta fylgjst með stöðunni á Íslandi eftir að ég flutti út. Ef að hún færist inn á Facebook þá mun hún týnast í öllum hinum ‘like-unum’.

    Ég er einnig búin að vera að skoða mikið af síðum hérna í Norge sem tengjast ferðalögum og klifri og ég er sammála Hauki með að það er engin sem kemur nálægt Isalp.is (kannski bara að því að það vantar fólkið ;))

    En það mætti endilega skoða myndamálin betur. Man þegar ég skráði mig fyrst inn á isalp.is þá var nokkuð skemmtilegur mynda’fídus’ hérna þar sem hver og einn meðlimur gat sett myndir inn á sitt svæði. Alltaf gaman að skoða myndir af afrekum annara ;)

    En lengi lifi Ísalp!

    #56010
    Skabbi
    Participant

    Björk Hauksdóttir wrote:

    Quote:
    En kannski mætti bæta þessum FB-fídusum á þessa síðu eins og er á svo mörgum síðum þar sem hægt er að deila, líka og hvað það er allt þetta FB-dót.

    Like!! :) ;) :( :P !!!!!!1111111111

    Allez!

    Slabbi

    #56012
    Freyr Ingi
    Participant

    Svona lít ég á þetta.

    Vandamál A)
    Í gegn um tíðina hef ég oft heyrt sögur af fólki að gera skemmtilega hluti annarstaðar en hér á þessarri heimasíðu. Þegar ég hef spurst fyrir um hvers vegna þetta hafi ekki ratað inn á isalp hefur fólki oftar en ekki sagt að þetta væri líklega of lítilsvert til að segja frá því hinum mikla frægðarvef.

    Í kjölfarið hef ég að sjálfsögðu hvatt alla virka fjallamenn til að láta vita af ferðum sínum á vefnum.

    Vandamál B)
    Upp á síðkastið hefur umræða og myndefni sem tengst klifri og fjallamennsku færst að einhverju leyti af heimasíðu ísalp yfir á feisbúkk.

    Lausn á vandamáli A)
    Breyta hugsunarhætti fjallamanna á þann veg að þeir hræðist ekki að segja frá og sýna myndir af því sem þeir eru að bralla eða hugsa.

    Lausn á vandamáli B)
    Beina umferð upplýsinga inn á ísalpheimasíðuna.
    Hvort sem myndir eða upplýsingar séu geymdar á öðrum stöðum þarf að passa upp á það að þær nái inn á isalp.is.

    Þannig sköpum við skemmtilegt samfélag.
    Staðreyndin er sú að það eru ótrúlega margir draugar að lesa síðuna og þegar síðan er virk lifnar samfélagið við. Það er í beinu framhaldi af mikilli virkni isalp.is sem maður fer að rekast á annað gore-tex fólk á bensínstöðvum fyrir birtingu um helgar.

    Segjum frá og sýnum myndir.

    F.

    #56013
    Skabbi
    Participant

    Óskar, alltaf gaman að sjá ný nöfn hérna inni. Það væri snilld að heyra oftar í klifrurum utan höfuðborgarsvæðisins.

    Mér finnst eins og ég sé oft að tala við sjálfan mig á þessum spjallþráðum en það er kannski her manns sem slafrar í sig hvern vísdómsmola sem af vörum mínum hnýtur.

    eða ekki…

    Skabbi

    #56014
    0703784699
    Meðlimur

    Já gaman að fá svona umræðu og sérstaklega að fá inn ný „andlit“. Maður hefur allaf haft það á tilfinningunni að þetta væri alltaf frekar þröngur hópur af sérfræðingum að sunnan að viðbættum nokkrum snillingum frá Ísafirði og Akureyri.

    Ég fór að klifra helgina 1-3 maí síðastliðinn ef ég gleymdi að nefna það, http://picasaweb.google.com/himmi78/RoadTripMtArapiles# , en þetta snýst ekki endilega um að vera lítilfjörlegt heldur kannski að maður sér ekki ástæðu til að vera að koma öllu hér á framfæri? Ég er að vonast til að ég geti gefið mér tíma til að skrifa um þessa ferð ásamt fjölmörgum öðrum sem ég fór í andfætlingalandi fyrir næsta ársrit.

    Annars rakst ég á þetta og fannst það frekar skemmtilegt, solo klifur http://www.dailymail.co.uk/news/article-1320728/Herd-mountain-goats-climb-160ft-near-vertical-Cingino-dam-Italian-Alps.html

    kv.Himmi

    #56015
    Páll Sveinsson
    Participant

    Að halda ÍSALP vefnum lifandi er ekki mjög fljókið.

    Ég tók nú formaninn undir armin á síðustu jólaglögg og sagði honum lífsreglurnar.

    Þeir sem þora og nenna þeir skrifa á vefin. Ekki endilega frá sýnum afrekum heldur allt sem þeir heira og sjá. Þeir skrifa það strax (Það á ekki að eiða vikum í að snurfusa texta og myndir).

    Ef ekkert er nógu merkilegt til að rata á vefin þarf að fá leigupenna til að sjá til þess að það sé gert.

    kv
    palli

    #56016
    1506774169
    Meðlimur

    Svo mætti líka leyfa fólki að auglýsa hlutina hér í friði án þess að hinir og þessir séu að fara inn í söluþræðina þeirra og reyna að skemma fyrir. Þetta hefur gerst oftar en einu sinni hér og er óskaplega hvimleitt. Mín skoðun er reyndar sú að það eigi ekki að vera hægt að svara söluþræði, menn eiga bara að hringja eða senda imeil í viðkomandi ef áhugi er fyrir vörunni. Ef einhverjum finnst eitthvað of dýrt á sá hinn sami ekki að kaupa hlutinn!

    #56017
    Skabbi
    Participant

    Guðmundur Sveinbjörn Ingimarsson wrote:

    Quote:
    Svo mætti líka leyfa fólki að auglýsa hlutina hér í friði án þess að hinir og þessir séu að fara inn í söluþræðina þeirra og reyna að skemma fyrir. Þetta hefur gerst oftar en einu sinni hér og er óskaplega hvimleitt. Mín skoðun er reyndar sú að það eigi ekki að vera hægt að svara söluþræði, menn eiga bara að hringja eða senda imeil í viðkomandi ef áhugi er fyrir vörunni. Ef einhverjum finnst eitthvað of dýrt á sá hinn sami ekki að kaupa hlutinn!

    Get ekki tekið undir þetta. Ég held að það sé á ábyrgð okkar sem teljum okkur hafa vit á hlutunum að kom í veg fyrir að nýliðar í sportinu kaupi hluti sem eru beinlínis hættulegir.

    Það er orðið algengt að menn grafi upp gamalt drasl í geymslunni og reyni að koma í verð. Ekkert að því, nema þegar menn reyna að selja hluti sem eru löngu úr sér gengnir og eiga ekkert erindi upp á fjöll aftur. Og hananú!

    Skabbi

    #56018
    1506774169
    Meðlimur

    Ég er ekki að tala um nylon hluti, ég er að tala um harðvörur eins og þær sem voru seldar hér í síðustu viku. Manninum er klárlega í sjálfsvald sett að setja 20 þúsund krónur á ísaxapar og öðrum er algerlega í sjálfsvald sett að kaupa það.
    Og hana hana nú

    #56019
    Freyr Ingi
    Participant

    Formaðurinn veit upp á sig sökina og hefur ekki alltaf hamrað lyklaborðið með óþiðnum fingrum (strax eftir klifur). Hann lofar þó bót og betrun og gæti jafnvel strengt áramótaheit þetta árið og verið aktívari við skrif og myndainnsetningar á því næsta.

    Og strákar, er ekki alveg fullkomlega eðlilegt að á umræðuvef skiptist menn á skoðunum?
    Hvort sem um er að ræða verðlagningu eða ágæti hluta sem verið er að reyna selja.

    Legg til að við öll setjum meira af efni hingað inn.

    !!EF ÞAÐ Á HEIMA FB, Á ÞAÐ HEIMA Á ÍSALP!!

    (svo lengi sem það viðkemur fjallamennsku að sjálfsögðu, hef ekki áhuga á því hvað þú fékkst í jólamatinn).

    F.

    #56021
    1908803629
    Participant

    Kannski ágætt að hafa það í huga að allir sem eru búnir að kommenta á þennan þráð tilheyra 80% þeirra sem eru að tjá sig á reglulegum basis á síðunni. Þó að þessi litli hópur lofi tíðari skrifum held ég að lausnin á þessu vandamáli sé ekki beinlínis í sjónmál… Markmiðið er, held ég, að gera fleiri aktífa í þessum skrifum og að þátttakendum í störfum félagsins.

    Ísalp er fyrir fjallamenn og konur sem heillast af fjallamennsku á jaðrinum. Sem stendur eru ófári sem falla undir þessa skilgreiningu ekki virkir meðlimir í Ísalp. Þá grunar mig jafnvel að rjóminn af nýgræðingum eru að vaxa upp í hjálparsveit eða hjá klifurhúsinu og að líkurnar á því að þeir endi í Ísalp fari dvínandi með hverju árinu – og að jafnvel fari fólki í „mountaineering“ fækkandi með árunum… en það er kannski bara eitthvað svartsýnistal í mér.

    Þá finnst mér alvegt vert að hafa það í huga að harkaleg skoðanaskipti á síðunni geta alveg hrætt í burtu nýgræðingana og hefur eflaust gerst oftar en einu sinni. Skoðanaskipti eru góð en á sama tíma ágætt að hafa vanda orðavalið ef hægt er.

    P.S. Himmi – ég væri meira en til í að heyra meira af klifri þínu í Ástralíu og hvet stjórn til þess að sjanghæja þig í að halda myndasýningu um ferðina. Svo væru greinaskrif í næsta ársrit vel þegin.

    #56022
    Freyr Ingi
    Participant

    Hér tjáir fólk sig undir nafni óritskoðað, nema ef vera skildi Harcore H. Hardcoresson en hann og hans skrif eru undanskilin. Það er gott og blessað og heldur vonandi þannig áfram.

    Harkaleg skoðanaskipti fæla ekki nýgræðinga frá, ef eitthvað er þá draga þau fleira fólk að sér sem vill sjá eitthvað subbulegt…

    Nei, en grínlaust þá get ég ekki kvittað undir það að harkaleg skoðanakipti á umræðuvef hindri áhugasamt fólk í því að kíkja á myndasýningar og/eða taka þátt í starfi klúbbsins.

    Annars væri afar fróðlegt að sjá fleiri „drauga“ skjóta upp kollinum og tjá sig um þeirra sýn á þetta alltsaman.

    kv,

    Freysi friðsamlegi

    #56024
    2301823299
    Meðlimur

    Ég er einn af draugunum sem fylgist reglulega með hérna enda fátt skemmtilegra en að heyra hvað fólk er að bralla.

    Vefinn notar maður t.d. líka til upplýsingaöflunar um svæði og fyrri ferðir manna á staði sem maður hyggst heimsækja.

    Þetta er góð áminning um að halda vefnum lifandi okkur til skemmtunar og fróðleiks

    Kv,
    Óðinn

    #56026
    0304724629
    Meðlimur

    Vandamálið með vefinn núna (eins góður og hann nú er) er að:

    Það er erfitt að setja inn myndir og video. Engar leiðbeiningar er að finna á vefnum hvernig á að gera það. Það virkar bara stundum og stundum ekki. Reyndar er Skabbi búinn að segja mér hvernig á að setja inn video. Mér gengur alltaf illa að setja inn myndir.

    Mínar síður eru ekki virkar lengur. Þar gat maður sett inn myndir (reyndar með smá html kóðun) og samið skemmtilegar ferðasögur sem söfnuðust upp með tímanum. Núna týnist þetta bara í mis löngum umræðuþráðum.

    Það er kekert svæði með t.d. „best of“ myndir ársins eða mánaðarins. Eða bara skemmtilegt myndasafn skipt upp eftir landshlutum sísonum osfrv.

    Hvergi er haldið utan um video sem klúbbmeðlimir senda inn.

    Þetta er megin ástæðan að mínu mati fyrir því að félagar eru að nota picasa, facebook og annað dót sem gerir þetta auðveldara.

    Við skulum ekki blóta fésinu. Málið er bara að kippa þessu í liðinn ef áhugi er fyrir því. Ég myndi glaður bjóða mig fram ef ég kynni eitthvað í forritun…

    #56027
    Gummi St
    Participant

    Fínasta og hin þarfasta umræða sem hér er komin upp.

    Til hvers erum við að halda úti isalp.is? Þetta er spurning sem okkur er hollt að velta aðeins upp.
    Ég kíki á isalp.is næstum daglega þegar ég er við tölvu og það sem ég býst við og finnst skemmtilegast að sjá eru fréttir af ferðum og aðstæðum. Myndir sem fólk hefur verið að taka og jafnvel video. Fyrir utan svo auðvitað dagskrána og fréttirnar.

    Hér Rúnar strax komnar hugmyndir um úrbætur. Eru einhverjir með fleiri hugmyndir sem gætu nýst við þetta? Það var minnst á facebook tengingu, ég væri jafnvel til í að sjá eitthvað vægt eins og „læk“ takka eða svo fyrir þá sem eru að fésast hvað mest.

    Í langan tíma höfum við á climbing.is verið að þróa ísklifur-leiðarkerfi sem fer nú brátt að vera notkunarhæft þegar ég er búinn að forrita innskráningarformið sæmilega. Á þessu byrjuðum við fyrir einu og hálfu ári en kannski ekki sett nógu mikin þunga á þróunina til að klára hana. Þetta er auðvitað eitthvað sem við viljum að nýtist ísalpfélögum og væri bara sjalfsagt að tengja þetta hérna inná vefinn þegar það er klárt. Fyrir þá sem ekki hafa séð þetta þá geta þeir kíkt á:
    http://www.climbing.is/gspot2.php?page=climb&svaedi=SV&spot=Buahamrar
    Þetta er Búahamrasvæðið, setti nokkrar leiðir þar inn til prufu, einnig er hægt að skoða Kjós, Bíldudal og Köldukinn.. þar er eitthvað efni komið inn.

    Lengi lifi isalp.is!

    #56028
    Siggi Tommi
    Participant

    Hugmynd að úrbótum
    Færa keypt&selt út af spjallinu og koma því undir sér haus í Aðalvalinu.

    Frekar pirrandi þegar dritast inn haugur af sölutilkynningum sem drekkja gáfulegu þráðunum hérna inni.
    Akkúrat núna eru t.d. fjórir af tíu forsíðuþráðunum Keypt/selt…

    Myndadæmið hérna er fínt til að henda inn einni og einni mynd með spjalli en ég nota sjálfur Picasa og linka á það héðan. Finnst ekkert að því formati enda erfitt að þróa isalp.is að það geti keppt við slíka vefi í fúnskjón. Þurfum þá ekki heldur að geyma einhver ósköp af gögnum undir gallerí félagsmanna með tilheyrandi kostnaði.

    Annars er hérna áhugaverð grein um búnað í ísklifri.
    http://www.aai.cc/pdf_download/Equipment_Ice_Mixed_Climbing.pdf

    Var að lesa bókina hans Steve House um jólin. Beyond the Mountain heitir hún og er gríðarleg snilld (alla vega helmingurinn sem ég er búinn með).
    Veit ekki hvort hún er til í hérlendum bókabúðum reyndar…

    #56043
    eragnars
    Meðlimur

    Sæl öllsömun

    Einn af draugunum sem nota þennan vef nánast daglega og þeir eru margir sem ég þekki sem eru frekar virkir inn á þessari síðu. En það er svo eiginlega undir okkur komið sem erum út á landsbyggðinni að vera svolítið virkari að senda fréttir og jafnvel myndir líka, svo þetta sé ekki bara bundið við sv-hornið. Annars þætti mér miður ef þessi vefur yrði af engu vegna tilkomu fesins.

    Kv. að norðan

25 umræða - 1 til 25 (af 31)
  • You must be logged in to reply to this topic.