Re: Re:Sjaldan er ein sprungan stök..

Home Umræður Umræður Almennt Sjaldan er ein sprungan stök.. Re: Re:Sjaldan er ein sprungan stök..

#55147
Karl
Participant

Allt þar til fyrir 20 árum voru árvissar leitir af rjúpnaskyttum sem ekki rötuðu aftur til byggða.
Þetta var orðið það umfangsmikið vandamál að hjálparsveitirnar lögðust í áttavitakennslu á hverju hausti til að spara sér þokuþrammið í leitum, því auðvitað var fyrirhafnarminna að uppfræða skytturnar og láta þá skila sér af fjalli af sjálfsdáðum.
Í dag þykir sjálfsagt að veiðimenn kunni góð skil á rötun.

Ég held að við þurfum ekki að vera viðkvæmir fyrir því að ræða jöklaferðir og kunnáttu (leysi) jöklafara á Íslenskum jöklum á almennum forsendum.
Staðreyndin er sú að fæstir þeirra sem aka um jöklana á eigin vegum hafa þekkingu á þeim þáttum sem allstaðar annarsstaðar þykja sjálfsagðir meðal jöklafara sem ferðast á eigin vegum.

Ég man í augnablikinu eftir þrem tilvikum þar sem björgunarsveitir voru kallaðar til eftir að ferðamenn á jeppum eða vélsleðum höfðu fallið í sprungu.
Það er umhugsunarvert að hvorki fjölmiðlar eða björgunaraðilar hafa gagnrýnt kunnáttuleysi þeirra sem þarna voru á ferðinni.
Á meðan ekki kemur upp gagnrýnin umræða um kunnáttu jöklafara þá eru ekki miklar líkur á breytingum.
Sjálfum finnst mér eðlilegt að jöklafarar,eða amk lykilmenn í hverjum hóp, kunni að bera sig um á sprungusvæðum og fara upp og niður sprungur.

Við alvarleg sjó, flug og umferðarslys er gerð opinber skýrsla þar sem einnig er að finna tillögur um úrbætur. Þar er einfaldlega viðurkennt að opin umræða og gagnrýni er forsenda umbóta.
Ég held að þeim sem eigi um sárt að binda sé mestur sómi sýndur með umfjöllun og úrbótum. Ekki er að sjá að slys í jökulsprungum á undanförnum árum hafa orðið hvati að bættri ferðamennsku.
Ég tel enga ástæðu til að menn dragi úr jöklaferðum en það er enn í gildi að „vits er þörf þeim er víða ratar“

Ég hef aldrei verið í „Slysavarnarfélagi“ og er ekki í krossferð á þessu sviði en finnst óvitlaust að þessi umræða fari af stað innan þeirra samtaka þar sem mest þekking er til staðar á hefðbundinni jöklamennsku.