Re: svar: Hardcore í tjaldi

Home Umræður Umræður Skíði og bretti Hardcore í tjaldi Re: svar: Hardcore í tjaldi

#54150
0309673729
Participant

Ég svaf í allnokkur skipti í snjóhúsi fyrir mörgum árum. Dvölin var góð fyrir utan eitt skipti. Ég tek undir það með Kalla að það er ljúfara að sofa í góðu snjóhúsi en tjaldi.

Við reistum þau yfirleitt í halla. Grófum holu niður og inn í hallann. Reistum lágan snjóvegg meðfram holunni. Notuðum skíðin og stafina sem sperrur ofan á veggina og hlóðum síðan snjókögglum ofan á. Loks þéttum við í öll göt.

Stærðin af slíku snjóhúsi eða snjóskýli takmarkast af skíðunum og hversu langt maður getur/nennir að grafa inn í hallann. Það draup stundum aðeins úr miðju þakinu þegar við elduðum því skíðin svigna og þakið verður íhvolft niður á við. Ef ég man rétt þá vorum við gróft sagarblað með skafti til að saga hæfilega köggla í þakið. Fyrir opið út settum við snjóköggul eða bakpoka. Ætli byggingin hafi ekki tekið klukkutíma eða svo.

Í það skipti sem vistin var ekki svo góð reistum við húsið í myrkri og logni. Um nóttina fór að skafa. Ég vaknaði síðla nætur með stóran skafl ofan á mér og átti í mestu vandræðum með að hreyfa mig. Svefnpokarnir hjá öllum urðu blautir og það tók tíma að finna allt draslið í snjónum. Okkur hafði yfirsést einhver göt á þakinu í myrkrinu og logninu.

Ég hef aldrei gist í snjóhúsi í neinu aftaka veðri. Ég get ímyndað mér að það þurfi að þétta opið út vel svo ekki skafi mikið inn og þá eykst hættan á að húsið þéttist of vel.

Það væri fróðlegt að fá nánari lýsingu á því hjá Kalla og fleirum hvernig best er að standa að snjóhúsagerð á flatlendi.

með kveðju
Helgi Borg