Dirty Rainbow

Fyrsta spönn er boltuð af Árna Stefáni Halldorsen, Eyþóri Konráðssyni og Jónasi G. Sigurðssyni.
Flottur veggur rétt austan megin (hægri) við Saurgat Satans, gæti orðið frábær sportklifursector. Draumurinn er að láta Dirty Rainbow verða að fjölspanna leið, eins langt og mögulegt er að komast þarna upp, svo að hún er leið í vinnslu en fyrsta spönnin er tilbúin og er frábær sportklifur spönn.
Planið var að opna aðgang að þessum vegg með því að byrja á að bolta léttustu mögulegu leið upp á grassyllu sem liggur fyrir ofan allan veggin. Það mun auðvelda leiðasmiðum framtíðarinnar að geta sigið niður og boltað nýjar línur. Teymið lét vaða í þetta á rigningardegi, því að þá var ekki möguleiki á að bouldera á steinunum fyrir neðan. Jonni byrjaði á að leggja af stað í hálfu dótaklifri og hálfu stigaklifri, bara til að komast upp vegginn og setja bolta á leiðinni á góða staði. Það gekk svona ljómandi vel, fyrstu fjóra boltana, svo var ákveðið að þetta væri ákaflega hægvirkt og frekar lítið solid. Bergið tekur ákaflega illa við tryggingum, allt var rennandi blautt og Jonni var í stífum fjallamennskuskóm. Næst var röðin komin að Eyþóri, hann leggur af stað vel til hægri, upp grasbrekku sem liggur að grassyllunni. Grasbrekkan lýtur út neðan frá fyrir að vera með því léttara sem þú gætir ímyndað þér, en svo er ekki. Brekkan er ótrúlega brött, og það er nánast ekkert sem er hægt að grípa eða stíga á sem telst vera öruggt, auk þess að vera blaut og full af fýlum. Eyþór kemst á stallinn fyrir ofan verðandi leiðina eftir um tvo tíma af klifri, óþægilegasta fall sem hann hefur tekið á klifurferlinum og baðaður í ælu frá 11 fýlum. Hann fixar línu bæði eftir grassyllunni og beint niður verðandi leiðina. Kaldir og blautir komum við okkur niður eftir þetta og Árni sá um að koma einhverjum dögum síðar, júmma sig upp og klára að bolta leiðina.
Frá síðasta bolta og upp í akkeri er mjög torkeift barð og því hefur verið komði fyrir línubút sem er bundinn á milli akkerisins og síðasta bolta. Leyfilegt er að nota línuna til að toga sig þarna yfir, því að þá kemst klifrarinn í talsvert þægilegri stans upp á framhaldið að gera, þ.e. þegar næsta spönn bætist við ofan á þessa.
5.10a – 25-30m – fullt af boltum, sennilega alveg 12-15
Klifursvæði | Vestrahorn |
Svæði | Kambhorn |
Tegund | Alpine |
Merkingar |