Re: svar: Þríhnjúkahellir

Home Umræður Umræður Almennt Þríhnjúkahellir Re: svar: Þríhnjúkahellir

#51679
0801667969
Meðlimur

Ja ég held bara að þetta sé nokkuð rétt lýsing hjá Kalla, nema hvað handarbrotið var í ferð nokkru síðar. Hér kemur þó önnur.

Einhvern tíma fyrir 20 árum var ég vakin snemma á sunnudagsmorgni. Ástæðan var sú að ég átti fortláta neongrænan ´47 model af Willys á 40” dekkjum sem gat nýst til þungaflutninga þennan morgun. Eitt verkefna á samæfingu björgunarsveitanna var nefnilega að ná í mann af botni Þríhnjúkagígsins. Frá Bláfjallabílastæðinu var ekið að gígnum með bílinn fullhlaðinn af björgunardóti og 9 manns úr HSSR, flestir hangandi utan á. Þar af voru fjórir metrar af tvíburum á húddinu (Ævar og Örvar Aðalsteinssynir).

Þegar komið var að gígopinu var tekið fram forláta handknúið spil sem sveitin átti. Spilinu fylgdu tvær 100m vírhankir sem tengja mátti saman. Úr bænum hafði komið með mér Jóhann “Kælir” Viggó Jónsson. Báðir vorum við hæfilega ryðgaðir eins og vera bar á sunnudagsmorgni. Úr varð að Jói, útbúinn hausljósi og talstöð, var settur á vírendann og byrjað að slaka niður. Fljótlega fór vírinn að snúast sitt á hvað. Jókst snúningurinn stöðugt og Jói orðin eins og “diskó ljós” þarna í lausa loftinu. Diskó ljósin voru enn allsráðandi á skemmtistöðum borgarinnar á þeim tíma og því kannski lítil breyting frá kvöldinu áður fyrir Jóa.

Á þessum árum var snúran í mikrafónn talstöðvanna mjög þykk með mjög stífum gormi. Þrátt fyrir þetta varð snúran þráðbein vegna miðflóttaaflsins. Þurfti “Kælirinn” að hafa mjög mikið fyrir því að draga mikrafóninn að sér. Fárveikur af snúningi gat hann “ælt” upp úr sér : “slakið hraðar niður”. Þegar niður kom þurfti hann að leggjast flatur fyrir í langan tíma til að jafna sig. Jafnvægisskynið var horfið og ógleði mikil.

Uppferðin var enn verri. “Sjúklingurinn” hékk niður úr sjúklingnum Jóa og snúningurinn ekki minni. Statik lína hafði verið sett með til öryggis því menn vissu ekki hvað vírarnir þoldu mikinn þunga og snúning. Allt lenti þetta allt í tómri flækju. Heppni að engin hengdist í þessu ævintýri. Gríðarlegt puð var að snúa spilinu. Það lá skorðað milli steina sem gerði erfitt fyrir menn að leggjast almennilega á sveifarnar. Upp komu mennirnir slappir, óglaðir og ringlaðir eftir tveggja tíma uppferð á “fullum snúningi”. Já þetta voru miklir snúningar fyrir alla.

Kv. Árni Alf.

P.S. Spil þetta sást í notkun fyrir nokkrum dögum við stóra svelginn í Sólheimjökli. Kalli og Palli kunna því kannski betri skil.