Re: Langloka úr sófanum

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Aðstæður? Re: Langloka úr sófanum

#52051
2806763069
Meðlimur

Svona þar sem við gömlu kallarnir getum ekki hamið okkur í sögunum um Þilið þá kemur hér enn ein langlokan frá mér:

Ég fór þarna inn eftir einu sinni með GHC minnir að þetta hafi einnig verið rétt fyrir jól.
Kallinn átti nóg af fínu glingri og því var mitt skilið eftir heima. Þegar ég kom út úr bílnum hófst þessi venjulega reikistefna um hver skildi bera hvað. Ég var taldi mig helvíti heppinn þegar kallinn bauðst til að taka línurnar og tvistana og rétti í átt að mér poka með járnaglingri. ,,Ha, ha, nokkrar ísskrúfur á móti tveimur línum! Þetta verður óvenju þægileg uppganga!” hugsaði ég. Þegar ég fékk svo pokann var hann örlítið þyngri en ég gerði ráð fyrir. Henti honum bara ofan í bakpokann og rölti af stað.

Ferðin uppeftir var tíðindalaus, alveg þangað til að kom að því að taka til járnadótið. Þá komst ég að því að ég gat valið úr ríflega 20 skrúfum af öllum stærðum og gerðum. Eftir smá reikistefnu sættist ég á að hlaða á mig um 15 skrúfum og minnir að Helgi hafi tekið 2 – 3 sjálfur (á þeim tíma þótti mér nóg að vera með 10 skrúfur, þá sjaldan ég fer út núna er ég með 14 og finnst það oft ekki nóg). Restin af skrúfunum og annar óþarfa búnaður var svo skilinn eftir.

Fyrsta spönnin var tíðindalaus og ég létt það sko ekki koma fyrir mig að nota nema um helminginn af öllum þessum skrúfum.
Helgi tók svo aðra spönn. Sem eins og venjulega leit ekki út fyrir að vera neitt sérstakt. Ég var því nett pirraður þegar kalinn byrjar að hlaða inn skrúfum á meðan ég stend skjálfandi í týpískum Eylífsdal kulda.
Loksins kom að mér að klifra, og ég fékk að éta ofan í mig allan pirringinn. Spönnin var verulega erfið, allt í fangið og mikið um morkinn ís.

Ég var því langt frá því að vera úthvíldur þegar ég kom upp í megintrygginguna. Það voru því engin sérstök vonbrigði að sjá að Helgi sat inni í miðjum fossi (rennandi, ekki frosið, vatn) og var orðin hold blautur. Ég gerði því augljóslega ráð fyrir að geta komið snemma heim og byrjaði að skima eftir góðum ís í v-þræðingu. En sælan var skammvinn. Um leið og ég hafði náð að hugsa þetta byrjaði Helgi að leggja mér línurnar um hvernig best væri að komast framhjá regnhlýfunum sem gnæfðu yfir okkur (ekki ósvipað og aðstæðurnar vorum um helgina).
Líklega hef ég séð að það væri einfaldlega betra að bíta á jaxlinn og drullast upp þessa spönn en að veigra sér og eiga á hættu að takka sæti Helga á neðri enda línunnar, inni í fossinum.

Ég létt mig því hafa það og læddist upp. Nokkrum sinnum stóð ég mig að því að standa ofan á þessum risa regnhlýfum vitandi að Helgi var undir þeim. Það er frekar skrýtin tilfinning að tipla á þessum “kristals”ísmyndunum og þurfa bara að vona að þær haldi.

Það var komið myrkur þegar við vorum loks báðir komnir upp á topp. Línurnar okkar voru gersamlega frosnar og við þorðum ekki fyrir okkar litla líf að síga niður á þeim. Við urðum því að labba niður og klifra svo aftur upp gilið fyrir neðan leiðina til að ná í það sem skilið hafði verið eftir um morguninn.

Man ekki hvað klukkan var þegar við komum í bæinn, en það var farið að rigna og ég held að þetta hafi verið síðasta ísleiðin sem var klifruð á fróni það árið.

Annars gæti ég einnig trúað að Palli ætti eina eða tvær sögur úr Þilinu. Hann og GHC eiga jú FF af þessari flottustu ísleið landsins og ef ég man rétt var það ekki alveg gefið!

Svo ein stutt að lokum:
Ég og Árni nokkur Eðvalds vöknuðum snemma einn morguninn og stefndum á Þilið. Hvorugur hafði þá náð að krossa við þessa leið sem var (og er) eitt helsta test-pies-ið í íslensku ísklifri.
Þegar við vorum alveg að komast inn dalinn kom Kalli Ingólfs blaðskellandi á súkkunni sinni. Út úr bílnum ultu auk hans Palli Sveins og Tómas Grönvald.

Það upphófst náttúrulega þetta venjulega diss. Við Árni kölluðum þá væskla fyrir að nenna ekki að labba inn eftir og Kalli gerði stólpa grín af þessum græningjum sem léttu sig hafa það að labba í hátt í tvo tíma þegar maður gat keyrt non-stopp úr bænum á gersamlega óbreyttum bíl.
Þegar ég var orðinn þreyttur á þessu rölti ég af stað með þeim orðum að ég skildi henda til þeirra línu þegar þeir, gamlingjarnir, væru búnir að fá nóg. Tvö skref í myrkrinu leiddu mig á rafmagnsgirðingu sem eftir tvö skref í viðbót breyttist í teygjubyssu og skaut mér til baka þannig að ég rúllaði á bakið fyrir fótunum á Kalla. Skiljanlega þótti þetta ekki leiðinlegt meðal þeirra sem fylgdust með!

Dagurinn endaði svo á því að ég við gersamlega kláruðum okkur á 2. spönninni og þáðum línuna sem Kalli sendi niður handa okkur fyrir 3. spönnina. Til að toppa allt tókst mér svo að detta svo að ég húrraði niður um 10m meðan teygjan var að fara úr 8mm línunni. Ekki í síðasta skipti á þessum stað.

Reyndar hissa á að Kalla minni mig ekki oftar á þetta. Kannski hefur kúmen-landa-teið í hitabrúsanum hans eitthvað orðið til þess að þessi dagur hefur eitthvað rykfallið hjá honum.

Jæja 5 mínúturnar ykkar eru liðnar og tími til að hætta að skoða netið og fara aftur að vinna!

Kv. úr sófanum!