Meira af afrekum ferðaþjónustunnar

Home Umræður Umræður Almennt Meira af afrekum ferðaþjónustunnar

 • This topic is empty.
 • Höfundur
  Svör
 • #47506
  0801667969
  Meðlimur

  Í fréttum RUV í gær var sagt frá áhuga ferðaþjónustunnar að auðvelda aðgengi að Hengifossi í Fljótsdal með því að leggja bílveg inn gilið. Sveitastjórn og heimamenn streitist aldrei þessu vant á móti. Nú er göngustígur þarna innúr sem stendur til að lagfæra. En það dugar ferðaþjónustunni engan vegin.

  Ferðaþjónustan talar um að synd sé að ekki ALLIR geti komist án fyrirhafnar að fossinum sem sé rúmlega tvær Hallgrímskirkjur á hæð. Eins og copy paste úr rökum fyrir jarðgangagerð niður í Þrínhjúkagíg sem sé tvær Hallgrímskirkjur á dýpt.

  Nú er búið að hrúga upp einhverjum skítaskúrum (gámum) við sporð Sólheimajökuls. Sá þetta fyrirbæri fyrst í leitinni um daginn. Vissi reyndar af áhuga ÍFLM að hrúga upp skúrum þarna fyrir allnokkru. Fannst alltaf gott að getað keyrt þarna innað jökli og vera komin aðeins út í smá óbyggðir.

  Það hlýtur að eiga að leggja malbikaða hraðbraut þarna innúr líka.

  Hreint ömurlegt að ekkert fái að vera í friði fyrir „grænni“ ferðaþjónustu.

  Kv. Árni Alf.

  #57045
  gulli
  Participant

  Meina þeir ekki að syndin sé að þarna geti ferðaþjónustuaðilar hagnast um fleiri krónur?

  #57046
  0801667969
  Meðlimur

  Að eiga ekki „grænan eyri“ er vel þekkt máltæki.

  Ferðaþjónustan á ekki „grænan eyri“ ef marka má þau umhverfisspjöll sem hún vinnur að þessa dagana.

  Og til að kóróna dæmið þykist hún ekki hafa „grænan grun“ hver stendur að baki alls konar framkvæmdum á fjöllum.

  Kemur hreinlega „af fjöllum“.

  Hvar ætlar „græn ferðaþjónusta“ að draga mörkin?

  Dregur kannski ekki mörkin þar til hún „kann ekki (grænna) aura sinna tal“.

  Kv. Árni Alf.

  #57048
  2301823299
  Meðlimur

  Sorglegt hvað það er mikið kapp lagt á að fá fleiri og fleiri ferðamenn til landsins á meðan umræðan um umgengni og aðhald á helstu ferðamannastöðum hefur setið eftir.

  Ábyrgð þeirra sem hafa beinar tekjur af því að sýna ferðamönnum landið hlítur að vera sú að skilja vel við það og taka þátt í að betrumbæta umgengnina. Það hefur verið umtalað hvað það vanti mikla peninga og hver eigi að sjá um að viðhalda og bæta umgengni á þeim fjölmörgu túristastöðum landsin, það hlítur að vera réttmæt krafa að koma þeim málum í lag áður en farið er í að raska fleiri náttúruperlum!

  #57049
  2806763069
  Meðlimur

  Sælir

  ÍFLM á ekkert í þessum gámum þarna, þvæ hendur okkar af því! Það er þó gleði efni að sá hluti þeirra þúsundu túrhesta sem koma þarna og eru algerlega í spreng eða þaðan af verra hafa nú möguleika á að komast á salernið en þurfa ekki að skilja eftir pappír og með því á bakvið stein. Geri ráð fyrir að Óðin fagni því heils hugar!

  Ég fagna einnig þeim umbótum sem hafa verið gerðar á veginum þarna inn eftir og vona svo sannarlega að vegurinn verði fljótlega gerður enn betri svo að við getum af öryggi starfað þarna allt árið – án þess að þurfa að óttast smá snjó sem fyllir í niðurgrafinn veginn.

  Hvað Sóló varðar þá hef ég líklega aldrei komið þangað án þess að fá greitt fyrir það og sé því ekki að bætt aðgengi að honum eigi að koma á neinn hátt illa við fjallamenn landsins, þ.e. það koma varla nokkrir þangað nema túrhestar og þeir sem eru á byrjenda námskeiðum.

  Svo er bara kannski að koma að þeim tíma að leysa verði nokkur vandamál fyrir ferðaþjónustuna svo að hún megi vera sú stoð í Íslensku efnahagslífi sem þjóðfélagið gerir kröfu um.
  Eins og með aðrar iðnvæðingu eru ekki allir sammála. Það er svo sjálfsagt að menn sýni þessum iðnaði sem öðrum aðhald með opini umræðu.

  En við getum jú ekki öll lifað af því að rækta rollu, framleiða ál, forrita tölvur eða veiða fisk.

  Góðar stundir

  #57050
  2301823299
  Meðlimur

  Persónulega sé ég ekkert að því að bæta aðgengi að ákveðnum ferðamannastöðum eins og Sólheimajökli, það verða að vera til staðir og þjónusta fyrir alla þessa ferðamenn en get kannski ekki sagt að ég fagni gámum í náttúrunni ;)

  #57051
  0801667969
  Meðlimur

  „Bætt aðgengi“. Þetta er einmitt stóra málið. Hljómar frekar sakleysislegt. Er samt í flestum tilvikum annað orð yfir stórfelld landspjöll. Uppbyggður heilsársvegur þýðir mikið rask og verður alltaf mikið lýti í náttúrunni.

  Ívar vill slíkan veg að Sólheimajökli. Einhver annar vill veg inn að Hengifossi. Aðrir uppbyggðan veg inn í Landmannalaugar, Þórsmörk og svo framvegis. Og enginn veit hvar á að stoppa. Og vilja það kannski ekki.

  Af hverju ekki að láta túristann borga fyrir það sem hann vill eða þarf að komast? Af hverju þarf að nauðga náttúrunni með fjármunum úr vasa skattborgara? Allt til að ferðaþjónustan komist létt frá þessu?

  Ekki eru mörg ár síðan að með einni blaðagrein stöðvaði ég lagningu uppbyggs heilsársvegar inn á Þórsmörk. Meðal þess sem gera átti var risavaxið bílastæði með alls konar skúrum með þjónustu við Lónið við Gígjökul. Þetta töldu ferðaþjónustuaðilar á svæðinu (FÍ, Útivist og Kynnisferðir) alveg bráðnauðsynlegt. Þrátt fyrir að þetta bætta aðgengi sé ekki til staðar komast menn enn inn á Þórsmörk án vandkvæða. Og hafa alltaf gert.

  Að það þurfi húskofa við hvern einasta stað sem stoppað er á er einfaldlega ekki rétt.

  Það er ákveðin græðgisvæðing í ferðaþjónustunni. Og menn vilja leyfa sér allt í skjóli bágs efnahags. Ég held að menn ættu aðeins að staldra við. Draga andann og líta í kringum sig.

  Þetta er ferðaþjónustunni alls ekki til framdráttar til lengri tíma litið.

  Kv. Árni Alf.

  #57052
  Björk
  Participant

  já manni finnst eins og allir séu bara að vinna í sínu horni og að reyna að fá sem mest í vasann á „sínum“ stað.
  Það er búið að leggja svo marga spurningalista og gera kannanir á ástæðu fyrir komu ferðamanna hingað.
  Einhvern tíman las ég að ein stór ástæða fyrir komu fólks væri að hér væri ósnortin náttúra og fólk upplifði að það væri kannski fyrsta manneskjan að koma á viðkomandi stað.
  Sú upplifun er fyrir bí ef það eru malbikaðir vegir og skúrar við helstu staði til þess að það sé hægt að skófla sem flestum á staðinn á sem stystum tíma.

  Íslendingar halda líka áfram að kynna landið sitt sem ómengað og ósnortið land en eru síðan ekkert að huga að þessum málum.

  #57053
  Sissi
  Moderator

  Erum við ekki að fókusera á aðeins vitlausa hluti? Mér sýnist að uppgangur í fjallaleiðsögn hafi gert býsna mikið til að lífga upp á fagmennsku hérna heima, gefið Ísölpurum færi á að krafsa inn aukapening af og til (ég er einn af þeim) og ekki þvælst fyrir okkur þar sem ekki veit ég til þess að amast hafi verið á neinn hátt við mönnum þó að þeir ferðist á einkavegum á svæðum þar sem er verið að gæda á fjöll/ís/skíðun. Þá leiðir þetta einnig til þess að við erum núna að skipa Undanfarahópana okkar með fagmönnum sem eru á fjöllum allan ársins hring.

  Ef það er sett upp einhver aðstaða sem er smekkleg við bissí ferðamannastaði flokka ég það sem landvernd, fólkið kemur einnig þarna á eigin vegum og það þarf amk. að gefa því færi á að fara á salernið. Straumurinn á þessum helstu stöðum á hálendinu er býsna mikill og átroðningurinn eftir því. Það þýðir bara stíga og klósett hvort sem okkur líkar betur eða verr.

  Auðvitað þarf að huga að því samt að halda ósnortinni náttúru og standa á bremsunni og ber auðvitað að fagna því að menn hugsi út í það. Við viljum jú geta komist í ósnortna náttúru.

  Það sem ég hef hinsvegar áhyggjur af þessa dagana eru aðgengismál. Ég sé fyrir mér að á allra næstu árum verður okkur bannað að klifra, keyra og hjóla á stórum svæðum. Þetta er hlutur sem við verðum að setja okkur í stöðu til að berjast gegn, það er skuggalegt að sjá þessar pælingar í Vatnajökulsþjóðgarði að enginn nema ferðaþjónustuaðilar megi aka inn á ákveðin svæði. Síðan eru menn að banna hjólreiðar á sumum af þessum stöðum. Svoleiðis rugl gengur ekki og við þurfum að passa upp á það.

  Sjá umræðu um daginn: http://www.isalp.is/forum/5-almennt/12160-umhverfis-og-aegengismal.html

  Þarna eigum við að fókusera, ekki rífast um klósettskúra.

  Sissi

  #57056
  0703784699
  Meðlimur

  Hvað eru landsspjöll?

  kv.Gimp

  #57067
  Steinar Sig.
  Meðlimur

  Ferðaþjónustan er komin til þess að vera. Sem betur fer.

  Það sem þarf að gera er að skilgreina svæði eða staði og ákveða hverskonar uppbygging eigi við hvar.

  Fyrir mér er Sólheimajökull dæmi um stað eins og Þingvelli, þar sem að aðgengið á að vera með besta móti. Helst vildi ég sjá mjóan og hlykkjóttan malbikaðan veg inn að Sólheimajökli. Veg eins og liggur um Þingvallasvæðið. Inni við jökul væri bílastæði sem annaði umferðinni og einhverskonar falleg móttaka. Þessi móttaka á ekki að eiga neitt skylt við gámabyggð, heldur þyrfti hún að falla vel að umhverfinu. Í móttökunni væri hægt að fá kaffi og sérbökað vínabrauð (engar pylsur) og einhver aðstaða fyrir fyrirtæki sem eru með ferðir á jökulinn.

  Með þessu er einfaldlega hægt að gera Sólheimajökul að standard skriðjöklinum sem meðaltúristinn fer á. Þó mér þyki mjög vænt um Sólheimajökul, þá er hann ekkert einstakur jökull. Við eigum marga svipaða og nær ókannaða. Þeir sem að vilja fullkomlega ósnortna náttúru geta einfaldlega gengið að Kötlujökli eða Klifurárjökli.

  #57073
  0801667969
  Meðlimur

  Gott og málefnalegt innlegg hjá Steinari. EN….

  Ég held að allir geti verið sammála um ágæti uppbyggingar í ferðaþjónustu. Uppgangur í fjalla- og einkum jöklaleiðsögn gnæfir þarna uppúr að mínu mati. En þessi uppbygging verður að vera á skynsamlegum (hófsömum) nótum og í sátt við náttúruna. Ekki á kostnað hennar.

  Hvergi er aðgengi að jökli betra en við Sólheimajökul. Og aðkoman er hrein snilld. Hlykkjóttur vegur sem fellur gjörsamlega inn í landslagið og gefur ferðamanninum stöðugt nýja sýn á svæðið.

  Stundum liggur vegurinn upp á lítt gróna jökulgarða og maður sér skyndilega yfir svæðið. Svo aftur niður bratta brekku og út á snarbratta bakka Jökulsár sem beljar þarna undir. Stundum liggur hann í lægðum á milli jökulgarða í kröppum beygjum. Þarna þarf að fara sér hægt. Og það er alltaf eitthvað nýtt að sjá bak við næsta hól eða næstu beygju. Smá spenna og eftirvænting. Og skyndilega blasir svartur jökullinn við. Ekkert annað truflar.

  Það er einmitt þetta sem flestir vilja og leita að. Hinu ósnerta og óbyggða. Og ekki sakar smá spenna (hlykkjóttur vegslóðinn).

  Maður er nýkomin af þjóðvegi eitt og dettur skyndilega inn í nokkurs konar óbyggðir.

  Eins og staðan er í dag þá er það ævintýrir fyrir flesta að keyra slóðann þarna innúr. Skyndilega blasir við stórt bílastæði og risabygging , sem rýmar illa við landslagið. Algjör „anticlimax“.

  Steinar talar um malbikaðan hlykkjóttan veg inn að jökli. Það er ekki hægt að malbika veg nema hann sé uppbyggður og skagi talsvert hátt upp úr umhverfinu. Til þess þarf mikil landspjöll og slíkur vegur fellur alls ekki inn í landslagið.

  Þingvellir standa á hrauni og vatn eða vatnsagi er þar ekki vandamál. Þar hverfa líka ýmis mannana verk inn í landslagið sem ekki gera það annars staðar. Það er því ekki hægt að bera saman vegagerð þar og á jökulurð kringum jökla landsins.

  Ef byggður verður heilsársvegur þá verður hann eins beinn og kostur er. Annað er ekki í boði. Styttir leiðina (og sparar byggingarkostnað). Vegagerðin býður ekki annað og þetta er líka helsta baráttumál ferðaþjónustunnar í dag. Allt til að moka sem mestu á sem skemmstum tíma fyrir sem minnstan pening.

  Mönnum væri í lófa lagið að berjast fyrir vegum sem falla inn í náttúruna. Ofaníburður og að hefla oftar gerir gamla „slæma“ vegi oft mjög góða. Slíkt talar hins vegar engin um.

  Þráðbein hraðbraut inn að Sólheimajökli og sjoppur inn við jökulsporð mun einfaldlega eyðileggja sjarma svæðisins. Okkur þykir sjálfum þetta lítt aðlaðandi. Og útlendingar eru ekkert öðruvísi. Þetta kemur einfaldlega niður á ferðaþjónustunni þegar til lengri tíma er litið. Og bitnar strax á blásaklausum ferðamönnum, útlendum sem innlendum.

  Að það þurfi að rústa svæðinu af því að ekki er fólksbílafært örfáa daga ef þá nokkurn dag ársins þegar túristar eru sárafáir er fráleitt mál. Það eru líka til öflugri bílar en Yaris.

  Er ekki eðlilegt að túristinn borgi fyrir það að komast þangað sem hann vill? Eða á að niðurgreiða þetta með náttúrunni og fé úr vasa almennings?

  Kv. Árni Alf.

  #57089
  0801667969
  Meðlimur

  Sissi, eins og reyndar margir aðrir, hefur áhyggjur af aðgengismálum (í þessu tilviki er það frelsi til að ferðast um landið. Ekki frelsi til að leggja hraðbrautir um allt).

  Verð að viðurkenna að ég hef lítið eða ekkert fylgst með þessu.

  Ég furða mig hins vegar á því hvernig sumt af þessum hugmyndum um skert aðgengi hafi orðið til. Trúi varla að mönnum sé alvara með sumt sem maður hefur heyrt.

  Ég heyri og sé að mönnum er mikið niðri fyrir varðandi Vatnajökulsþjóðgarð. Þar eigi ferðaþjónustuaðilar að fá einhver sérréttindi Eða er þetta bara einhver misskilningur eða móðursýki?

  Er einhver sem getur summerað stöðuna upp í stuttu máli?

  Hvað er eiginlega að gerast með ferðaþjónustuna? Er þetta orðin sjálfskipaður hópur sem ákveður hverju eigi að fórna og hverju eigi að loka?

  Kv. Árni Alf.

  #57090
  2806763069
  Meðlimur

  Árni minn. Það er ekki mikill sjarmi af þessum vegi þegar verið er að reka stóran vinnustað (á mælikvarða ferðaþjónustunnar) og honum er skyndilega lokað vegna þess að það skóf smá snjó í veginn (og við setjum ekki 20 – 40 manns í jeppa bara sí sona).
  Allt er breytingum háð. Nýjar byggingar rísa og aðrar fara í eyði, vegir eru endurbættir og slóðar hverfa. Ísland eins og það var þegar þú varst ungur er ekki lengur til, það verður aldrei til aftur – það var bara til þá – það var ekki þannig áður en þú fæddist og það verður ekki þannig eftir að þú ferð.

  Og ekki falla í þá gryfju að saka ferðaþjónustuna um að vilja rífa allt upp á sem skemmstum tíma og fyrir sem minnstan pening – það er ekki ákvörðun ferðaþjónustunnar hvernig hlutirnir eru gerðir þegar um stórar framkvæmdir er að ræða – þar halda einhverjir aðrir um budduna. Og hvað gáma varðar þá hef ég skilning fyrir því að það er erfitt að fjárfesta mikið á íslandi þegar vertíðin er bara 6 vikur í raun. Svona er það bara – því miður!

  Og oft eru það nú landeigeindur sjálfir sem eru mesta hindrunin fyrir því að hægt sé að standa vel að málum – byggingar fá bráðabyrgðarleyfi til eins árs osf. Og þá er lítið annað að gera en að pakka saman og fara heim eða henda upp nokkrum gámum.

  Svona er þetta og ég sé svosem enga ástæðu til að fetta mikið út í það fingurinn – en ég hvet þig eindregið til að halda áfram að láta skoðun þína í ljós og helst koma sjónarmiðum þínum á framfæri á örlítið víðlesnari miðlum en þessari heimasíð. Því að sjónarmiðin eiga sannarlega rétt á sér og eru vel til þess fallin að skapa líflega umræðu sem gæti leit af sér hugmyndir um raunhæfar lausnir – því staðan eins og hún er í dag á ýmsum ferðaþjónustustöðum er einfaldlega ekki raunhæf lausn. Sólheimajökull er mjög gott dæmi um það!

  En ég deili svo sannarlega með þér óbeit þinn á undanþágum fyrir ferðaþjónustuna þegar kemur að ferðatakmörkunum. Sú hugmynd er algerlega fáranleg og er bara til þess fallinn að skapa glundroða og pirring. Eitt skal yfir alla ganga – sama hvaða tungu þeir tala.

  Góðar stundir!

  #57353
  0412805069
  Meðlimur

  Innlegg í umræðuna:

  Sólheimajökull – snjómokstur

  BO

15 umræða - 1 til 15 (af 15)
 • You must be logged in to reply to this topic.