Re: Re: Bjargsigsmenn í öðrum heimi hvað útbúnað varðar

Home Umræður Umræður Almennt Bjargsigsmenn í öðrum heimi hvað útbúnað varðar Re: Re: Bjargsigsmenn í öðrum heimi hvað útbúnað varðar

#56229

Ég fékk skemmtilegan póst frá ágætum manni og ég bað um að fá að birta hann. Þegar svarið barst, sem var jákvætt, þá fylgdi enn frekari fróðleikur. Hér að neðan má sjá báða póstana:

__________________

# 1

Sæll Björgvin

Sé að þið í Íslenska Alpaklúbbnum eruð að ræða um bjargsig og þann búnað sem notast er við.

Þessi mynd sem þú vísar í er af Haraldi Geir og er hann að síga eftir eggjum í Bjarnarey í sömu eyju og þýska kvikmyndin er tekin.
Myndin af Haraldi er tekin efst í svokölluðu Hrútaskorusigi árið 2008.

Í Bjarnarey er fríður og hraustur 7-10 manna flokkur bjargsigsmanna sem stundar þar bjargsig á eggjatímanum frá ca 15-25 maí ár hvert.
Tilgangurinn er að halda í gamlar hefðir og gera þetta eins líkt og gert var í gamla daga. Að vísu hefur öryggi verið aukið og við bætt við talstöðvum og betri bönd og sterkari notuð enda er sigið á einu sigbandi í stað tveggja. ( Bundið á báðum hét það). Einnig er notast við sigbelti til þæginda í löngum sigum sem eru ca 120 metra löng frá bjargbrún og niður í sjó. Fyllsta öryggis er gætt og farið er yfir bönd og sigbúnað fyrir hvert vor.

Við höfum gert ýmsar tilraunir með að nútímavæða sigið og notað ýmiss bönd og kaðla en höfum alltaf farið til baka í þessi sveru bönd sem eru miklu þægilegri í lófanum þegar við þurfum að koma okkur inn á syllur og klifra og mikil handavinna í gangi. Krampi kemur strax ef bandið er grant.

Einnig er ekki gott að hafa mikla teygju í kaðlinum. Það helgast af því að þegar taka þarf stór rið í berginu þá er erfitt að reikna út lendingarstað vegna teygjunar sem einnig eykst þegar sigmaður er kominn með fullt af eggjum inn á barminn.
Þá er mjög óþægilegt að þegar sigmaður kemst inn á syllu eftir stórt rið að þá er hætta á að kaðallinn kippi sigmanni upp og út af syllunni þegar teygjan er mikil.

Kíktu á þessa slóð og láttu þig dreyma ..
http://www.bjarnarey.is/index.php?option=com_rsgallery2&Itemid=92&page=inline&catid=12&id=1357&limit=1&limitstart=70

Ljúft við lifum og klifurkveðjur ..

Kveðja

Hlöðver Guðnason

__________________

# 2

Sæll Björgvin

Þér er velkomið að birta þetta á þræðinum hjá ykkur svona til fróðleiks.
Eins og áður hefur komið fram að þá erum við alltaf að hugsa um öryggi og tryggja það að menn fari sér ekki að “voða”.

Farið er yfir bönd og sigbúnað á hverju vori. Sum sigbeltin eru orðin tuga + ára gömul og ófúin en upplituð. Við höfum verið með nælonbönd og völdum þau í samráði við netagerðarmeistara. Áður fyrr voru notuð netabönd / tó úr netadræsum og voru þau ágæt en bara alltof stutt þegar komið er í langt sig. Einnig var oft sandur inni í þeim sem var ekki gott, þar sem sandurinn sker bandið smátt og smátt að innan.
Sverleikinn og lítil teygja á böndunum er líka svolítið atriði þegar kemur að hífingu, að þá er gott fyrir brúnamennina að geta náð góðu taki á sigbandinu. Við erum að vísu með sigspil til að létta okkur vinnuna en treystum ekki alfarið á það.

Nokkur slys hafa verið við bjargsig í Eyjum og nokkur dauðaslys í Bjarnarey. Þau hafa alltaf gerst þegar menn hafa verið óbundnir við klifur og eggjatöku.
Þess vegna hefur það verið regla hjá okkur að sigmaður losar sig aldrei úr bandi. Treysta bandinu og vera alltaf bundinn sögðu gömlu karlarnir.

Annars er alltaf gott að hafa vaðið fyrir neðan sig og endurnýja búnað reglulega.
Það er ekkert gaman að vera í klifri eða sigi ef maður treysir ekki búnaði eða félögunum, þetta eru líflínurnar.

Annar visa ég í http://www.bjarnarey.is/ . Þar eru flottar myndir af bjargsigi /eggjatöku í myndalbúmi merkt eggjataka 2005 og 2007 og fleiri albúmum.
http://www.bjarnarey.is/index.php?option=com_rsgallery2&Itemid=92

Það sést líka að félagsskapurinn er fjallmyndarlegur og kann að skemmta sér.

Það er flott grein og myndir frá RAX í Mogganum sunnudaginn 24. maí, 2009 ef þið hafið aðgang að Mogganum.

Ljúft við lifum og Bjarnaeyjakveðjur til ykkar allra.