Re: svar: Fyrir þá sem eru læsir….

Home Umræður Umræður Skíði og bretti Hardcore í tjaldi Re: svar: Fyrir þá sem eru læsir….

#54161
0801667969
Meðlimur

Þetta spjall minnir mig á Suðurjöklahring 1983. Lentum á fjórða degi í kolvitlausu veðri efst á Eyjafjallajökli. Okkur tókst að komast vestur fyrir gíginn og ætluðum að grafa okkur niður. Gjörsamlega útilokað hefði verið að koma upp tjaldi auk þess sem það hafði týnst í veðurofsanum fyrr um daginn. Svo hart var færið að þó við notuðum ísaxir til að grafa þá komust við ekkert niður úr harðfenninu. Fukum bókstaflega niður jökulinn undan austanáttinni og enduðum í gili sem skóf ofan í. Þar var skafl sem við grófum okkur inn í á skömmum tíma.

Vorum þarna þrír saman. Ég lenti innst í holunni og eitthvað erfitt var að komast út svo ég neyddist til að míga í hitabrúsann (Thermos) minn ofan í svefnpokanum án þess að nokkur tæki eftir. Ekkert blotnaði. Annars var þetta fín vist. Hlustuðum á lestur Passíusálma allt kvöldið. Var lengi kallaður Brúsi eftir þetta. Um þetta afrek má lesa grein í einhverju gömlu ÍSALP riti.

Á rokrassgatinu Íslandi þá er það oft á tíðum eini möguleikinn að grafa sig niður því að tjalda er einfaldlega ekki í boði. Gildir einu hvort sem það er á flatlendi, brekku eða í hengju. Slíkt er oftast lúxusvist miðað við að liggja í tjaldi. Ólíkt Sizza þá hef ég neyðst til að grafa mig niður í allnokkur skipti.

Snjóhúsagerð er oftast möguleg með undantekningunni í óvenju hörðu færi eða ís. Man eftir snjóhúsagerð í örþunnri lausmjöll ofan á ís undir Guðnasteini (eini skaflinn á jöklinum). Þetta tókst en menn þurftu að óla sig fasta við axir og skrúfur til að renna ekki út úr húsinu og niður að Seljavöllum.

Kv. Árni Alf.

P.S. Er hægt að gera þessi gömlu rit aðgengileg á netinu. Ómetanleg heimildir og áhugavert fyrir yngra fólkið að lesa.