Aðalfundur Ísalp 2008

Home Umræður Umræður Almennt Aðalfundur Ísalp 2008

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #45402
    0309673729
    Participant

    Aðalfundurinn var haldinn 20.feb síðastliðinn. Ég setti fundargerð aðalfundar, ársreikning og ársskýrslu 2007, inn á vefinn rétt í þessu. Þið finnið þetta undir Nýjar greinar á forsíðu. Félagar í Ísalp hafa aðgang til að skoða skjölin, séu þeir rétt skráðir á vefnum.

    Kíkið á og sjáið hvort FÍ hreppti Tindfjallaskálann eða hvort Ísalp hangir á honum enn. Hvort lögum klúbbsins var skipt út eða hvort þau gömlu gilda enn. Og hvenær Ísalp missir aðstöðuna í Klifurhúsinu…

    með kveðju
    Helgi Borg

    ps.
    Ég gæti sem best trúað því að linkurinn á ársskýrsluna virkaði rétt núna. Og svona til að flýta fyrir þá er hægt að komast héðan beint á greinina

    #52485
    2008633059
    Meðlimur

    Óska nýjum stjórnarmönnum ÍSALP til hamingju með kjörið. Ég veit að þið eigið öll eftir að standa ykkur vel. Það er frábært að sjá hvað mikill metnaður einkennir starf félagsins.

    Gat því miður ekki mætt á aðalfundinn, en bara eitt eftir snöggan lestur á fundargerð. Ég veit að „Extreme Alpinism“ er besta lesningin en það sakar samt ekki að glugga aðeins í lítið kver sem heitir „Fundarsköp. Handbók um fundarstjórn og meðferð tillagna“ sem JCI gaf út í fyrra. Einnig mætti alveg við tækifæri hressa aðeins upp á framsetninguna á ársreikningum félagsins.

    En þetta er bara píp um algjör smáatriði! Mestu skiptir að stjórnin hefur sett sér metnaðarfull markmið og er greinilega að vinna markvisst að þeim. Tilgangurinn er auðvitað að allir hafi gagn og gaman af því sem félagið tekur sér fyrir hendur.

    Góða skemmtun á festivalinu fyrir austan!

    JLB

    PS. Get því miður ekki opnað ársskýrsluna á vefnum.

    #52486
    Karl
    Participant

    Ég geri athugasemd við fundargerðina:

    Aðalfundur ályktaði að ný stjórn Ísalp EIGI að koma með tillögur um framtíð Bratta.

    Í fundargerðinni er sagt að fundarmenn hafi ekki tekið afstöðu til málsins.
    Í mínum huga var enginn vafi um það að fundurinn samþykkti ályktun um að nýkjörinni stjórn væri falið að gera áætlun um framtíð Bratta.

    Fráfarandi stjórn fékk athugasemdir um hvernig skálamálið og lagabreytingarnar voru settar fram.
    Það var auðvitað ekki til bóta að fyrirhugaður fundarstjóri datt úr skaftinu á síðustu metrunum og formaður og gjaldkeri voru forfallaðir. -Maggi Hall kom með allmargar föðurlegar athugasemdir um fundarsköp.

    Það er ekki hefð fyrir smásmugulegri „stjórnsýslu“ hjá klúbbnum og ég er ekki sá ferkanntaðasti í þeim efnum.
    Ég þykist vita að ný stjórn tekur „brattar“ á þessum málum.

    Kalli

    #52487
    2704735479
    Meðlimur

    Ég geri einnig athugasemd við eftirfarandi þrjár setningar:

    1.
    Í fundargerð stendur:
    „Kristín Martha er ekki ánægð með samvinnu Ísalp við Klifurfélag Reykjavíkur (K.R.) um
    klettaklifurfestival.“

    Í raun:
    Samvinna var höfð við Klifurfélag Reykjavíkur um framkvæmd klettaklifurhátíðar á Hnappavöllum. Klifurfélagið stakk upp á að haldin yrði hraðaklifurkeppni og metrakeppni í klifri um helgina og gaf verðlaun í keppnunum.

    2.
    „Hún telur Ísalp eiga sök á slæmri umgengni á klettafestivali á Hnappavöllum.“

    Í raun:
    Það sem undirrituð sagði var að henni fannst að Ísalp ætti að sjá til þess að umgengni um svæðið væri góð þessa helgi og skipuleggjendur færu síðastir af svæðinu til þess að tryggja það. Það var hins vegar ekki raunin þessa helgi. Það þýðir aftur á móti ekki að KM kenni Ísalp um slæma umgengni á svæðinu.

    3.
    „Kristín Martha vill að samstarf við K.R. sé sett inn í stefnumótunarplagg.“

    Í raun:
    KM óskaði eftir að samstarf við KR um klettaklifur yrði sett inn í stefnumótunarplagg.

    Að lokum.
    Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar í starfi. Ég vonast áfram eftir góðu samstarfi milli félaganna og á ekki von á öðru en að ný stjórn Ísalp taki þessum ábendingum vel.

    Kristín Martha

    #52488
    2005774349
    Meðlimur

    Varðandi aðalfund.

    Ég er sammála seinasta ræðumanni að ekki hafi verið rétt haft eftir henni varðandi orð hennar um samvinnu Ísalp og KFR. Einungis var sagt að KFR hafi ekki verið sátt við að umsjónaraðilar Ísalp hefðu farið áður en flestir fóru af hátíðinni (og því ekki staðið sína plikt) og því skilið tjaldsvæðið eftir í tiltektarhöndum Robba. Einnig fannst okkur að ekki hafi verið farið að tillögum okkar um framkvæmd helgarinnar.

    Ég og Rafn mættum á Hnappavelli þessa helgi en kusum að tjalda í Þorgeirsrétt til að fá svefnfrið. Fáir aðrir sem stunda Hnappavelli reglulega mættu. Þó að klifurhátíð sem þessi ætti að vera helgi sem klifrarar, nýir sem gamlir, hittast þá fannst mér svo ekki vera í þetta sinn.

    Einnig átti ég þó nokkurn hlut í umræðunni um klettaklifurhátíðina en mín er ekki getið þar. Ritari hefði mátt skrá skýrar hver mælti hvað.

    Einnig finnst mér óþörf æsifréttastílsleg orðræða HB um hvort Ísalp haldi aðstöðu í húsakynnum Klifurfélags Reykjavíkur. Það er algerlega á hreinu að Klifurfélag Reykjavíkur hefur lýst yfir vilja sínum í þeim efnum að halda aðstöðu fyrir Ísalp í sínum framtíðarheimkynnum.

    Ég skil heldur ekki hví Jóni Viðari fannst boð Kyrgistanfara ábyrgðarlaust. Mér finnst að það hljóti að felast ábyrgð og umhyggja í því að hringja í hina og þessa til þess að koma því til skila að þeir séu til í að aðstoða Ísalp við Tindfjallaskála (jafnvel þó þeir séu ekki á landinu (en það voru líka fleiri að leika sér á skíðum úti en þeir (sem er bara kúl()()()))). Stjórn vissi ekki einu sinni hvernig skálagjöld væru innheimt!

    Að lokum þá vil ég óska nýrri stjórn velfarnaðar og taka það fram að þó að ég komi fram með ýmsar umvandanir og athugasemdir þá er það einungi vegna þess að ég vill veg Ísalp sem mestan eða bestan ( ;

    Hjalti Rafn.

    #52489
    Goli
    Meðlimur

    Að hætti allra góðra spjallþráða ætla ég að drepa umræðunni á dreif, með því að ræða annað mál en samskipti KFR og ÍSALP, sem koma mér lítið við í mínu daglega lífi.

    Tindfjallaskáli er mitt hjartans mál, ef þið hafið áhuga á framtíð fjallamennsku í Tindfjöllum þá getið þið lesið áfram annars ekki. Staðreyndirnar eru eftir því sem best ég veit eru eftirfarandi:

    1. FÍ hefur áhuga á að eignast skálann.
    2. Kyrgistan farar (hverjir eru þeir?) hafa áhuga á að taka að sér skálann, en ekki er vitað hvað það þýðir…..?
    3. Einhverjir hópar hafa haft samband a.m.k. við fráfarandi formann Ísalp (eða heldur hann áfram, get ekki lesið það úr fundargerðinni) og lýst yfir áhuga á að taka að sér skálann, ég veit um tvo hópa en þeir gætu verið fleiri.
    4. Hluti Ísalp manna og kvenna vilja að Ísalp haldi áfram að eiga skálann og komi honum með einum eða öðrum hætti í nothæft form.
    5. Annar hluti Ísalp manna og kvenna vilja að Ísalp losi sig úr þessum skálarekstri.

    Mér kæmi reyndar verulega á óvart ef það væru ekki fleiri ferðafélög en FÍ sem hefðu áhuga á að eignast Tindfjallaskálann.

    Mín tillaga er að Ísalp eigi skálann áfram, jú það þarf að gera skurk í því að gera hann nothæfan, eða jafnvel byggja nýjan. Hefur virkilega verið reynt á það hversu tilbúnir Ísalparar eru að taka þátt í því verkefni? Eða byggist umræðan á því sem menn halda um sjálfboðaliðavinnu í dag? Það hefur lengi verið sagt að það sé erfitt að fá sjálfboðaliða til starfa, en hefur hjálparsveitastarf lagst á hliðina? Mér vitanlega gengur það mjög vel víða….

    Ef við ákveðum að fela öðrum að eiga og reka skálann er rétt að fara í nokkurs konar fegurðarsamkeppni um hvernig uppbyggingu og rekstri hans skuli háttað. Slíku er lítið mál að þinglýsa.

    Nú er ég væntanlega búinn að gera nógu marga fúla og enginn nennir að lesa meira…..en mín skoðun er komin fram.

    #52490
    Goli
    Meðlimur

    P.S. Colorado farar lýsa yfir áhuga á að taka að sér skálann, en óljóst er hverjir þeir eru eða hvað það þýðir.

    Það gæti þó útskýrt tímasetningu skrifa….

    #52491
    0808794749
    Meðlimur

    Varðandi fundarstjórn og fundarritun/gerð.

    Margt var sagt og ritað á aðalfundi.
    Biðst ég velvirðingar hafi ég ekki haft rétt eftir fundarmönnum. Þær athugasemdir eru hér með komnar til greina og verður breytt í fundargerð.

    Ég get viðurkennt það að mér þykir það ekki létt verk að skrifa fundargerð á slíkum fundi, þar sem fundarstjórn er kannski ekki með formlegra móti og framm-í-köll stunduð af miklum móð.

    Karl, ég tók því svo sem þú hefðir komið með tillögu um að fundur ályktaði um efnið, en einhvern vegin fór það framhjá mér að fundurinn hefði tekið afstöðu formlega um þessa ályktun. Það getur vel verið að mér skjátlist þar.

    Kæra KFR (sem ég ranglega skammstafa K.R.). Þegar kom að athugasemdum ykkar Kristínar og Hjalta missti ég nánast þráðinn. Það sem ég setti niður á blað var eins og ég skildi það og ekki bárust mér athugasemdir frá öðrum stjórnarmeðlimum sem plaggið lásu. Hjalti ég harma það að þú hafir ekki fengið þinn sess í fundargerð.
    Kannski væri vert að ný stjórn hitti stjórn KFR og ræði mál eins og aðkomu Ísalp að klettafesti og þrif eftir gleðisamkomur í húsi, enda virðist það liggja þyngra á hjarta stjórnar KFR en undirrituð gerði sér grein fyrir.

    Að lokum vil ég þakka óskir um velfarnað, ný stjórn hlakkar til að takast á við verkefnin sem framundan eru.

    #52492
    2005774349
    Meðlimur

    Hei hó!

    Klifurfélag Reykjavíkur getur verið KR, KFR eða eitthvað svoleiðis. Allt bara eftir smekk og engin misritun þar.

    Sjáumst,
    Hjalti.

    #52493
    0309673729
    Participant

    Á aðalfundinum var spurt um húsnæðismál Ísalp og Klifurhússins. Svar stjórnar var dálítið óljóst, kannski vegna þess að þeir sem vissu mest um málið, formaður og gjaldkeri, voru fjarri góðu gamni.

    Eftir því sem ég kemst næst þá mun Klifurhúsið líklega flytja á árinu, væntanlega fyrir áramót. Vonandi það því sögusagnir eru um að núverandi leigusamningur nái ekki lengra. Húsið sem flytja á í ku vera óbyggt og hægt gengur að fá úr því skorið, hvar, hvenær og hvernig það verður reist.

    Við þetta missir Ísalp að sjálfsögðu sína aðstöðu. KFR býst þó við að geta skaffað Ísalp aðstöðu á nýja staðnum.

    Ég ítreka að þetta eru ekki staðfestar fregnir. Er ekki mál að KFR og Ísalp skýri betur frá þessum málum. Varla eru þetta einhver leyndarmál?

    Þegar Ísalp flutti í Klifurhúsið fór mikill tími og orka af hálfu Ísalp félaga í að koma upp aðstöðunni á efri hæðinni í samvinnu við Klifurhúsið. Önnur starfsemi klúbbsins varð minni fyrir vikið. Ég er frekar á því að skynsamlegt sé fyrir klúbbinn að flytja næst í fullbúna aðstöðu. Gjarnan með Klifurhúsinu til hagsbóta fyrir báða aðila.

    með kveðju
    Helgi Borg

    #52494
    2704735479
    Meðlimur

    Helgi,

    þú sast við hliðina á mér í Klifurhúsinu í gær og hefðir auðveldlega getað spurt mig út í húsnæðismál Klifurhússins. Ég held að þú og aðrir í Ísalp geti alveg sofið rólega út af húsnæðismálum -Klifurfélagið sefur aftur á móti ekki jafn rólega. Það eru 10 mánuðir til áramóta og ég hef fulla trú á að húsnæðismál verði til lykta leidd á þeim tíma. Þau verða að sjálfsögðu kynnt þegar það er tímabært.

    Kristín Martha

    #52495
    Skabbi
    Participant

    Ég held að það hafi ekki komið nógu vel fram, hvorki í ársskýrslunni né á fundinum, að samskipti Ísalp og KFR hafa verið mjög góð á árinu. Það var amk okkar skilningur í stjórninni.

    Okkur fannst klettafestivalið hafa farið vel fram á sínum tíma. Það var haldið í fullri sátt við KFR á og þau stungu upp á og gáfu verðlaun fyrir keppnirnar tvær sem haldnar voru. Tjaldið sem Ísalp kom með kom að góðum notum fyrir alla á svæðinu. Engar umkvartanir frá KFR bárust að því loknu.
    Varðandi umgengnina, þá er það rétt að við Smári urðum að fara í bæinn á sunnudeginum. Okkar ferðafélagar, Bjöggi, Sædís og Robbi, urðu þó eftir til mánudags og sáu til þess að svæðið liti skikkanlega út að lokinni helginni. Þó að maður telji sig þekkja flesta á svæðinu af góðu einu virðist alltaf verða rusl eftir þegar margir koma saman. Mannmargt var á svæðinu þessa helgi og fullljóst að margir voru þar hvorki á vegum KFR né Ísalp.
    Í kjölfar helgarinnar gerði Ísalp skurk meðal sinna félagsmann í að innheimta kamargjaldið svokallaða.

    Í haust var einnig haldið dry-tool mót í Klifurhúsinu og partý sem klúbbarnir stóðu sameiginlega að. Ég veit ekki betur en það hafi mælst vel fyrir.

    Kristín og Hjalti hafa látið vita af þróun mála varðandi húsnæðið. Stjórninni er fullkunnugt um að húsnæðið missum við í lok árs en til standi að byggja stóra aðstöðu í Gufunesinu hvar pláss sé fyrir Ísalp. Stjórnir beggja klúbba hafa lýst yfir áhuga á áframhaldandi samvinnu í húsnæðismálum en á meðan frekari upplýsingar um framkvæmdartíma liggja ekki fyrir er ekki mikið sem stjórn Ísalp getur aðhafst í málinu.

    Það mátti skilja á fundinum og umræðunum í kjölfar hans að ýfingur væri milli KFR og Ísalp. Ég hef enga trú á því að svo sé í raun og veru og er þess fullviss að samskipti KFR og Ísalp verði góð, hér eftir sem endra nær.

    Skabbi

    #52496
    0309673729
    Participant

    Kristín,
    fyrir aðalfund Ísalp vissi ég ekki að þetta stæði til. Það eru örugglega fleiri en ég sem vissu ekki af þessu og sem einnig hafa áhuga á húsnæðismálunum. Það er því gott að fá þetta hér. Þessari fyrirspurn var einnig vísað til stjórn Ísalp, eins og fram kemur hér að ofan.

    með kveðju
    Helgi Borg

13 umræða - 1 til 13 (af 13)
  • You must be logged in to reply to this topic.