Home › Umræður › Umræður › Ís- og alpaklifur › Ísklifuraðstæður 2023-2024 › Reply To: Ísklifuraðstæður 2023-2024

Við Bergur fórum í Villingadal í gær. Bæði Kerberos og Hades voru í góðum gír. Við tókum Kerberos þar sem annað teymi var á Hades. Það var lítill snjór í gilinu og klifruðum við því fyrst eina aðkomu spönn til að komast að meginfossinum. Síðan tókum við allan fossinn í einni 60m langri spönn sem var frábær. Til þess að forðast vatn sem draup báðum megin í fossinum þá var best að klifra hann upp miðjan sem gerði klifrið aðeins meira krefjandi. Það var 7 stiga frost og áin við veginn vel frosin en áin upp í gilið var allt annað en frosin. Það vakti furðu okkar þar sem hún er vatnsminni. Sennilega rennur heitara vatn í þeirri á. Sömu sögu er að segja um fossana. Það seytlaði ennþá töluvert vatn í þeim og þeir eiga eftir að vaxa umtalsvert á næstu vikum ef fram heldur sem horfir. Það var nægur ís fyrir tryggingar og margar skiluðu þurrum ískjarna.
V-þræðing frá toppnum var nakinn þar sem ísinn þar var þurr. Vegna frosts og seytlandi vatns þá myndaðist nokkur brynja utan á línunum og lentum við í því að Sterling Hollowblock fraus fastur utan um línurnar á síginu (tvær 8.1mm Beal Ice Line). Eina lausnin var að skrúfa sig inn, fjarlæga autuoblock uppsetninguna og síga án þess. Það er í fyrsta sinn á löngum ferli sem undirritaður upplifir slíkt. Eftir að hafa Googlað aðeins þá er þetta þekkt vandamál með Hollowblock í ísklifri og algeng lausn er að sleppa þessari uppsetningu við svona aðstæður. Önnur lausn er að nota grennri spotta fyrir autoblock eða prussik.