Re: Svar:fjallaskíða og telemark græjur til sölu

Home Umræður Umræður Keypt & selt fjallaskíða og telemark græjur til sölu Re: Svar:fjallaskíða og telemark græjur til sölu

#54831
0801667969
Meðlimur

Talandi um telemarkið þá eru alltof margir sem fara á mis við þá mögnuðu tilfinningu sem fylgir því að vera á dúnmjúkum leðurskóm á mjóum skíðum og þurfa að beita tækninni að fullu, setja líkama og sál að fullu í hverja beygju. Það er fátt sem slær það út að sveiflast niður einhverja brekkuna í óbyggðum á gönguskíðum með níðþungan bakpoka eða púlku. Þetta eru eftirminnilegustu og mest gefandi „momentin“ . Telemark á þyngri og öflugri búnaði er einfaldlega annað sport. Fyrstu árin þá voru skórnir sem ég notaði álíka stífir og efnismiklir og innri skórnir í plastskóm. Lítið annað í boði.

Það eru nú ekki nema tuttugu ár síðan að engin vissi hvað telemarkið var. Áður en ég fékk opinberun einn þokudag í Bláfjöllum og fór að predika „orðið“ þá var engin gjaldgengur í björgunarsveit nema að eiga fjallaskíði. Það sem ég skildi aldrei af hverju fjallaskíðin duttu nánast alveg út á engum tíma. Skrýtið að sjá einhver tískufyrirbrigði útrýma góðum gildum hlutum.

Friðun á eldri árgöngum er nauðsynleg svo nýliðun sé næg í sjónum og snjónum. Kannski tímabært að fara að predika „orðið“ aftur með skrifum og námskeiðum til að peppa þetta eitthvað upp. Hef nú samt ekki miklar áhyggjur.

Talandi um trúarbrögð þá var miklu meira ofstæki í þessu hér áður fyrr. Sat löngum í húsnæði ÍSALP inn á Grensásvegi á miðvikudagskvöldum og þrefaði við Helga Ben einn helsta boðbera fjallaskíðanna um ágæti gönguskíða (löngu fyrir tíma telemarksins). Í einhverri leitinni í Botnsúlum þá sá einhver gönguskíðin mín um borð í snjóbílnum okkar. Skipti engum togum að hann þreif annað skíðið og fleygði því bálillur út í myrkrið. Skíðið fannst ekki og ég því skíðalaus þegar til átti að taka. Þarna innanborðs voru að mig minnir Helgi Ben, Ari Trausti, Hreinn Magnússon, fjórir metrar af tvíburum þeir Ævar og Örvar Aðalsteinssynir, Jón Baldurs, Jón Geirsson o.fl. Elíta fjallamanna á þeim tíma.

Kv. Árni Alf.