Reply To: Ísklifuraðstæður 2017-18

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Ísklifuraðstæður 2017-18 Reply To: Ísklifuraðstæður 2017-18

#64808
Siggi Richter
Participant

Við Maggi Óli og Bergur Einars heilsuðum upp á landsbyggðina í dag og rúlluðum vestur á Grundarfjörð, í Mýrarhyrnu. Hugmyndin var að klifra Abdominal, og þegar við komum undir gilið og sáum að kertið leit út eins og mynd á póstkorti, létum við reyna á það. Við gerðum okkur greinilega ekki grein fyrir hvað bleyta er illgreinileg úr fjarlægð…
Bergur leiddi upp í helli, sem var fínasta klifur. Undirritaður tók næstu spönn, og strax og hliðrað var út á kertið hófst trommusláttur lækjarniðarins á hjálminum, og þessum trommuslætti linnti ekki fyrr en í stans, 30 metrum ofar. Sjaldan hefur mér tekist að blotna jafn mikið í umhverfi sem ekki var ætlað til böðunar, en ætli ég geti þó ekki þakkað bleytunni fyrir að halda athyglinni að einhverju leiti frá því að það var fyrst fjórða skrúfa sem gubbaði út tiltölulega heildstæðum ísmassa við ísetningu, enda var fyrri hluti spannarinnar sundurkertaður.
Að þessu undanskildu var klifrið stórskemmtilegt, frábær leið, og Maggi og Bergur komu hinir kátustu upp úr læknum á eftir mér. Þegar í stansinn var komið virtum við fyrir okkur seinustu spönnina, sem í þessum aðstæðum gaf fyrri spönninni lítið eftir. Spönnin virtist bjóða upp á sömu tjölduðu kertasúpuna, þó með eitthvað fleiri hvíldarmöguleika á leiðinni, en þarna var ekki hjá því komist að klifra upp sama vatnsflaum og við höfðum synt upp í fyrri spönn. Í frostinu voru línurnar núna farnar að hegða sér meir eins og lyftuvírar frekar en klifurlínur, og var lítið af búnaði sem ekki var myndarlega kápuklæddur. Að vel ígrunduðu máli létum við bara gott heita og sigum niður í kaffi.

Við litum eitthvað yfir svæðið í kring, það er nóg af ís að hafa í Mýrarhyrnunni, en flest virðist úr fjarlægð hafa svipaða áferð og Abdominal, blautt og kertað.

Nú langar mig reyndar að beina spurningu að reynsluhoknu aldursmeisturunum hérna, er einhver árstími sem er betri fyrir Mýrarhyrnu en annar?