Kerlingareldur

Home Umræður Umræður Klettaklifur Kerlingareldur

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #46002
    AB
    Participant

    Við Óli Raggi, Eyþór og undirritaður klifruðum Kerlingareldinn á laugardaginn. Leiðin sem var fyrst farin af Jökli og Stebba í ágúst 1997, er 5 spanna klettaleið í berggangi efst í fjallinu Kerlingu (1215 m) í Svarfaðardal í Eyjafirði. Þessi snilldarleið hafði ekki verið endurtekin fyrr en nú. Það verður að teljast frekar athyglisvert því þetta er tvímælalaust ein af fallegustu klettaleiðum landsins. Bergangurinn er líklega úr þéttu basalti og er bergið mjög áþekkt berginu í Valshamri í áferð og lögun. Umhverfið gerir það að verkum að alpafílingurinn er gríðarlegur en eins og fróðir menn vita þá er Svarfaðardalur ásamt Skíðadal fallegustu dalir í heimi.
    Spannirnar gráðast um 5.5- 5.8 en það segir ekki margt um erfiðleika leiðarinnar í heild. Að mínu mati er leiðin talsvert alvarleg, Óli Raggi slapp mjög naumlega þegar ca 2 tonn af grjóti losnuðu og hrundu nánast á hann. Þótt bergið sé mjög gott á íslenskan mælikvarða þá eru margir staðir varasamir vegna grjóthrunshættu, aðallega í fyrstu tveimur spönnunum. Einnig eru sumar spannirnar nokkuð tortryggðar en á móti kemur að megintryggingarnar eru boltaðar. Þennan dag var dágott hrun úr hamraveggjunum í kring. Það var því ekkert slórað í snjóbrekkunni undir berganginum á leiðinni niður.

    Fyrir tveimur árum ætlaði ég ásamt nokkrum félagum að klifra Kerlingareldinn. Við vissum að leiðin var ,,bara“ 5.8 og höfðum því ekki miklar áhyggjur af því að þetta yrði okkur ofviða. Í dag prísa ég mig sælan fyrir að það fór að rigna og við komumst aldrei af stað. Við hefðum að öllum líkindum endað í tómu tjóni því þrátt fyrir að geta klifrað 5.8 í dóti hefði þessi leið verið stórhættuleg fyrir okkur. Þess vegna finnst mér að svona fjölspanna leiðir eigi að gráða með alpagráðum sem taka tillit til heildarerfiðleikanna og þeirrar hættu sem getur falist í tiltekinni leið og utanaðkomandi aðstæðum. Sumir hafa sagt að þetta sé óþarfi því klifursamfélagið sé svo smátt í vexti og allir viti hvað þeir ráða við, en einmitt núna er einhver á umræðusíðunni að spyrja um leiðir í Vesturbrúnum. Hvað segir það spyrjandanum að Heljareggin sé bara 5.5 eða 5.6 ?
    Þótt hlutfall reynslubolta sé óvenjuhátt í íslenska klifursamfélaginu eru alltaf einhverjir sem kunna ekki að meta raunsætt hvað þeir ráða við í fjallaklifri. Það er ósköp eðlilegt. Alpagráðukerfið myndi hjálpa til við að minna byrjandann ( og alla aðra) á að ,,ekki er allur erfiðleiki í tæknilegu gráðunni fólginn.“ Hvað finnst þér?

    En aftur að Kerlingareldinum. Eins og áður sagði er leiðin mjög glæsileg og þar sem ekki er endalaust af slíkum alpa-klettaleiðum á Fróni þætti mér furðulegt ef Kerlingareldurinn þyrfti að bíða önnur sex ár eftir næstu heimsókn.

    Kveðja,
    Andri B

    #48073
    0311783479
    Meðlimur

    Glæsilegt piltar!!!
    Ég er sammála með að það sé rétt að taka alvarleika leiðarinnar með í gráðunina á henni, hvað segja menn með alpagráðuna og gaman væri að heyra annað hvort frá Jökli eða Stebba með hvað þeim finnst um hana.

    -kveðja
    Halli

    #48074
    0310783509
    Meðlimur

    Snilld hjá ykkur strákar, en ef ykkur langar að heyra frá Stebba í sambandi við þetta þá myndi ég bara hringja í hann því ef hann byrjar að pikka inn svar núna þá verður sennilega búið að endurtaka leiðina aftur í millitíðinni… :-)

    Sorrý Stebbi
    Einar Ísfeld

    #48075
    0309673729
    Participant

    Til hamingju með eldinn! Það er alltaf gaman að heyra þegar menn taka sér pásu í sportklifrinu til að fara flottar alpaklifurleiðir.

    Ég er sammála því að alpaklifurleiðir ættu að hafa alpagráður, tæknilega gráðan má svo alveg fylgja með. Helsti gallinn er líklega sá að fáir klifrarar hérna þekkja mikið til alpagráða — sér í lagi í erfiðari kanntinum. En málið er nátttúrulega að reynsla af alpagráðum skapast ekki nema að við byrjum að nota þær meira.

    Hvernig væri að taka alpagráður fyrir í haust á kvöldsamkundu í félagsheimili ÍSALP — ræða alpagráðurnar og skella gráðum á allar þekktar íslenskar alpaleiðir. Stjórnin skaffar kaffi og meðí!

    #48076
    0311783479
    Meðlimur

    Endilega taka svona alpagráðufund og reyna að fá okkar helstu alpakempur til að mæta svo við óreyndara fólkið áttum okkur betur á þessu.

    -hg

    #48077
    2510815149
    Meðlimur

    Alpa smalpa….. gráða smáða…. kominn með of mörg gráðukerfi í kollinn, nenni ekki að bæta fleirum við.

    #48078
    AB
    Participant

    Iss, svona mórall… Ef það er einhverjum ofviða að læra nokkur gráðukerfi utanbókar þá er sígilt ráð að kaupa sér minnisblokk og bara nótera þetta hjá sér og taka með í klifurferðir svo viðkomandi muni örugglega hvað hann er að fara út í. Svo er bara að MUNA að beygja til hægri af Vesturlandsvegi til að fara austur, annars bara beint áfram.
    Kv, Andri

    #48079
    2003793739
    Meðlimur

    Ég er sammála Rafni. Byrjandinn á full í fangi með að ná núverandi gráðukerfum í boulderklifri, sportklifri þar sem þar eru mörg kerfi í gangi og íslenskakerfið einnig sérstakt.

    Frá sögulegum sjónarhóli ætti að skrá allarleiðir og þá þarf að notast við ákveðnar reglur og kerfi.

    Fyrir mína parta þá finnst mér menn vera velta sér of mikið upp úr gráðunum og gráðukerfum. Klifursamfélagið er það lítið að menn sækja sér bara upplýsingar um leiðina sem á að fara í gegnum síma eða spjalla saman í Klifurhúsinu.
    Ævintýramennskan er orðin mun minni í klifursamfélaginu í dag en það var hérna í denn, þar sem menn klifra orðið ekkert nema að það hafi gráðu.
    Mér finnst gaman að klifra og ná erfiðum leiðum en það er líka gaman að klifra bara til að klifra án þess að missa sig í gráðunum.

    Halli

    #48080
    0311783479
    Meðlimur

    Ég held að menn séu sammála um að ameríska, Yosemite-kerfið (5.1,…,5.15a) sé ráðandi hér á landi til að lýsa tæknilegum erfiðleikum sem búast má við í tiltekinni leið, enda er það kerfið sem flestir leiðarvísar ísalp nota. En megin rökin fyrir því að nota alpagráðurnar til að lýsa leiðum á borð við Kerlingareldinn er þau að þær taka inn alvarleika leiðanna, t.a.m. líkur á grjóthruni eins og þeir félagar lentu í núna. Ef leið hlýtur tiltölulega háa alpagráðu en lága tæknilegagráðu, þá má ganga út frá því vísu að þetta sé alvarleg leið. En ég held að menn átti sig nú á því að þetta ætti nú bara við þessar fáu löngu klettaleiðir sem við eigum.
    Þeir sem eru að stíga sín fyrstu spor í sportklifrinu standa nú aðeins frammi fyrir því að átta sig á að 5.8 er erfiðari en 5.6 og að Páskaliljur er auðveldari leið en Brostnar vonir. Því held ég að byrjendur lendi nú varla í miklu basli með að átta sig á alpagráðum ef þær innihalda tæknilega lýsingu á Yosemite-formi og svo stuðuli sem lýsir alvarleika og hættum sem búast má við. Hafa grjótglímugráðurnar nokkurn tímann verið brúkaðar af nokkru viti hér? Og hvort eru menn þá að gráða eftir ameríska- eða franska kerfinu?
    En auðvitað er mergur málsins sá að menn klifra klifursins vegna og þar erum við Halli sammála. En auðvitað eiga menn bara að mæta niður í Klifurhús og vera óhræddir við að bauna spurningum um hinar og þessar leiðir á sér reyndari menn.

    -á alvarleikanótum ;o)
    Halli

    #48081
    2005774349
    Meðlimur

    Það er eitt sem er ögn að angra mig.
    Hverja af hægri beygjunum tekur maður á hringtorginu við Rauðavatn til þess að komast eitthvert annað en uppí Breiðholt?
    Annað var það nú ekki að sinni.

    -Alpakveðjur
    Hjalti R.G.

    #48082
    AB
    Participant

    Gott að sjá að menn hafa skoðanir á hlutunum.
    Ég er ekki sammála því að lífið verði eitthvað óviðráðanlega flókið og erfitt þótt við notum líka alpagráðukerfið á leiðir í fjalllendi. Munum að við erum ekki að tala um einhverjar 500 klassískar gæðaleiðir sem þannig ætti að gráða. Alpagráðukerfið hefur verið notað hérlendis, t.d. talsvert í Öræfasveitinni og gott ef Ívar og co. settu ekki alpagráðu á sína stórglæsilegu Postulínsleið fyrir þremur árum. Það er því enginn að tala um að finna upp hjólið á ný.
    Þau rök að menn nenni ekki eða finnist of flókið að nota alpagráður finnast mér heldur vesældarleg og halda varla gegn þeim rökum að það geti verið hættulegt að hafa einungis tæknilegar gráður á lengri leiðum í fjalllendi. Það er rökrétt að taka með í reikninginn alvarleika leiða. Alpakerfið er vel til þess fallið að gera það.
    Sá sem er byrjandi í klettaklifri hérlendis þarf ekki læra mörg kerfi eins og Halli A skrifaði hér að ofan. Yosemite kerfið er allsráðandi í klettaklifri hér, búldergráður eru varla notaðar hérlendis svo þetta er í raun eitt skitið kerfi sem byrjandinn þarf að læra. Það er nákvæmlega ekkert erfitt við að setja sig inn í þetta.

    Ég get ekki séð hvernig hægt er að vera á móti því að heildarerfiðleiki og alvarleiki alpaleiða komi fram með einum eða tveimur bókstöfum. Auðvitað skiptir þetta litlu máli fyrir þá sem eru eingöngu sportklifrarar, þeir geta bara sleppt því að læra inn á þetta. Þótt ævintýramennskan hafi eitthvað dvínað í klifrinu hérlendis, er og verður vonandi alltaf til fólk sem vill líka gera eitthvað annað en að fara á vellina ( þótt það sé náttúrulega frábært að klifra þar líka ).

    Mergur málsins er einfaldur. Heildarerfiðleiki og alvarleiki alpaleiða á að koma fram auk tæknilegrar gráðu. Er hægt að mótmæla því?

    Og Hjalti, það er best að nota kort til að finna bestu leiðina út úr bænum, leiðirnar eru gráðaðar eftir dæmigerðum umferðarþunga á föstudagseftirmiðdegi. Ekki ætla þér um of í leiðarvali:)

    Kv, Andri gráðukall

    #48083
    2003793739
    Meðlimur

    Ef leiðin er hættuleg eins og þú segir Andri um Kerlingareldinn þá fer maður varlega en þarf maður fara extra varlega ef leiðin er hættulegri en hættuleg leið?
    Hvað gerir maður þá?
    Tekur maður þá með sér auka hjálm og hálskraga?

    Sá sem stundar ferðamennsku og klifur fer alltaf varlega og leitar sér upplýsinga um göngu- og klifurleiðir sem hann er að fara út í. Þetta eiga allir að vita, líka byrjendur í ferðmennsku og klifri. Síðan vita það flest allir sem gengið hafa um landið og tekið í nokkra steina að þetta er allt mjög laust vegna frostveðrunar. Þetta á sérstaklega við um lítið klifruð svæði. Svæðin geta líka breyst á einum vetri og verða þá hættulegri fyrir vikið.
    Svo eru þetta ekki það margar leiðir sem eru svona langar að það þurfi að taka upp sérstak gráðukerfi fyrir þær. Hver spönn er gráðuð í leiðinniog heildargráðan miðast við erfiðustu spönn, minnir mig. Einfalt og þægilegt.

    En umræðan er skemmtileg og gaman að spjalla um þetta mál.

    Halli

    #48084
    AB
    Participant

    Ég held að þú sért ekki alveg að ná þessu Halli. Málið snýst um það að þú veist ekki alltaf fyrirfram hvað leiðin er hættuleg. Það sést ekki á tölunni 5.8 . Af hverju heldur þú að þetta alpagráðukerfi sé notað í Ölpunum, vöggu klifursins? Það er til þess að fólk geti séð það fyrirfram hvað leiðin geti hugsanlega verið alvarleg. Samt er bergið þar mun traustara en hérlendis.
    Hefðum við félagarnir komist í Kerlingareldinn fyrir tveimur árum hefði það líklega endað með slysi. Leiðin er gráðuð 5.8 og við sem lítt reyndir klifrarar einblíndum um of á það. Alpagráða hefði sagt okkur ýmislegt.

    Þessi ,,varlega“ röksemdafærsla hjá Halla er nú bara hlægileg. Öll gráðun hlýtur að miðast við að fólk fari varlega eða hefur einhver séð leið gráðaða: ,,5.6 ef þú ert varkár, annars 5.7 .“ Alvarleiki leiða breytist því ekki þótt maður passi sig voða voða vel.

    Það er alveg rétt að maður á að fara varlega og „leita sér upplýsinga um göngu- og klifurleiðir sem maður ætlar útí.“
    Til að þessar upplýsingar veiti sem besta innsýn í fyrirætlaða leið þurfa hlutir eins og hugsanlegur alvarleiki að koma fram. Heilbrigð skynsemi mun auðvitað alltaf vera mikilvægust en upplýsingar eru líka mikilvægar og þær þurfa að taka til sem flestra þátta í klifri. Það gera alpagráður. Og ég spyr aftur : Hvernig er hægt að vera á móti þessu? ( Ekki allavega með ,,flóknu“, ,,nenni ekki“ , eða ,,lítið klifursamfélag“ -rökunum aftur).

    Það er rétt að taka það fram að ekki má misskilja þessa umræðu svo að Kerlingareldurinn sé stórhættuleg leið þótt hún sé að vissu leyti dálítið alvarleg. Leiðin er frábær og ég mæli með henni.

    Ef einhver vill spjalla um þetta meira þá er síminn :694-7083. Ef maður skrifar áfram svona langlokur verður enginn tími afgangs fyrir klifur. Hafið endilega samband.

    Kveðja,
    Andri gráðukall og alpawannabe

    #48085
    2510815149
    Meðlimur

    Jah.. jú jú. Hárrétt. Það líka bara rugl að nota yosemite kerfið fyrir dótaleiðir. Innleiðum breska kerfið sem segir til um alvarleika leiðanna. Það er ekki hægt að vera á móti því. Af hverju haldið þið að það sé notað í bretlandi, landinu sem fann upp vininn?
    Höldum fund og gráðum stardal og allt draslið upp á nýtt. Það er heilbrigð skynsemi og mun fækka slysum.

    #48086
    2003793739
    Meðlimur

    Ég hef ekkert á móti alpagráðum og það væri gaman að kynna sér þær einhvern tíma, allavega myndi ég mæta á fjöldsamkomur um alpagráður hjá Ísalp.

    Nú erum við að fara að gráða boulderleiðir í Klifurhúsinu. Andri viltu hafa eitthvað um það að segja. Hvort eigum við að nota Bandaríska kerfið eða Evrópska?

    Sjáumst í Klifurhúsinu.

    #48087
    2003793739
    Meðlimur

    Ég hef ekkert á móti alpagráðum og það væri gaman að kynna sér þær einhvern tíma, allavega myndi ég mæta á fjöldasamkomur um alpagráður hjá Ísalp.

    Nú erum við að fara að gráða boulderleiðir í Klifurhúsinu. Andri viltu hafa eitthvað um það að segja. Hvort eigum við að nota Bandaríska kerfið eða Evrópska?

    Sjáumst í Klifurhúsinu.

    #48088
    AB
    Participant

    Ja, ég er nú eiginlega að búa til mitt eigið búlderprobbakerfi, svokallaðar AB gráður. Þær myndu henta leiðunum í Klifurhúsinu vel því kerfið tekur mið af alvarleika leiðanna en eins og flestir vita eru margar leiðanna í KH alveg stórhættulegar og ekki á færi nema huguðustu klifrara.

    Kv, AB

17 umræða - 1 til 17 (af 17)
  • You must be logged in to reply to this topic.