Gestabók Hraundrangans komin til byggða

 

Bókasafni ÍSALP var nýverið afhent gestabók af tindi Hraundrangans í Öxnadal. Í bókina eru skráð nöfn þeirra sem komu við á tindinum frá jóladegi 1993 og til 24.júní 2001, en þá var blautri bókinni bjargað úr gestabókarkassanum sem hafði gefið sig. Fremst í bókinni eru upplýsingar um allar uppgöngur fram til þess að bókin var sett upp.
Bókin endaði í góðu yfirlæti hjá bjargvætti sínum, Jökli Bergmanni um árabil þar til það varð til tíðinda að Bjarni E. Guðleifsson líffræðingur, skrifaði kafla um Hraundrangann í bók sína Hraun í Öxnadal og hafði upp á gestabókinni góðu hjá Jökli. Bjarni afhenti stjórn ÍSALP síðan bókina, eftir að hafa nýtt hana sem heimild í skrif sín. Bjarni gaf klúbbnum einnig nýútkomna og glæsilega bók sína og kunnum við honum bestu þakkir fyrir!

Nú þarf að koma nýrri gestabók upp á Drangann. Stjórn óskar eftir sjálfboðaliðum í verkið.

IMG_5343

Bókarhöfundurinn Bjarni E. Guðleifsson og Helgi Egilsson, formaður ÍSALP á góðri stundu