Re: svar: Ísklifurfestivali lokið

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Ísklifurfestivali lokið Re: svar: Ísklifurfestivali lokið

#48467
2304815479
Meðlimur

Sælir og takk fyrir síðast.

Já ég er nú sammála mörgu sem Andri segir hérna í greininni.
En ég var sjálfur einn af þeim 6 sem héldu áfram og klifruðu í þessum blessaða ís.

Það að við höfðum ekki snúið við eftir eða jafnvel fyrir fyrsta flóðið er eitthvað sem ég get sennilega ekki svarað, mér datt í hug að snúa við eftir fyrsta flóðið og áður en stóra flóðið féll var ég nokkuð viss um að snúa við, nema að það væri pottþétt örugg leið upp að ísnum fyrir ofan næsta horn.

Þegar þangað var komið féll stóra flóðið og hvilftin bókstaflega tæmdist, það var frekar óljóst hjá okkur hvort einhver hafði lent í flóðinu, því við sáum ekki niður til þeirra sem voru fyrir neðan okkur. En síðan skyldist okkur að Russell hafi runnið „aðeins“ með því en getað stoppað sig.
Þarna vissum við ekki að hann hafi farið alla leið niður með flóðinu, en vissum að það hafði enginn slasast og enginn grafist í flóðinu.
Á þessum tímapunkti var ég alveg á því að snúa við.
En síðan eftir að hafa rætt við þá sem voru í kringum mig, og það var þegar einn kominn alla leið upp að ísnum, sáum við að það var nánast enginn snjór eftir til að falla nema stálið sem var alveg upp að ísnum, ákváðum nokkrir af okkur að halda áfram og setja fasta línu við ísinn þannig að ef stálið myndi hrynja værum við tryggðir.

Þetta gerðum við og klifruðum við eina spönn í ísnum og snérum síðan heim á leið.

Það sem ég held að hafi skert dómgreindina hjá okkur er sú staðreynd að menn voru komnir hingað langt að til dæmis frá Ástralíu og flestir búnir að keyra í 9 klukkutíma frá RVK.
Það gerði okkur, allavega mig, töluvert ákafari að komast alla leið en annars hefði verið. Ef þetta hefði verið venjulegur laugardagur hefði ég aldrei gengið svona langt.

Annað sem ég held að hafi skert dómgreindina hjá okkur er það að þarna voru samankomnir mjög margir klifrarar og margir mjög reyndir, það var enginn einn sem var að stjórna og taka ákvarðanir, ég held að það sé hugsanlega hægt að kalla þetta „rollueinkenni“ þegar allir elta þann fyrsta og þessi fyrsti kann ekki við að stoppa því allir eru að elta hann og enginn segir skýrt NEI nú skulum við aðeins stoppa, enda kannski erfitt því þarna eru allir á sínum eigin vegum.
En reyndar áður en td ég fór ofar þá voru svíarnir og Andri búnir að ákveða að snúa við, en ég gerði eins og nokkrir aðrir fór AÐEINS lengra til að skoða hvernig þetta væri hinum megin við næsta horn.

En sú ákvörðun okkar að halda áfram og klifra í þessum ís sem við vorum að stefna að, tel ég ekki hafa verið ranga miðað við hver snjóflóðahættan var eftir að allur snjór hafði hrunið niður, og við gerðum okkur EKKI grein fyrir því að einhver hafi lent almennilega í flóðinu fyrr en seinna.
Ef við hefðum vitað að Russell hafi farið niður með flóðinu og lemstraður eftir það, er ég nokkuð viss um að við hefðum allir snúið við.

Ég skammast mín fyrir að hafa ekki snúið við í tæka tíð og hlustað á þær aðvaranir sem við fengum, því þær voru nokkuð margar.

Kveðja
Hörður Harðarson