Kosningar um framtíð Bratta

Góður fundur var haldinn seinasta þriðjudag um framtíð Bratta, fjallaskála ÍSALP í Botnssúlum. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá á félagið rétt til að hafa skála í Súlárdal, mitt á milli Syðstusúlu, Miðsúlu og Vestursúlu. Skálasvæðið er í um 750m hæð og býður upp á ótal möguleika fyrir félagsmenn til skíðunnar, klifurs og almennrar fjallamennsku. Skálinn stendur á lóð Þingvallarþjóðgarðs sem er einnig gífurlegt gildi fyrir eignina.

Bratti hefur verið í niðurníðslu árum saman og loks var hann tekinn til Reykjavíkur til lagfæringa árið 2011. Fyrir tveimur árum fékk klúbburinn nýjan og veglegan 60fm skála að gjöf frá bílaframleiðandanum Land Rover og kemur sá skáli til með að leysa Gamla-Bratta af hólmi.

Gamli Bratti, mynd frá Ferðafélagi Árnesinga

Bratta-nefnd var skipuð og hefur hún unnið hörðum höndum að því að koma Nýja-Bratta upp í Botnssúlur. Verkið krefst mikilla fjármuna, enda er dýrt að flytja hús uppá fjall og að auki þarf að innrétta skálann algjörlega frá grunni. Í von um að setja félagið ekki á hausinn þá hafa margar lausnir verið íhugaðar. Lengi vel stóð til að selja eina einungu Nýja-Bratta til að fjármagna flutninginn á restinni. Nýji-Bratti er í 3 einingum, 2 híbýli og 1 forstofa, í heild sirka 60fm. Önnur hugmynd sem naut mikilla vinsælda hjá stjórn og Brattanefnd var að leitast eftir samstarfi við fjársterkan aðila í rekstur og flutningi skálans. Að lokum var leitað til FÍ og tóku þau vel í samstarfið. Til stendur að FÍ sjái um allan flutning skálans upp eftir, innréttingu skálans og viðhaldi en á móti kemur að Bratti verður sameign, FÍ muni eiga rekstur skálans á sumrin og ÍSALP á veturna.

Í ljós hefur komið að félagsmenn vilja kanna betur báða kosti áður en endanleg ákvörðun er tekin, hvernig samningsdrög við Ferðafélag Íslands myndu líta út og hvort möguleiki sé á að bjóða upp á raunhæfan valkost varðandi uppsetningu á 36 fm skála í fullri eigu ÍSALP. Stjórn klúbbsins vill því boða til kosninga um málið á næsta aðalfundi ÍSALP. Aðalfundur ÍSALP er haldinn árlega um miðjan september og verða send út fundarboð fljótlega með dagsetningu.

Á fundinum munu Helgi Egilsson og Gísli Símonarson leggja fram fyrstu drög að sameignarsamningi við FÍ. Sveini Fr. Sveinssyni og Frey Inga Björnssyni hefur verið falið að kanna hvort mögulegt er að setja upp valkost þar sem ÍSALP standi sjálft að standsetningu og flutningi á 36 fm. einingu.

Takið eftir að niðurstaða þessara kosninga verður endanleg niðurstaða málsins og gengið verður strax í aðgerðir. Því er gífurlega mikilvægt að sem flestir mæti á fundinn og kjósi því um er að ræða ákvörðun sem mun hafa varanleg áhrif á framtíð ÍSALP. 

Ef einhver vill koma skoðunum sínum á framfæri við stjórn ÍSALP varðandi málið eða ef þið hafið tillögur varðandi lausnirnar sem kosið verður um þá viljum við endilega heyra frá ykkur! Hægt er að birta skoðun sína opinberlega á spjallvef ÍSALP eða senda póst á stjorn@isalp.is, sissi@askur.org (Sveinn Eydal) eða helgidvergur@gmail.com (Helgi Egilsson).