Reply To: ÍSALP og FÍ munu eiga Bratta saman

Home Umræður Umræður Almennt ÍSALP og FÍ munu eiga Bratta saman Reply To: ÍSALP og FÍ munu eiga Bratta saman

#61861
Sissi
Moderator

Sælir félagar,
til að byrja með langar mig að þakka stjórn og þeim sem hafa verið að vesenast í Brattamálum og öðru fyrir þeirra framlag. Þetta er óeigingjarnt starf og við mættum öll klappa ykkur oftar á bakið.

Hafandi sagt það þá þykir mér þessi lending miður.

Byrjum á smá sagnfræði. Fyrir 8 árum vorum við í svipaðri stöðu með Tindfjallaskála. Skálinn var að grotna niður og klúbburinn hafði ekki burði til að gera neitt í málunum. Fregnir bárust til Kyrgizstan þar sem við sátum nokkrir ÍSALParar að sumbli um að klúbburinn hygðist láta FÍ hafa skálann á 500 þúsund krónur ef ég man rétt. Það hefði náttúrulega verið einföld lausn á vandamálinu en menn ákváðu að reyna að gera eitthvað í málunum.

Klúbburinn hefði gefið eftir mikilvægan hlut af sinni sögu, auk þess sem gríðarleg verðmæti eru í að eiga staðsetningu á borð við Tindfjöll. Ég er efins um að fleiri skálabyggingar verði leyfðar á svæðinu.

Að mínu mati voru allar aðstæður mun erfiðari. Skálinn þurfti á algjörri endurbyggingu að halda, afar vinnufrekri sem krafðist þekkingar, og kreppa var skollin á. Fjáröflun var gríðarlega erfið, húsfriðunarnefnd tók af okkur viðhaldsstyrk og hafnaði umsókn um styrk til endurbyggingar. En fjármagn fannst, meðal annars gáfu sumir í skálanefndinni fé í verkefnið og ómælda vinnu. Mig minnir að afar lítill kostnaður hafi lent á ÍSALP. Verkefnið var leyst með sóma og skálinn var kominn á sinn gamla stað eftir ár og viku.

Bratti er að sumu leyti sambærilegur. Ég sé ekki fyrir mér að fleiri skálar verði reistir á svæðinu og virði staðsetningar til lengri tíma því gríðarlega mikið fyrir klúbbinn. Að selja 50% fyrir kojur, spýtur og nagla gæti verið ákveðin skammsýni. Skálinn stendur á lóð, greidd eru fasteignagjöld og annað, svo réttur klúbbsins til áframhaldandi veru er sterkur.

Þá skilst mér að öflugur hópur manna, m.a. að hluta til þeirra sem gerðu upp Tindfjallaskála, hafi staðið að baki þessu verkefni. Mér leikur forvitni á að vita hvort þeir hafi verið með í ráðum og lagt blessun sína yfir þennan ráðahag.

Ég vona að minnsta kosti að sambærileg stemning skapist um að klára Bratta eins og skapaðist um Tindfjallaskála. Og ég er viss um að Góli, Gísli Sím og fleiri bjóða sig fram með mér til að byggja kamarinn. Gísli verður samt vonandi með hjálm.

Sissi

Tindfjallaskáli