Skjól WI 3
Leiðin er í Rjúpnahjalla, sem er yst í Brynjudal. Strax eftir brúna yfir Brynjudalsá er bílnum lagt við læst hlið hægra megin Hvalfjarðarvegar (47). Síðan er gengið eftir veginum og svo stefnt að leiðinni þegar henta þykir (sjá yfirlitsmynd). Gangan tekur um 25 mínútur.
Erfiðleikagráða
Leiðin er í þægilegri kantinum. Hún er með nokkrum höftum, sérstaklega því fyrsta, sem gæti flokkast sem aðeins erfiðara en WI3, en þar sem þessi höft eru stutt viljum við ekki setja hærri gráðu á hana. Eins og alltaf má vel vera að gráðan geti hækkað eilítið eftir aðstæðum hverju sinni.
Skipting spanna
Leiðin er klifruð í tveimur spönnum:
-
1. spönn: Hefst á ágætis klifri sem breytist svo í brölt og á endanum göngutúr á ís þangað til komið er að ísbreiðunni þar sem seinni spönn hefst.
-
2. spönn: Seinni spönn var klifruð um rúma 30 metra og svo gert akkeri eftir það, þar sem ísinn var farinn að þverra.
Niðurleið: Þetta fyrirkomulag er ágætt því þá er hægt að síga niður meirihluta leiðar með tveimur 60 metra línum. Þá þarf bara að brölta niður hægra megin í brekkunni við síðasta haftið (þar sem klifrið hófst). Hér er átt við „hægra megin“ fyrir klifrara sem er að fikra sig niður (eins og skíðamaður).
Sagan á bak við leiðina
Í frumferð var þessi leið valin því veðrið á suðvesturhorni landsins var snælduvitlaust. Keyrðu klifrarar framhjá tveimur bílum í Mosfellsbæ sem farið höfðu útaf í blindbylnum. Það var hins vegar ekki verið að stoppa því það var algjörlega lífsnauðsynlegt að ná góðu klifri á þessum degi.
Miðað við vindátt þá reiknaðist þeim til að það væri skjól í norðanverðum Brynjudal og reyndist það laukrétt. Þetta var yndislegur dagur í Brynjudal á meðan rokið lék aðra grátt. Leiðin fékk því nafnið Skjól. Önnur ástæða fyrir þessu klifri var að bæta við enn einni leiðinni í Brynjudal svo að Freysi hafi nóg fyrir stafni í að klifra allar leiðir í dalnum.
FF (Frumferð): Halldór Fannar og Ágúst Kristján Steinarrsson, 6. janúar 2025.
| Klifursvæði | Brynjudalur |
| Svæði | Rjúpnahjalli |
| Tegund | Ice Climbing |
| Merkingar |






Comments