Re: Re: Þríhnúkar

Home Umræður Umræður Almennt Þríhnúkar / Þríhnúkar ehf Re: Re: Þríhnúkar

#57881
Karl
Participant

Þetta höfðu Samtök Útivistarfélaga að segja um sama mál.

„Á fundi Samút þann 19. september 2012 var samþykt að gera athugasemdir við umhverfismatsskýrslu Þríhnúka ehf vegna framkvæmda við Þríhnúka.
Umhverfismatsskýrsluma má sjá hér http://vso.is/frettir/Frettir-2012/2012-08-07-Trihnukar.html

Þessa athugasemd okkar verður að skoðaí ljósi þess að almannaréttur er og hefur alltaf verið okkar stærsta hagsmunamál.
Samtök Útivistarfélaga taka ekki afstöðu til þeirra verklegu framkvæmda sem lýst er í skýrslunni en telja einkavæðingu af þessu tagi ganga gegn almannrétti og orka tvímælis um ráðstöfun lands í almannaeigu.
Vert er að minna á að Samút lagðist á sínum tíma gegn áformum um einkaveg og einkarétt á akstri upp á Heklu og einnig lagðist Samút gegn einkaframkvæmd á nýjum Kjalvegi sem falið hefði í sér akstursbann/takmarkanir á eldri leiðum. Þessar tvær hugmyndir heftu ferðafrelsi þeirra sem ferðast á eigin bílum en höfðu ekki áhrif á þá sem ferðast á eigin vélarafli eða á vélsleðum.
Áform Þríhnúka ehf. ganga lengra en fyrrnefndar hugmyndir um einkavæðingu aðgengis að Þjóðlendum og koma alfarið í veg fyrir ferðir allra annara en þeirra sem kaupa aðgöngumiða að hellinum af þessu einkafyrirtæki. Slíkar hömlur á ferðafrelsi eru sérstaklega alvarlega þegar um er að ræða eina helli landsins af þessari gerð.
SAMÚT leggjast því gegn fyrirhuguðum framkvæmdum Þríhnúka ehf og beina því til Forsætisráðuneytis að setja almennar reglur um atvinnustarfsemi innan þjóðlendna og tryggja þar almannarétt.
Þjóðlendur heyra undir Forsætisráðuneytið en í raun vantar í stjórnkerfið aðila sem kemur fram sem virkur fulltrúi þjóðarinnar (eigenda) -Þar þyrfti Samút að eiga fulltrúa!

Erindi til Skipulagsstofnunar

Samtök Útivistarfélaga, SAMÚT, gera athugasemd við áform Þríhnúka ehf um framkvæmdir fyrirtækisins við Þríhnúka.

Samrit er sent Forsætisráðuneyti og Þjóðlendunefnd.

Um verkefnið:
Einkafyrirtækið Þríhnúkar ehf. hefur lag fram skýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra aðkomuleiða, skoðunarsvæða og þjónustusvæða við Þríhnúkagíg í Bláfjallafólkvangi.
Fyrirhugaðar framkvæmdir miða að því að auðvelda aðkomu ferðamanna og selja ferðir í hellinn. Áform fyrirtækisins auðvelda aðkomu að svæðinu en loka fyrir frjálsa för í hellinn og um gígbarminn fyrir aðra en þá sem greiða einkafyrirtækinu Þríhnúkum ehf. gjald fyrir skoðunarferðir.
Þríhnúkagígur og Þríhnúkahellir eru innan þjóðlendu og því eign þjóðarinnar allrar.

Athugasemdir Samút eru eftirfarandi:

1. Ráðstöfun á þjóðlendu til einkaaðila.
Samút telja að ekki eigi að ráðstafa svæðum innan Þjóðlendna til einkafyrirtækis sem fái við það einokunaraðstöðu til að selja aðgang að viðkomandi svæði. Marka þarf skýrar almennar reglur um þjóðlendur sem hafi það að markmiði að einstakir fossar, fjallstindar, hellar og aðrir eftirsóttir staðir á þjóðlendum séu opnir almenningi og umferð og aðgengi sé ekki bundin við einstakt fyrirtæki þar sem slíkt geti falið í sér n.k. einkavæðingu viðkomandi landsvæðis og það lokist öðrum en þeim sem greiði viðkomandi fyrirtæki uppsett verð fyrir aðgengi.
2 Takmörkun á almannarétti:
Þær framkvæmdir og sá rekstur sem fyrirhugaður er á vegum Þríhnúka ehf. takmarkar frjálsa för almennings þar sem aðgengi er bundið því að kaupa ferð hjá aðila í einokunaraðstöðu.
Slíkar takmarkanir eru ekki réttlætanlegar á landi í þjóðareign og brýnt að almannaréttur sé án undantekninga á Þjóðlendum.

Niðurstaða:
Samtök Útivistarfélaga telja brýnt að settar verði skýrar reglur um ráðstöfun landsvæða á þjóðlendum og þar verði almannaréttur í heiðri hafður.
Samtök Útivistarfélaga leggjast því gegn þessum framkvæmdum.