Aðgengi að Spora

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Aðgengi að Spora

 • This topic is empty.
 • Höfundur
  Svör
 • #45464
  KatrinM
  Moderator

  Ég er með smá sjokkerandi fréttir sem ég vona að einhver sem þekkir til getur lagað.

  Félagar mínir ætluðu að fara í Spora í dag, lögðu frekar seint af stað og voru komnir á planið hjá bónda uppúr 11. Það fyrsta sem þeir gera er að sjálfsögðu að fara og banka hjá bóndanum og spyrja hvort það væri í lagi að þeir legðu bílnum sínum og færu í gegnum landið hans. Þeir hafa áður farið og aldrei verið neitt mál (né fyrir mig eða aðra sem ég hef heyrt um).
  Þá fengu þeir svolítið óvænt viðbrögð frá bónda, en hann virtist heldur fúll og eftir smá spjall var félögum mínum sagt að þeir ættu ekki landið og ættu að koma sér burt…

  Kannast einhver við af hverju bóndinn var svona fúll?
  Ég fór fyrir tveimur helgum og þegar við spjölluðum við kallinn var hann hinn hressasti en sagðist þó hafa verið í veseni með rjúpnaskyttur… gæti það hafa farið illa í hann?
  Væri slæmt ef við missum aðgengið að Spora, ef einhver þekkir hann væri gott að fá botn í málinu.

  #57947
  Sissi
  Moderator

  Held að menn þurfi að passa sig alveg rosalega vel á að 1) tala alltaf við bóndann, 2) vera á eðlilegum tíma þarna, leggja ekki þar sem bíllinn er fyrir og ganga vel um og 3) vera mjög kurteisir.

  Veit svo sem ekki hvað hefur klikkað þarna hjá félögum þínum, vona að þeir hafi ekki verið neitt stuðandi við kallinn, eða hvort þetta hefur tengst öðru liði sem hefur ekki talað við hann. Það hefur verið smá vandamál, sbr. þessi þráður

  http://www.isalp.is/forum/7-is-og-alpaklifur-/12440-aegengi-i-haettu-vegna-bjanaskapar.html#12462

  Aðgengismál munu verða meira og meira vandamál á næstunni fyrir útivistarfólk og því algjört lykilatriði að vanda sig mjög mikið.

  #57948
  Arni Stefan
  Keymaster

  Við Haukur lentum í svipuðu atviki í fyrra. Við komum að bænum og bóndinn var að skafa frá bænum. Ég fór úr bílnum, bauð góðan daginn og spurði hvort og hvar við mættum leggja og hvort honum væri sama ef við klifruðum í landinu hans. Hann brást frekar illa við, ásakaði okkur um yfirgang og eitthvað. Mér hálf brá þar sem ég taldi mig hafa verið sæmilega kurteisan (var búinn að sjá hinn þráðinn sem Sissi vísaði í). Þá fattaði ég að ég hafði ekki kynnt mig með nafni, sem ég gerði og tók í höndina á bónda.

  Hann hresstist við þetta, sagði okkur hvar hann vildi að við legðum bílnum og óskaði okkur góðrar ferðar eftir stutt spjall.

  Þegar við fórum bönkuðum við uppá og þökkuðum fyrir okkur sem hann kunni greinilega að meta.

  Ég vona að aðgengi okkar að fossunum hér nálægt borginni haldist og vona að allir séu meðvitaðir um að það er ekki sjálfsagt að fá að leggja við bæi og ganga yfir lönd bænda.

  #57949
  gulli
  Participant

  Það er slæmt mál ef klifrurum verður meinaður þarna aðgangur, getur verið þrælgaman að skella sér í Spora og aðkoman og lengd frá Rvík frábær. Í þau skipti sem ég hef farið þarna hefur bóndinn alltaf verið mjög vinalegur og það á reyndar við um alla þá ábúendur sem maður hefur rætt við varðandi að fá að troða aðeins á landinu þeirra.

  Er einhver hérna málkunnugur bóndanum að Fremra-Hálsi? Held það væri ráð að hafa samband við hann og fá upplýsingar um hvað veldur því að ekki var vel tekið á móti þessum aðilum og koma fram hans óskum um aðgengi rækilega hér á vefnum. Ef enginn þekki þarna til væri líklega best að e-r úr stjórn tæki þetta að sér.

  Kveðja,
  Gulli

  #57953
  1811843029
  Meðlimur

  Hæhæ

  Ég ætla að setja mig í samband við ábúendur á bænum og ræða málið. Þá vonandi fæ ég að heyra beint frá þeim hvernig þau vilja hafa þetta þannig að allir geti lifað í sátt og samlyndi. í framhaldinu kynnum við það svo hér á vefnum.

  En annars er líka ágætt að minna á að Isalp er sameiginlegur málsvari okkar fjallafólks. Þegar svona mál koma upp er mjög sniðugt að hafa samband við eitthvern í stjórninni og þá getur stjórnin mögulega miðlað málum og komið ábendingnum til félaga klúbbsins. Það er mikið betra heldur en að hver og einn klifrari sé að basla í svona málum uppá eigin spýtur, það getur búið til mikla kergju hjá t.d landeigendum að þurfa að skýra sín mál marg oft og fyrir nýju fólki í hvert sinn.

  Munum að kurteisi og virðing er lykilatriði í umgengni við landeigendur!

  Kveðja,

  Atli Páls.
  Formaður Isalp

  #57956
  1811843029
  Meðlimur

  Hæhæ
  Ég átti mjög gott spjall við Steinar á Fremri-Hálsi um Spora og aðgengi að fossinum.

  Í stuttu máli þá hefur hann ekkert á móti því að fólk komi að klifra í Spora svo lengi sem fólk lætur vita af ferðum sínum og sýnir tillitsemi.

  Hann vill að ALLIR sem koma að klifra banki uppá hjá sér og láti vita af ferðum sínum, fái að vita hvar má leggja og og slíkt. Hann lítur ekki á það sem ónæði, svo lengi sem fólk er á kristilegum tímum. Hann nefndi líka að hann hefur fylgst með að þeir sem fara uppeftir skili sér aftur niður sem er auðvitað frábært öryggi fyrir klifrara. Einnig hefur komið fyrir að þeir sem eru að koma í fyrsta skipti rati ekki uppeftir en þá er Steinar boðinn og búinn að leiðbeina rétta leið.

  Þegar farið er að klifra í Spora:

  -Vera á kristilegum tíma.
  -Banka uppá, kynna sig og tala við fólkið á bænum. VERA KURTEIS, við erum gestir!
  -Leggja bílum eingöngu þar sem fólkið á bænum segir að megi leggja.
  -Ganga vel um girðingar og hlið.
  -Reyna að koma aftur niður á kristilegum tíma.
  -Banka aftur uppá við brottför og þakka fyrir sig.

  Þetta er nú ekki flóknara og ætti ekki að vera neinum ofviða.
  Eins og alltaf geta fáir sem haga sér illa skemmt fyrir öllum hinum. Breiðum út boðskapinn og höldum góðu sambandi við landeigendur við Spora!

  F.h stjórnar Isalp,
  Atli Páls.

6 umræða - 1 til 6 (af 6)
 • You must be logged in to reply to this topic.