Re: svar: Heft aðgengi að Valshamri

Home Umræður Umræður Almennt Heft aðgengi að Valshamri Re: svar: Heft aðgengi að Valshamri

#51609

Kíkti í Valshamar í morgun. Þegar ég kom sá ég einn sitja inní bíl en hann hreyfði sig ekki meðan við fikruðum okkur ofan við grunninn og svo niður með girðingunni og yfir gamla stigann. En þegar við komum til baka, þá var hann að vinna við bústaðinn. Sá strax á honum þegar við nálguðumst að hann var ekkert megasáttur en þó ekkert æstur. Við áttum ágætis spjall saman.

Beisikklí, eins og fram hefur komið, þá eru þau ekki sátt við og munu ekki líða umgang um lóðina þeirra. Ég get skilið það að þau vilja ekki að klifrarar labbi yfir garðinn sinn, sem á örugglega eftir að vera afgirtur, með trjám og öllu tilheyrandi.

Ég sagði honum sem er, að við klifrarar værum hið ágætasta fólk og kæmum fram af virðingu við bæði náttúru og menn. Hann hvað mjög mikla umferð hafa verið í sumar (ekki skrítið í blíðunni) og að konan sín væri að verða vitlaus á þessu. Ég benti einnig á að það væri eðlilegt að þar sem fólk hafi lengi farið þessa leið, þá tæki það eflaust smá tíma að venja það af því.

Hann talaði einnig um þennan umrædda vegaslóða „sem er utan girðingar“ eins og hann sagði og því ættu sumarbústaðaeigendur ekki að geta verið ósáttir við að við færum hann. Að gamni mínu prófaði ég stíginn. Er á jeppa og komst hann því, en á fólksbíl, no way. Svo til að komast gangandi frá slóðanum og upp í klett, þá get ég ekki betur séð en að það þurfi að fara í gegnum sumarbústaðalóðir eftir sem áður.

Kappinn á líka, eða leigir (?), lóðina fyrir ofan og vonast til að krakkarnir sínir muni byggja þar. Mér datt nefnilega í hug hvort ekki væri hægt að koma með þá hugmynd að gerður væri annar stígur og stigi, töluvert ofar og þannig væri farið fjarri hans lóð. Ef krakkarnir hans verða þar, þá gengur það líklega ekki.

Svo var hann eitthvað að minnast á að fólk í nágrenninu heyrði í okkur og væri ekki að fíla það. Verð að segja að ef fólk er að setja fyrir sig óm af mannamáli í tuga metra fjarlægð frá bústað sínum (í þau fáu skipti sem mjög hljóðbært er úti) þá er er eitthvað mikið að og bara verið að grípa til hvaða ástæðna sem er til að amast út í klifrara.

Bottom line. Réttast væri að skipa lítinn hóp nokkurra sem við treystum vel til verksins, til að ræða þetta formlega við landeiganda og sumarbústaðafólk og athuga hvort ekki sé hægt að komast að niðurstöðu sem allir eru sáttir við. Það er ljóst að ef verður á endanum reynt að koma í veg fyrir að almennir borgarar geti notið heilbrigðrar útiveru og stundað sport eins og klifur á þessu fína svæði þá er það eitthvað sem þarf að nefna við fólk á æðri stöðum og fá þar liðsinni.

Ekkert fær mig til að trúa því að ekki sé hægt að sætta hér sjónarmið. Annað væri bara fáránlegt og hreint bjánalegt.

En pælið í þessu með að senda okkar fólk í formlegar viðræður, gengur ekki að einhver ólga sé að grassera undir niðri sem svo brýst kannski út á þann hátt að við töpum á því til frambúðar.