Re: Re: Bláfjöll

Home Umræður Umræður Skíði og bretti Bláfjöll Re: Re: Bláfjöll

#57118
0801667969
Meðlimur

Smá update og fróðleikur úr Bláfjöllum.

Nú er þriðji dagur sem toglyftur eru keyrðar á Suðursvæði fyrir æfingar skíðafélaganna. Þannig vill til að í sumar var klárað að girða Suðursvæðið. Í því felst að girðingar eru samfelldar og ná niður alla brekkuna. Ef ekki væri fyrir þessar breytingar þá væri ekkert opið.

Nýr spiltroðari sem ekki spólar í brekkunum ( rótar ekki upp grjóti) og ýtir jafnmiklum snjó hvort sem farið er upp eða niður er til mikilla bóta.

Ef búið væri að fullgirða Norðurleiðina, lífæð skíðasvæðisins, þá væri svæðið opið almenningi. Á neðri hluta hennar þar sem búið er að girða báðum megin er nægur snjór. Þar ofan við er girðing bara öðru megin sem safnar eingöngu snjó í austlægri átt.

Ef það blæs vel úr þeirri átt ásamt einhverri úrkomu safnar þessi girðingin fáranlega miklu efni á engum tíma og leiðin dettur inn. Verði eingöngu suðvestan átt á næstunni þá verður áfram snjólaust á þessum kafla.

Það vantar því bara nokkur hundruð metra af girðingu og svæðið er opið almenningi. Það er í kortunum að klára þetta næsta sumar. 100 m af snjógirðingu kostar rúma milljón með öllu.

Suðurgil og Kóngsgil sem voru (fyrir tíma snjógirðinga) alltaf fyrstu brekkur til að koma inn eru nánast auðar.

Á höfuðborgarsvæðinu býr 2/3 hluti þjóðarinnar. Akkilesarhæll Bláfjalla er að almenn opnun þýðir þúsundir manna með misgóða kunnáttu. Margir reyndar mjög litla. Aðstæður núna eru einfaldlega of varhugaverðar fyrir slíka opnun auk þess sem of lítið svæði er í boði. Utan troðinna brauta lenda menn strax í grjóti þó allt líti óskaplega vel út. Ekki neinn burður í þessum þurra lítt veðurbarna snjó.

Almennt er kunnátta og geta skíðafólks á skíðasvæðum út á landi miklu meiri en gengur og gerist í Bláfjöllum. Auk þess sem aðsókn er á engan hátt sambærileg. Allt gerir það að verkum að hægt er að opna þessi svæði við mun verri aðstæður en ella.

Sennilega hafa mun fleiri verið á skíðum í brekkum Bláfjalla í dag en á flestum skíðasvæðum landsins. Og það er samt „lokað“. Það er miklu bjartara yfir Bláfjöllum en margur heldur.

Kv. Árni Alf.