Svarti turninn í Búahömrum

Home Forums Umræður Klettaklifur Svarti turninn í Búahömrum

  • This topic is empty.
  • Author
    Posts
  • #47617
    AB
    Participant

    Frá því í mars höfum við kumpánarnir unnið að nýrri klettaleið í Búahömrum. Skemmst er frá því að segja að eftir mikið streð og töluverða hreinsunarvinnu er leiðin tilbúin, klifruð, og klár í neytendapakkningar:

    Svarti turninn – 5.8

    Staðsetning:

    Búahamrar í Esju, um 100 metrum vestan við Rauða turninn. Sjá leiðarvísi (meðfylgjandi hlekkur).

    F.F.:

    6/7/´09 – Andri Bjarnason, Freyr Ingi Björnsson, Sveinn Friðrik Sveinsson (Sissi).

    Lýsing leiðar:

    1. spönn: 5.7 – 30 m.

    2. spönn: 5.8 – 15 m.

    3. spönn: 5.3 – 50 m (tengispönn, brekka með stuttu hafti).

    4. spönn: 5.8 – 10 m.

    Fyrsta spönn er löng og brött á köflum, erfiðust fyrstu 15 metrana. 9 boltar og tveggja-bolta megintrygging.

    Önnur spönn liggur upp einskonar berggang og endar í víðum strompi og þar er krúxið. 5 boltar og tveggja-bolta megintrygging.

    Þriðja spönn liggur upp grasbrekku sem leiðir að stuttu og léttu klettahafti með einum bolta. Þar fyrir ofan er stutt brekka upp í eins-bolta megintryggingu.

    Fjórða spönn liggur upp víða sprungu (off-width). Á einum stað þrengist sprungan og verður þar mjög hentug fyrir meðalstóran hnefa. 4 boltar og tveggja-bolta megintrygging.

    Niðurleið:

    Við mælum eindregið með því að klifrarar gangi niður. Best er að fara nokkra metra til vesturs og þar niður gil, fylgja svo klettaveggnum þar til komið er að þröngu og bröttu gili. Sjá leiðarvísi.

    Búnaður:

    60 metra lína + 11 tvistar.

    ATH!!

    Við erum búnir að hreinsa leiðina nokkuð vel en þó geta leynst staðir þar sem bergið er laust. Því er nauðsynlegt að nota hjálm. Varast skal að klifra út úr leið í fyrstu spönn.

    Njótið vel! Það væri gaman að heyra frá þeim sem klifra leiðina, t.d. athugasemdir um gráðun o.s.frv.

    Leiðarvísir og myndir: http://www.picasaweb.com/andribjarnason

    Kveðja,

    Andri, Freysi og Sissi. [img]http://isalp.is//media/kunena/attachments/legacy/images/IMG_0905.JPG[/img]

    #54320
    Siggi Tommi
    Participant

    Þetta er sérdeilis glæsilegt.
    Var búinn að heyra af þessu og beið spenntur eftir frumsýningunni. Kíkir á þetta við tækifæri.

    Synd að þessi póstur kom ekki í gær því við Skabbi vorum Búahömrum seint í gærkvöldi og sáum djásnið en erum svo miklir heiðursmenn að ekki stóð til að snáka FFið. Hefði verið flott að teymi endurtæki leiðina sama dag og hún var FF.

    Við fórum aftur á móti í Rauða turninn og fórum þar í nokkurra klukkutíma endurreisnarstarf því eins og kom fram í pistli mínum í síðustu viku voru fjölmargir boltar og efri stans komin í vafasamt ástand.
    Við skiptum því um tvo bolta í krúxinu í fyrri spönn (þeir voru grútmorknir) auk þess að setja betra sigakkeri (rústfrían hring + keðju) á góðu boltana á stansinum. Tókum ónýta boltann úr stansinum líka.
    Í seinni spönn var allt orðið morkið og var því skipt um fjóra bolta í neðri helmingi auk þess sem sigakkerið uppi á klöppinni var endurnýjað alveg (well ekki alveg kannski – glænýir boltar en sighringir og augu sem við tókum úr neðri stansinum). Einnig var einum bolta bætt við á létta slabbinu fyrir lokahaftið öryggisins vegna, því bráður bani hlýst ef dottið er þar (10m niður í boltann og oft múkki á syllunni). Nú þarf því ekki lengur neitt dót til að fara þarna um gleðinnar dyr.
    NB. Það er ennþá gott runout milli bolta 2 og 3 í þessari spönn og vildum við ekki skemma það ævintýri enda er klifrið létt á þeim kafla. Farið bara varlega.

    #54322
    1908803629
    Participant

    Tær snilld, vonandi ratar maður í þetta klifur fyrr en síðar.

    #54323
    Siggi Tommi
    Participant

    Hér er svo mynd af dótinu sem var hreinsað var úr Rauða turninum en í staðinn voru settir 9stk ferskir boltar, 7stk augu og eitt rústfrítt akkeri.

    [img size=614]http://isalp.is//media/kunena/attachments/legacy/images/DSC00049_sm.JPG[/img]

    Ég vona að enginn sakni fleygsins sem tekinn var hjá fyrsta bolta. Ef menn vilja vitja hans og/eða negla hann inn aftur, þá hafið þið samband… :)

    #54325
    Skabbi
    Participant

    Þetta er kúl strákar. Eins og Siggi sagði þá (b)röltum við aðeins um svæðið og töldum að þar rúmast líklega nokkrar leiðir í viðbót.

    Ég á allavega hot date í Turnunum Tveim á morgun, læt vita um stemminguna eftirá.

    Allez!

    Skabbi

    #54331
    Páll Sveinsson
    Participant

    Fékk að fjóta með Skarphéðni og Hrönn sem sérlegur hirðljósmyndari.
    Þetta er hin besta skemtun.

    http://picasaweb.google.com/pallsveins

    kv.
    Palli

    #54332
    Skabbi
    Participant

    Takk fyrir daginn Palli.

    Svarti Turninn olli engum vonbrigðum, prýðileg skemmtun. Fórum okkur að engu óðslega við klifrið, vorum rétt um tvo tíma að klára.

    Tek aftur að ofan fyrir piltunum sem nenntu að hreinsa leiðina og bolta.

    Allez!

    Skabbi

    #54333
    Sissi
    Moderator

    Vá, þegar Skabbi sagðist hafa átt hot date í Turninum grunaði mig ekki að það væri grískur guð ;)

    Gott að þetta er skemmtilegt, þið hafið sennilega samið betur við Hálfdán fyrir hönd veðurstofunnar en við, lítur út fyrir að hafa verið fantagott veður á ykkur.

    Fínar myndir líka, en Palli þú þarft að temja þér að smella af einni svokallaðri KSASM eða “klassískri sjálfsmynd af sjálfum mér”, sem svo er nefnd eftir myndsmíðum lífskúnstnersins Óla Ragga. Alltaf gaman að sjá smettið á snillingum.

    Bara gaman!

    Sissi

    #54334
    AB
    Participant

    Nei andskotinn, Sissi. Nú hefurðu uppljóstrað einu skemmtilegasta leyndarmáli fjallabransans, þ.e. merkingu K.S.A.S.M. Nú þurfum við að bíða þar til einhver snilld hrekkur af vörum Óla Ragga – og hann býr í Svíþjóð!

    Það er gaman að ykkur líkar leiðin. Finnst ykkur spannirnar hæfilega gráðaðar?

    Kveðja,

    AB

    #54338
    gulli
    Participant

    Hæ, ég og Óli Hrafn skelltum okkur í Svarta Turninn í blíðunni. Hin besta skemmtun, takk fyrir að hafa sett þessa leið upp strákar.

    Mjög sáttur við gráðurnar og vel boltað … fyrsta spönnin alveg boltuð í hönk, hefði kannski verið meira gaman að sleppa 2-3 svona til að auka enn meira á gleðina … :)

    Kveðja,
    Gulli

    #54345
    1410693309
    Member

    Virkilega skemmitileg leið og svo vel boltuð að hrein unun er að klippa í … Þið eigið mikinn heiður skilinn fyrir þetta framtak (líka fyrir endurboltunina í Rauða turninum).

    Skúli Magg

    P.s. Mér finnst gráðunin stemma miðað við íslenska yosemite-kerfið (sem er náttúrulega tómt rugl og bull).

    #54350
    olikrummi
    Member

    Hæ,
    Takk fyrir mig herrar.
    Ekki taka of mikið mark á Gulla, þetta er fínt boltað ef eitthvað þá hefði mátt bolta smá stiga í spönn tvö svo ég kæmist upp án þess að fara að gráta.

    Myndir úr ferð http://picasaweb.google.com/olikrummi/SvartiTurninn#

    Kv.
    Óli Hrafn

    #54351
    1012803659
    Participant

    Við skelltum okkur tveir (Gaui og Atli) í þessa snilldar leið fyrripartinn í dag.

    Spenningurinn og gleðin var svo mikil að ég spændi fram hjá fyrstu megintryggingunni og endaði með massa “rope-drag” og tvistalaus í “annari” spönninni.

    Mér fannst gráðurnar vera við hæfi miðað við aðrar leiðir á íslandi. Leiðin er vel boltuð!

    Snilldar framtak, takk fyrir okkur

    #54352
    2109803509
    Member

    Við Arnar skelltum okkur í Svarta turninn um helgina og skemmtum okkur vel ;) Gott framtak. Skemmtilegt klifur. Vel boltað. Gráðurnar við hæfi. Sem sagt bara eintóm hamingja!

    kveðja,
    Berglind

    #54353
    AB
    Participant

    Það gleður mig ósegjanlega hve margir eru ánægðir með Svarta turninn.

    Við Freysi klifum Rauða turninn síðasta laugardag. Gott hjá Sigga og Skabba að endurbolta. Þarft verk. Og mikið óskaplega er neðri spönnin alltaf jafn erfið! Svona eru þessar blessuðu 5.9-ur; svo miklu erfiðari en 5.8-ur en lítið auðveldari en 5.10-ur.

    Kveðja,

    AB

    #54354
    2308862109
    Participant

    Eftir hádegi í dag í bongóblíðu renndum við Geiri í Svarta turninn. Snilldar leið í alla staði, fyrsta spönnin stóð samt uppúr en fyrsti stansinn er þó orðinn vel útspýjaður eftir múkkann sem býr þar við hliðiná. Frábært framtak takk fyrir okkur.

    Dóri

    #54355
    Leifur
    Member

    Flott leið, vel boltuð og hið skemmtilegasta klifur. Takk fyrir uppsetninguna.
    Gráðunin er vist fortíðarvandamál sem erfitt er að losa sig út úr. Væri klifrið í öðru landi mætti gráða spannirnar 5c, 6a, tengispönn og 6a og væri leiðin þá ekki ofgráðuð sem 5.8, 5.9 tengispönn og 5.9.
    Núverandi gráðun samræmis “íslenska-yosemite gráðukerfinu” ágætlega en auðvitað er þetta ekki æskileg staða að undirgráða leiðir til þess að halda inbyrðis samræmi á mili klifurleiða hérlendis.

    Leifur Örn Svavarsson

    #54356
    Sissi
    Moderator

    Ofsalega er mikið af skemmtilegu fólki að klifra í Svarta turninum. Æði. Það hefði nú verið gaman að vera lítill fugl (þá ekki múkki) nálægt Geira og Dóra, alveg er ég sannfærður um að eitthvað epískt hefur farið þeim á milli í dag.

    Friður,
    Sissi

    #54357
    Sissi
    Moderator

    Hah, Leifur var ekki búinn að pósta þegar ég skrifaði þetta og ég verð bara að taka fram að eflaust hefði maður fengið stórskemmtilegt efni þar líka, svona fyrir þá sem finnst gaman að gagnálykta :)

    S

    #54358
    Björk
    Participant

    vá hefur enginn lent í því að koma að leiðinni á sama tíma og þurft að slást til að útkljá hver fær að klifra :)

    Frábært!

    #54359
    AB
    Participant

    Jú, Björk, í gær handrotaði ég tvo túrista sem ætluðu í leiðina á undan mér og faldi þá svo í háa grasinu undir leiðinni. Held að þeir hafi verið Hollendingar eða Belgar.

    AB

    #54367
    Freyr Ingi
    Participant

    Ég og Raggi fórum svarta turninn í kvöldblíðu gærdagsins. Notalega stund áttum við þar ásamt þeim 4 öðrum sem voru í leiðinni þegar við okkur bar að.
    Ekki náðum við þó að greina hverjir voru þar á ferð en sáum á því hvar þeir lögðu bíl sínum að bestu aðkomu hefur kannski ekki verið nægilega vel lýst.

    Aðkoma: Beygið inn á bílastæði við Esjurætur að Mógilsá (þar sem gengið er af stað á Esjuna).
    Í stað þess að keyra inn á malbikað bílastæðið er strax beygt útaf til vinstri og inn á malarslóða sem liggur í fyrstu upp í hlíðina en sveigir fljótlega og verður samsíða þjóðveginum. Þessi slóði er keyrður alla leið þangað til maður er staðsettur ofan við malarvinnsluna (flatus lifir). Þar er mál til komið að leggja bíl sínum og fara fótgangandi í átt að klettunum. Sama leið er farin til baka.

    Góðar stundir,

    Freysi

    #54368
    Gummi St
    Participant

    Já varst þú þarna líka í gærkvöldi Freysi, en við vorum 4 félagar þarna á ferð, Ég, Óðinn, Kári og Óli. Myndir koma síðar þar sem ég er tölvulaus til myndvinnslu sem stendur. Frábær leið, miklu skemmtilegri en ég átti von á og þið eruð algjörir heiðursmenn fyrir að setja þetta svona vel upp og græjja fyrir okkur hina, takk kærlega fyrir okkur.

    Get kannski gefið smá teaser af myndum, en hér er mynd af öðrum “leiðarverðinum”: http://www.flickr.com/photos/gummistori/3733679630/
    hendi inn klifurmyndum í vikunni, skal láta ykkur vita.

    kv. Gummi St.

    #54369

    Fór í Svarta turninn í dag með Gunna Magg. Virkilega skemmtileg leið, vel boltuð og frábært framtak. Unginn við fyrsta stans var bara spakur og ældi ekkert. Í klettunum vestan við niðurgöngugilið tók ég eftir bolta með frönskum lás í miðjum vegg og kopperhead í áberandi sprungu neðan við boltann. Virtist þetta vera komið nokkuð til ára sinna. Er þetta eitthvað project sem menn gáfust upp með? Sá veggur bíður upp á nokkrar leiðir.

    Kv. Ági

    #54370
    Gummi St
    Participant

    Vel á minnst Ági, tók líka eftir þessu og töluvert neðar á sama stað sáum við líka hnetu í veggnum.

Viewing 25 posts - 1 through 25 (of 35 total)
  • You must be logged in to reply to this topic.