Boltun klifurleiða komin í öfga?

Home Umræður Umræður Klettaklifur Boltun klifurleiða komin í öfga?

  • Höfundur
    Svör
  • #74176
    Siggi Richter
    Participant

    Góðan daginn öll sömul,
    ég vil byrja á vara ykkur við, ef þið eruð með ofnæmi fyrir nöldri vil ég ekki eyðileggja fyrir ykkur fallegan sunnudag og mæli því gegn því að lesa, því ég ætla að gera það sem mér einum er lagið: nöldra.

    Ég hef verið hugsi yfir þessu máli frá því í janúar. Við áttum þá leið um Hvalfjörðinn í leit að góðu ísklifri og að vanda voru volæðisaðstæður og lítið almennilegt ísklifur að hafa. Við enduðum því á að láta stutt þynnkuklifur nálægt bíl duga þennan daginn og fórum í þær leiðir sem skráðar eru í Kötlugróf rétt fyrir ofan bílastæðið í rótum Múlafjalls. Klifrið þarna kom okkur hins vegar í frekar opna skjöldu af nokkrum ástæðum.

    Til að byrja með, hvað átti sér stað þarna? Boltar á stangli á víð og dreif? Hálf boltaðar leiðir sem enda í drullupytti hálfa leið upp klettinn? Engin akkeri þar sem leiðavísar segja að séu akkeri? Númer tvö, af hverju er verið að bolta sprungur sem taka við óaðfinnanlegum tryggingum? Ég skil mætavel að margar leiðir eru boltaðar að einhverju leiti efst í Múlafjalli, enda heldur bergið þar varla billy-hillum. En í Kötlugróf er bergið nánast á pari við Stardal. Er það ekki líka rétt skilið að þetta eru gamlar dótaklifurleiðir? Og að lokum, finnst mér undarlegt að verið sé að binda þurrtólun við þessa stuðla sem henta svona miklu betur í klettaklifur.

    Ég verð að viðurkenna að ég gafst eiginlega upp eftir þessa upplifun og vil því spyrja fólk: er ekki kominn tími til að taka aðeins til í þessu (boltunar-)siðferði hérna á landi? Það virðist þessa dagana hver sem er geta leyft sér að þrykkja inn boltum af ótrúlegustu gerðum og á ótrúlegustu stöðum. Þetta er sannarlega ekki einsdæmi síðustu árin, en á síðari árum má t.d. nefna boltun í Ásbyrgi, Hrepphólum, Stardal og Valshamri sem hefur verið gert í leyfisleysi, en þó eru frágengin mál núna. Ég er með lista yfir nokkur nýleg svæði þar sem óvíst er með leyfi, m.a. framkvæmdir á vernduðum svæðum, en ég ætla hins vegar ekki að birta hann hér (þar sem ég er ekki að þessu til að ræða stök svæði, og ég veit ekki hvort leyfi var fengið eða ekki). Þetta eru m.a. svæði í nánd við höfuðborgarsvæðið sem hafa verið boltuð nú á allra síðustu árum að einhverju eða miklu leiti, t.d. gömul dótaklifursvæði. Svo er líka þess virði að minnast á allnokkrar gamlar dótaleiðir sem virðast hafa verið boltaðar án samþykkis frumfarenda. Ef þið hafið áhuga á að vita hvaða svæði ég á við eða ef þið vitið um þessar framkvæmdir á stökum svæðum, og vitið að slíkt var gert í allra sátt (við landeigendur og klifursamfélagið), megið þið endilega heyra í mér.

    Ég er ekki að minnast á svæðin til að benda fingrum í átt að einum eða neinum eða til að rökræða stök tilfelli, heldur er ég einfaldlega til að draga þetta í heild sinni fram í dagsljósið. Ef fram heldur sem horfir er ekki spurning hvort, heldur hvenær þessi boltunarglundroði í náttúru Íslands fær athygli annarra, fólks sem getur gert raunverulegt mál úr slíku og komið utanaðkomandi fólki í nöp við okkar annars frábæra klifursamfélag (og þetta er þegar farið að vekja athygli, sbr. Ásbyrgi). Ég veit að boltar í klettum eru alls ekki bara framkvæmdir á vegum íslenskra klifrara, en við erum að setja ákveðið fordæmi.

    Ég vil engu að síður taka það fram að ég er ótrúlega þakklátur þeim sem hafa sett upp ótrúlegt magn glæsilegra boltaðra klifurleiða, bæði sumar- og vetrarleiðir um allt land, þessar leiðir eru virkilega mikils virði fyrir klifursamfélagið og frábært að geta gengið að öruggum og skemmtilegum boltuðum leiðum og svæðum. En þetta eru einmitt góðar leiðir og klifursvæði m.a. vegna þess að við getum gengið að þeim vísum, vitandi það að leiðirnar eru öruggar og að við erum ekki á klifra á þeim svæðum í óþökk landeigenda.

    En í dag þykir mér sumir vera farnir að teygja lopann. Hver svo sem ástæða hvers og eins er fyrir að þrykkja inn bolta í berg í náttúru Íslands, þá megum við ekki gleyma; við erum ekki ein í heiminum. Hér er líka annað fólk sem hefur margar ástæður til að halda berginu ósnortnu: náttúruverndarsinnar, landeigendur, hagsmunaaðilar, dótaklifrarar o.fl. Ég veit að einhverjum þykir erfitt að átta sig á því af hverju ætti að halda bergi boltalausu, hvort sem það er af náttúruverndar- eða klifurástæðum. Og það er bara allt í lagi að þið skiljið það ekki… þið þurfið ekki að skilja allt. Stundum er líka í lagi að leyfa hlutunum bara… að vera.

    Ég gæti haldið endalaust áfram, en læt hér við sitja. Ég legg hins vegar til að það verði tekin umræða um framtíðina í boltunarmálum og siðferði á Íslandi, sem að sem flestir komi að, í það minnsta Ísalp og Klifurfélag Reykjavíkur. Mér leist virkileg vel á þá hugmynd sem var hér uppi síðasta haust hjá Klifurfélagsfólki, að halda einskonar þing um þessi mál sem fyrst, þó ég viti ekki hvort eitthvað hafi orðið af því.

    Aftur, ég er ekki að þessu til að rífa kjaft, heldur til að draga þetta upp á yfirborðið og athuga hvort sé ekki hljómgrunnur fyrir að taka til í þessum málum, svo við getum verið viss um það í framtíðinni að klifurleiðir og -svæði séu örugg og í allra sátt?

    Yfir og út,
    Nöldrarinn

    • This topic was modified 3 years, 4 months síðan by Siggi Richter.
    • This topic was modified 3 years, 4 months síðan by Siggi Richter.
    • This topic was modified 3 years, 4 months síðan by Siggi Richter.
    • This topic was modified 3 years, 4 months síðan by Siggi Richter.
    #74182
    Jonni
    Keymaster

    Þegar þú talar um Kötlugróf ertu þá að tala um svæðið alveg niðri við bíl (Svarti steinn)? Ef svo er þá eru þetta frekar gamlar leiðir og ég þekki ekki alveg söguna á bak við þær. Mér skylst að þær hafi verið boltaðar í kringum 2000 en ég hef ekki heyrt áður um að þær hafi verið dótaklifurleiðir. Einhverjar leiðirnar eru blandaðar, boltaðar hálfa leið en svo dótaklifur restina. Bergið er ekki mikið skárra þarna en uppi, ég henti góðum ískáp þarna niður og skar á línuhönkina á jörðinni.

    #74183
    Jonni
    Keymaster

    Og til að svara spurningunni með málþingið sem var á dagskrá, þá frestaðist það vegna Covid eins og svo margt annað. Hlimar er enn spenntur að standa fyrir því, enda þörf umræða. Spurningin er einfaldlega hvort að það verði núna í vor eða hvort að við stefnum á það næsta haust.

    #74184
    Siggi Richter
    Participant

    Frábært að heyra með boltaþingið, vissi einmitt að covid hefði eitthvað hrist upp í þessu en var ekki viss hvort það hefði verið haldið þrátt fyrir það eða ekki. En gott að heyra að það er á dagskrá, ég er sjálfur endilega til í að vera með.

    Og já þetta er einmitt kletturinn sem ég á við. Veit heldur ekki hver hugmyndin var og það má eflaust vera að þetta eigi að vera blandaðar leiðir, en mjög undarlega uppsett þar sem það er ekki eins og boltarnir séu á illtryggjanlegum stöðum. T.d. F6 er vel boltuð hálfa leið og svo stoppa bara boltarnir, eins og einhver hafi bara gefist upp á henni, og ekkert akkeri. Og boltaði hlutinn er alveg jafn tryggjanlegur og óboltaði.
    Ég er alveg sammála með varasömu lausu steinana í toppinn, sem er einmitt önnur ástæða fyrir því að mér fannst þetta varasamt þar sem maður var að vega salt á einhverjum flykkjum á brúninni, að reyna að finna akkerið sem var talað um yfir F7, sem við svo fundum aldrei (sigum niður og leituðum um allt). Og þá er kannski spurningin, er einhver misskilningur að eigi að vera akkeri þarna, eða er það komið með einhverju grjótinu niður að vegi?

    #74185
    Jonni
    Keymaster

    Það kemur ekki mikið á óvart að það passi ekki allt alveg 100% á þessum sector. Matteo fann þetta korteri fyrir prentun á ársritinu þar sem leiðarvísirinn af Múlafjalli kom út. Ég, Matteo og Marco fórum að prófa þessar leiðir og við rétt náðum að bæta þeim og öllum sectornum við leiðarvísinn áður en ársritið var prentað. Mín upplifun af þessum sector var að þetta væri bara hálfnað verk sem átti eftir að klára. Þetta gæti orðið flottur sector hvort sem að hann endar sem sport/trad sector eða mixed/dry sector. Persónulega held ég að hann henti betur sem mixed/dry því að bergið virkaði á mig að það væri mjög oft rakt eða blautt og ekkert svo fast í sér en ég er heldur ekki með mjög fasta skoðun á þessu. Það gæti vel verið að þessi sector henti betur sem sport/trad en hvort sem það nú verður þá þarf að taka til á svæðinu.

    #74189
    Siggi Richter
    Participant

    Já þú meinar, skil þig. Gott að vita, ég var einmitt ekki viss hversu mikið væri vitað um leiðirnar og pælinguna bak við svæðið. En þetta gæti klárlega verið fínasta svæði. Þar sem þetta snýr í norður þarf eitthvað að skrúbba svæðið, en stór hluti klettanna er skraufaþurr og hentar vel í klettaklifur, ég fór eina nýja leið þarna (meir og minna bara með axirnar klipptar á beltið) og fannst þetta ótrúlega svipað bara klifrinu í Stardal. En svo eru líka línur á milli sem henta eflaust mun betur í mix. Þetta er allavega svæði sem þarf endilega að skoða betur, og það gæti einmitt verið hlutverk einhversskonar umræðu/þings, að taka ákvarðanir um hvað slík svæði henta best í og hvernig best er að standa að því 🙂

6 umræða - 1 til 6 (af 6)
  • You must be logged in to reply to this topic.