Re: svar: Tilkynningarskyldan

Home Umræður Umræður Almennt Snjóflóð á Hnjúknum o.fl. Re: svar: Tilkynningarskyldan

#50513
1704704009
Meðlimur

Ef það ætti að setja á tilkynningaskyldu, mætti velta fyrir sér hvort sú skylda væri bundin við fjöll eða fjallaFÓLK hvar sem það væri á statt. Það er skiljanlegt að menn vilji gera eitthvað til að auka öryggi til fjalla, en tilkynningaskylduna yrði þá varla hægt að binda við Hnúkinn einan og sér og afgreiða hann eins og karamellu yfir búðarborð. Það þyrfti þá að samræma þessa skyldu yfir allt landið og/eða allt fjallgöngufólk í stað þess að pikka eitt og eitt fjall út. (Væri þá ekki ástæða til að setja skyldu á Esjuna, fjölfarnasta fjall landsins?)

Og hvernig myndi tilkynningaskyldan virka í raun – Hvernig ætti að fá fólk til að hlýða henni. Með viðurlögum? Og hver yrðu viðurlögin við að brjóta þessa skyldu? Sektir, farbann í tiltekinn tíma eða fangelsi? Væri slíkt í samræmi við náttúrverndarlög þar sem fjallað er um umferðarrétt gangandi manna? Eða brot á stjórnarskránni? Yrðu sett lög eða reglugerðir um tilkynningaskylduna? Yrði til ný stofnun til að halda utan þetta allt saman?

Þyrfti e.t.v. að setja öll fjöll ofar en 650 m undir tilkynningaskylduna, hvar ætti að draga mörkin? Ættu fjallgöngumenn að vera dregnir sérstaklega út í þessu samhengi? (það eru fleiri sem stunda fjallaferðir, vélsleðafólk, jeppadótið og sfvr.)

Ættu þjóðgarðsverðir að halda utan um tilkynningaskylduna og fá með lögum auknar fjárveitingar til starfans?

Hvernig ætti að framkvæma tilkynningaskylduna? Láta alla fjallamenn bera VHF talstöðvar sem þeir fá úthlutað við upphaf ferðar? Skylda þá til að kaupa talstöðvar? Eða láta þá skrá sig inn og út af svæðinu? Hver á að vera í hliðinu?

Mér finnst öryggi í því að tilkynna ferðir mínar í héraði þótt ég hafi ekki gert það í öll skiptin. Auðvitað gegnir maður alltaf ákveðnum skyldum sem fjallamaður, bæði gagnvart samferðafólki sínu og þeim sem gætu þurft að eyða tíma og fyrirhöfn í að ná í mann ef illa fer. Og það hefur gerst, takk fyrir það Kári í Öræfum. Velti því samt fyrir mér hvort raunhæft sé að tala um tilkynningaskyldu fjallgöngufólks frekar er siðferðisskyldu fjallgöngufólks og vonandi var þetta nú svolítið málefnalegt fjandinn hafi það.