Efri Súla
Leið upp á Efri Súlu, milli Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur. Neðri Súla er, eftir því sem best er vitað, ófarin en er eitthvað lítillega erfiðari en sú efri.
Grein um frumferð upp á Efri Súlu birtist í sunnudagsblaði Tímanns 21. nóvember 1971 þar sem uppferðinni er lýst. Í stuttu máli fara þeir Ævar og Reynir þarna upp og niður án alls klettaklifurbúnaðar og gera það með því að stökkva á milli snasa, moka út spor í bergið og fleira skrautlegt. Á toppnum reistu þeir vörðu og settu flösku með nöfnunum sínum inn í hana. Skemmtileg frásögn af miklu ævintýri þeirra félaga.
Mögulegt er að ferðin 1971 hafi ekki verið frumferð því að saga gekk um í sveitinni að þarna hefði einhver farið upp fyrir mörgum árum:
“Þess skal getið að við athuguðum, hvort við sæum þess einhver merki, að menn hefðu áður farið þessa leið eða komizt á tindinn, því sumir segja, að það hafi einn maður gert fyrir mörgum árum. En ekkert sáum við…”
Önnur uppferð á tindinn var 1994 og voru þar Guðjón Snær Steindórsson og Snævarr Guðmundsson. Þeir fundu vörðuna og flöskuna frá strákunum. Um þetta er fjallað í annál Ísalp 1994. Talað er um að fleiri hafi farið á tindinn nokkrum dögum síðar en ekki fylgir sögunni hverjir það voru
Næstu heimildir fyrir klifri í Súlunum eru þegar Garpur I Elísabetarson og Hlín reyndu við klifrið sumarið 2024. Garpur tók langt fall og urðu þau frá að hverfa en skildu eftir línu á staðnum sem þau komust hæðst.
Grein birtist á visir.is um fallið.
Ári síðar, sumarið 2025 reyndi Garpur aftur við fjallið en þá með Andra Má Ómarsson, Berg Sigurðarson og Jónas G. Sigurðsson með í för. Þeir klifruðu upp í algjörri þoku og náðu upp á toppinn. Varðan var á sínum stað en einnig mjög stæðilegur steinn sem ekki hafði verið getið um í fyrri heimildum. Steinninn er fullkomið sigakkeri. Teymið færði hann aðeins til og skorðaði vel og er niðurferðin því auðveld og örugg.
Garpur gerði þátt í seríunni Okkar eigið Ísland fyrir Sýn um klifrið.
Ekki er vitað nákvæmlega hvernig hvert teymi hefur klifrað upp á tindinn í hverri ferð, nema 2025 ferðinni. Miðað við lýsingu hefur frumferðin 1971 lagt af stað á sama stað en ómögulegt er að segja um rest. Líklegt er að það séu margar leiðir færar upp ef hliðrað er eftir hverjum stall og leitað vel.
Leiðarlýsing (eins og farið var 2025)
Gengið frá lítilli námu við Álaugará í Stöðvarfirði. Gangan er einföld, beint að augum og tekur innan við klukkutíma. Gengið er upp á milli Efri og neðri Súlu upp meiri og meiri bratta þangað til komið er að vegg þar sem klifrið hefst. Súlurnar tvær eru aðskildar með berggangi sem gengur upp á milli þeirra.
Spönn 1. 70-80° brattur veggur, hulinn lafþunnum og rökum mosa, léleg berggæði en það er klifrað inni í kverk þar sem hægt er að stemma á milli. Ofarlega í spönninni slaknar aðeins á hallanum en maður fer líka út úr kverkinni og þar eru erfiðustu hreyfingarnar í spönninni. Treysta þarf á fótstig og grip í gróður í 2-3 hreyfingar en bergið undir gróðrinum er frekar slétt. Lítið er um tryggingar í allri spönninni og þessi spönn er sú erfiðasta af öllu klifrinu, í það minnsta fyrir hausinn og hjartað. Þegar komið er upp úr þessu er komið á stall sem hægt er að fylgja til hægri (norðurs) út og fyrir horn. Handan hornsins er auðvelt brölt upp á næsta stall fyrir ofan, en farið með gát því þarna tók Garpur fallið sem minnst var á hér að ofan. Einnig er hægt að ganga örlítið eftir stallinum og fara þar upp smá haft með aðeins erfiðari hreyfingum en betra bergi heldur en neðar. Hvor leiðin sem farin er, þá er komið að stað þar sem hægt er að gera mjög gott akkeri í víðri sprungu (cam 2 eða 3). ca 40m í heildina
Spönn 2. Haldið er frá stans inn í smá skál sem breytist í kverk, í kverkinni er hægt að stemma á milli veggja og hér þarf að grípa í nokkur bergtök. Hér eru mögulega erfiðustu tæknilegu hreyfingarnar en bergið og tryggingarnar eru orðnar betri og því léttari fyrir haus og hjarta. Erfiðleikinn er á bilinu 5.6-5.7 en klifrast fínt í gönguskóm. Komið er upp á öxl sem skagar út úr tindinum og þar er hægt að gera áagætis akkeri. Öxlin er með góðum flata sem rúmar 3-4 og einkennist af móbrúnu bergi eða einhverskonar mold. 15-20m í heildina
Spönn 3. Frá öxlinni er farið utan um hornið á vesturhlið tindsins. Þar er fyrst ríflega mittishár stallur sem hægt er að vippa sér upp á og af honum tekur við breið sprunga sem byrjar í ofwidth breidd en breytist í stromp eftir tvær hreyfingar. Þægilegt klifur ca 4m. Þegar komið er upp úr strompinum tekur við löng grasbrekka upp að síðasta haftinu. Síðasta haftið er í góðu og föstu bergi og býður upp á létt en mjög skemmtilegt klifur upp á topp Efri Súlu. Strompurinn er ca. 5.6 og lokahaftið ca 5.4.
Toppurinn er flatur og ber, 30m x 16m. Þar eru flestir ef ekki allir steinarnir sem voru til staðar í notkun, annars vegar í vörðunni og svo er sá stærsti alveg fullkominn til að síga af. Frá sigsteininum og niður þangað sem klifrið hófst eru um það bil 55m og því fullkomið að síga eitt heilt sig niður. Ekki er ráðlagt að síga niður í tveim sigum því bergið er það lélegt þegar komið er niður um 20-30m að erfitt er að finna eitthvað gott til að treysta í sig.
FF: Ævar Sigdórsson og Reynir Reimarsson, 31. maí 1971
| Crag | Fjarðabyggð |
| Sector | Stöðvarfjörður |
| Type | Alpine |
| Markings |
























