Heljaregg í Vesturbrúnum – uppfærður leiðarvísir

Home Umræður Umræður Klettaklifur Heljaregg í Vesturbrúnum – uppfærður leiðarvísir

Tagged: 

  • Höfundur
    Svör
  • #68136
    Sissi
    Moderator

    Heljaregg í Vesturbrúnum Esju má teljast algjör klassíker. Á dögunum var bætt við nokkrum boltum (tveir í fyrstu spönn, þar af einn í krúxið, tvö akkeri og sigbolti á turninn). Nú ættu þeir sem treysta sér til að leiða 5.6 í dóti að geta klifrað leiðina á nokkuð öruggan hátt. Líkt og kemur fram í leiðarvísinum er þetta þó ævintýraleið og nauðsynlegt að fara varlega og treysta berginu hæfilega vel.

    Við gerð leiðarvísisins var að mestu stuðst við samantekt frá Jóni Heiðari en Andri, Freyr Ingi, Haukur og Viktor lásu yfir. Það er von okkar að fleiri fái notið þessarar frábæru leiðar með þesum lagfæringum og tilkomu betri upplýsinga.

    Heljaregg Vesturbrúnir Esju – 5.6 – 435 metrar – trad

    Falleg klettaleið upp greinilega egg sem endar í klettanál og þaðan upp á öxlina. Nokkrir boltar eru í leiðinni fyrir meginakkeri og á tortryggðum stöðum. Leið nr. 5 á mynd.

    FF.: Jón Geirsson og Snævarr Guðmundsson, 17. nóv 1984

    Aðkoma: Lagt er við Skrauthóla á Kjalarnesi og gengið upp að Vesturbrúnum þaðan. Það liggur slóði upp í gegnum túnið sem gott er að ganga upp fyrir girðingu og setja svo stefnuna þaðan á Heljaregg.

    Tryggingar: Tryggt með dóti. Boltar og akkeri á illtryggjanlegum stöðum.

    Búnaður: Vinasett, hnetusett og tvistar í bolta. Þægilega klifurskó og aðkomuskó eða jafnvel hálfstífa gönguskó (skriðan undir Vesturbrúnum er gróf). Hjálma!

    Nýir boltar: Í lok júlí 2019 var bætt við boltum í fyrstu spönn, einn í krúxið og einn ofar, og akkerum í þriðju spönn og fjórðu spönn. Einnig var bætt við sigbolta uppi á turninum með hlekk. Í raun ættu þá ekki að vera illtryggjanlegir staðir í leiðinni lengur. Boltar eru í stönsum þar sem erfitt er að tryggja en annars dótaakkeri.

    Athugið: Heljaregg er ævintýraleið og þó hún hafi hreinsast er enn laust grjót. Mikilvægt að klifra með hjálm og treysta berginu hæfilega.

    Byrjun leiðar: Brölt upp gilið hjá Anabasis. Byrjun leiðarinnar er í söðli við klettadrang og fyrstu boltar greinilegir. Hægt er að bæta einni spönn neðan við en mjög lógískt að byrja frekar þarna.

    Leiðarlýsing:

    P1. 50m 5.6. Beint upp frá akkeri (einn bolti) er krúxið (5.6 hreyfingar og bolti). Upp hægra megin við hrygg (bolti). Inní blauta gróf og þaðan til hægri upp ramp (bolti). Áfram upp rampinn (bolti). Beint uppá hrygg, passa að halda sig til vinstri við toppinn á hryggnum. 2 bolta akkeri.

    P2. 60m 5.6. Frá akkeri er farið yfir hrygginn og upp meðfram hryggnum inní skarð. Þaðan beint upp hrygginn 5.6 og uppí boltað akkeri. Ath laust berg!

    P3. 60m 5.6. Upp hrygginn 5.3. Svo verður hryggurinn brattur 5.6 uppá brún. Boltað akkeri.

    P4. 60m 5.5. Upp fésið (2 boltar). Upp laust brölt. Boltað akkeri.

    P5. 45m Class 3. Brölt upp að topp egginni.

    P6. 60m 5.5. Upp eggina sjálfa uppá topp. Vandasamar tryggingar, mikið laust. Bolti og fleygar á toppi turnsins.

    P7. 25m sig niður í skarðið af einum 12mm bolta með keðjulás. Áður var sigið af tveimur fleygum. Gott er að fara af sigboltanum í skarð/dæld ca. 2 metrum sunnan við og standa á lítilli syllu til að leggja línuna í góða átaksstefnu fyrir boltann.

    P8. 50m 5.4. Beint upp úr skarðinu. Auðvelt stallað klifur. Dótaakkeri.

    P9. 50m 5.4 Áfram upp stallana uppá brún. Bolti við brúnina + vinur.

    Lengd: 4-6 tímar í klifri, 3-4 tímar uppá turn. Ca. 6-8 tímar bíll í bíl miðað við að allt gangi vel / stærð teymis.

    Mæli mikið með því að fara á turninn, stór hluti af karakter leiðarinnar. Alls ekki freistast til að síga niður Anabasis, teymi hafa lent í vandræðum þar.

    Niðurleið: Auðvelt brölt inn á megin fjallið. Haldið aðeins til norðurs, út fyrir Vesturbrúnir og gengið niður nokkuð þægilegar skriður norðan við Vesturbrúnir.

    Endilega koma með ábendingar ef eitthvað mætti betur fara í lýsingunni. Einnig væri gagnlegt ef einhver sem þekkir leiðina vel myndi teikna hana inn á nýlegri mynd, hún sést illa á þeirri svarthvítu.

    Yfirlit leiða
    Heljaregg

    Aðkoman er rauða strikið
    Aðkoma

    Heljaregg er lengst til hægri á myndinni
    Heljaregg er lengst til hægri

    Fyrsta spönn (krúx)
    Fyrsta spönn

    Fjórða spönn
    Fjórða spönn

    Myndband úr leiðinni

    • This topic was modified 4 years, 7 months síðan by Sissi.
    • This topic was modified 4 years, 7 months síðan by Sissi.
1 umræða (af 1)
  • You must be logged in to reply to this topic.