Re: Re: Meira af afrekum ferðaþjónustunnar

Home Umræður Umræður Almennt Meira af afrekum ferðaþjónustunnar Re: Re: Meira af afrekum ferðaþjónustunnar

#57073
0801667969
Meðlimur

Gott og málefnalegt innlegg hjá Steinari. EN….

Ég held að allir geti verið sammála um ágæti uppbyggingar í ferðaþjónustu. Uppgangur í fjalla- og einkum jöklaleiðsögn gnæfir þarna uppúr að mínu mati. En þessi uppbygging verður að vera á skynsamlegum (hófsömum) nótum og í sátt við náttúruna. Ekki á kostnað hennar.

Hvergi er aðgengi að jökli betra en við Sólheimajökul. Og aðkoman er hrein snilld. Hlykkjóttur vegur sem fellur gjörsamlega inn í landslagið og gefur ferðamanninum stöðugt nýja sýn á svæðið.

Stundum liggur vegurinn upp á lítt gróna jökulgarða og maður sér skyndilega yfir svæðið. Svo aftur niður bratta brekku og út á snarbratta bakka Jökulsár sem beljar þarna undir. Stundum liggur hann í lægðum á milli jökulgarða í kröppum beygjum. Þarna þarf að fara sér hægt. Og það er alltaf eitthvað nýtt að sjá bak við næsta hól eða næstu beygju. Smá spenna og eftirvænting. Og skyndilega blasir svartur jökullinn við. Ekkert annað truflar.

Það er einmitt þetta sem flestir vilja og leita að. Hinu ósnerta og óbyggða. Og ekki sakar smá spenna (hlykkjóttur vegslóðinn).

Maður er nýkomin af þjóðvegi eitt og dettur skyndilega inn í nokkurs konar óbyggðir.

Eins og staðan er í dag þá er það ævintýrir fyrir flesta að keyra slóðann þarna innúr. Skyndilega blasir við stórt bílastæði og risabygging , sem rýmar illa við landslagið. Algjör „anticlimax“.

Steinar talar um malbikaðan hlykkjóttan veg inn að jökli. Það er ekki hægt að malbika veg nema hann sé uppbyggður og skagi talsvert hátt upp úr umhverfinu. Til þess þarf mikil landspjöll og slíkur vegur fellur alls ekki inn í landslagið.

Þingvellir standa á hrauni og vatn eða vatnsagi er þar ekki vandamál. Þar hverfa líka ýmis mannana verk inn í landslagið sem ekki gera það annars staðar. Það er því ekki hægt að bera saman vegagerð þar og á jökulurð kringum jökla landsins.

Ef byggður verður heilsársvegur þá verður hann eins beinn og kostur er. Annað er ekki í boði. Styttir leiðina (og sparar byggingarkostnað). Vegagerðin býður ekki annað og þetta er líka helsta baráttumál ferðaþjónustunnar í dag. Allt til að moka sem mestu á sem skemmstum tíma fyrir sem minnstan pening.

Mönnum væri í lófa lagið að berjast fyrir vegum sem falla inn í náttúruna. Ofaníburður og að hefla oftar gerir gamla „slæma“ vegi oft mjög góða. Slíkt talar hins vegar engin um.

Þráðbein hraðbraut inn að Sólheimajökli og sjoppur inn við jökulsporð mun einfaldlega eyðileggja sjarma svæðisins. Okkur þykir sjálfum þetta lítt aðlaðandi. Og útlendingar eru ekkert öðruvísi. Þetta kemur einfaldlega niður á ferðaþjónustunni þegar til lengri tíma er litið. Og bitnar strax á blásaklausum ferðamönnum, útlendum sem innlendum.

Að það þurfi að rústa svæðinu af því að ekki er fólksbílafært örfáa daga ef þá nokkurn dag ársins þegar túristar eru sárafáir er fráleitt mál. Það eru líka til öflugri bílar en Yaris.

Er ekki eðlilegt að túristinn borgi fyrir það að komast þangað sem hann vill? Eða á að niðurgreiða þetta með náttúrunni og fé úr vasa almennings?

Kv. Árni Alf.