slys í múlafjalli

Home Forums Umræður Almennt slys í múlafjalli

 • This topic is empty.
 • Author
  Posts
 • #46188
  Smári
  Participant

  einhver sem getur sagt nánar frá atvikum? http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/19/lidan_mannsins_stodug/

  Smári

  #58048
  1811843029
  Member

  Gott kvöld kæru félagar

  Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um hvað gerðist í Múlafjalli í dag en eins og fram kom í fréttum þá virðist vera að klifrarinn hafi losað grjót og fallið við það.

  Sá sem datt er félagi í Ísalp en kannski best að leyfa honum sjálfum að nafngreina sig ef hann vill. Vonandi fáum við að heyra frá honum sjálfum hvað gerðist til að allir geti lært af því og þannig komið í veg fyrir slys í framtíðinni.

  Ég óska klifraranum skjóts og góðs bata!

  Atli Pálsson
  Formaður Ísalp

  #58059
  0909862369
  Member

  Sælir félagar, nú er komið að póstinum sem allir hafa beðið eftir, jarfnmikið og beðið hefur verið eftir úldnum fiski og gómsætu kjöti sem fylgir þessum hátíðum víst líka.

  Eins og margir vita lenti undirritaður í ákveðnu “óhappi” í Múlafjalli á miðvikudaginn síðastliðinn, og er best að henda inn nokkrum línum um það, til að sefa fróðleiksfýsn ÍSALP-ara.

  Ég var semsagt á ferð með tveimur Áborgurum á leið í ísklifur þennan miðvikudaginn. Veður var þokkalegt, nokkuð rok, og gerði ráð fyrir að hvessa. Eins var skrambi hlýtt, svo við hefðum líklega þurft að hafa varann betur á eftir frostakaflann á undan. Við tökum semsagt stefnuna nokkuð beint upp frá bílastæðinu og erum í raun aðeins utan aðalgönguleiðarinnar. (Enda í sveitinni erum við vanir að fara ótroðnar slóðir). Þegar við erum komnir rétt fyrir neðan fyrsta ís erum við komnir í smá brölt/klöngur milli stórra steina, eins og lög gera ráð fyrir þegar maður fer í fjallgöngur. Ég er fyrstur af okkur þremur og hinir strákarnir koma í humátt. Ég styð mig við stóran stein sem virðist vera órjúfanlegur hluti af fjallinu og vigtaði líklega einhver 150-200kg. Áður en ég veit af stend ég með steinkvikindið í fanginu og við á hraðri leið niður fjallið aftur. Ég er í raun ekki með nákvæmar mælingar á falli, en ég byrja aðeins á frjálsu falli og renn síðan örlítið niður hlíðina og enda um 10-15 metrum neðar með höfuðið vísandi upp í brekkuna. Við fallið lendi ég á hægri öxlinni og andlitinu og steinninn lendir skammt frá og mölbrotnar. Af því má leiða að ég hafi unnið þessa grjótglímu þar sem ég var eftir til frásagnar og lítið brotinn, meðan steinninn var skilinn eftir í brekunni, mölbrotinn.
  Í framhaldinu tók við fyrsta skoðun og hryggáverkamat, og var niðurstaðan að við myndum bíða eftir frekari aðstoð, en annar klifurfélaginn er EMT-B og WFR, svo hann hoppaði auðveldlega úr “play-mode” yfir í “rescue-mode”. Eftir um klukkutíma birtist fyrsti sjúkrabíll á bílastæðinu og korteri seinna voru fyrstu bjargir mættar og undanfarar á svæði 1 fóru að týnast upp í brekkuna. Sem betur fer ákvað áhöfnin á TF-LÍF (eða einhvar ákvað það fyrir þá) að þeirra kröftum væri betur varið í að bjarga óheppnum ísklifrara í Hvalfirði en leita að strokufanga við Eyrarbakka. Því var ánægjulegt að sjá þá dúkka upp, og nokkrum mínútum síðar var ég hífður um borð og flogið rakleiðis niður í Fossvog.

  Af mér er það helst að frétta að ég slapp betur en á horfðist. Ég braut upphandleggsbein hægrameginn og þess sem ég bort kinnbein, augnbotn og gagnauga hægra meginn. Annað óbrotið, en töluvert mar og bólgur á hægri fæti. Allt það mikilvægasta slapp. Ég fór í 5 klst skurðaðgerð á fimmtudaginn og kom til baka með tvær plötur í andliti, einn nagla og fjórar skrúfur í handlegg. Kom síðan heim í gær og er allur að skríða saman. Ætla ekki að setja nein markmið fyrir ísklifurseasonið, en stefni á að vera kominn a.m.k. í gang fyrir klettana í sumar.

  Annars held ég að það sé litlu við þetta að bæta nema, verum með hjálm þegar við förum í fjallgöngur, þó við séum ekki byrjuð að klifra. Hann amk bjargaði mér meira á hausnum heldur en danglandi utan á pokanum.

  Með kveðju úr Hveragerði
  Sævar Logi

  #58060
  Gummi St
  Participant

  Flott hjá þér að skrifa um þetta og taka af allar sögusagnir, ýmindanir fólks og annan óþarfa sem á það til að fara af stað við svona fréttir.

  Óska þér góðs bata og hafðu það sem best yfir hátíðarnar. Hlakka einnig til að heyra frá þér úr klettaferðum í sumar þegar þú hefur náð bata.

  bestu baráttukveðjur,
  Gummi

  #58061
  Sissi
  Moderator

  Tek undir með Gumma, gott að fá svona lýsingu frá fyrstu hendi til að læra af.

  Góðan bata, vonandi verður þú kominn á fjöll fljótlega.

  Gleðileg jól,
  Sissi

  #58062
  0808794749
  Member

  Takk fyrir að deila með okkur sögunni Sævar.
  Bestu bata- og jólakveðjur til þín.

  #58064
  1902784689
  Member

  Sama og Gummi sagði, gott að heyra rétta frásögn!!

  Þú ferð vel með þig og sjáumst aftur á ísnum!

  Kveðja
  Jón Heiðar

  #58066
  1811843029
  Member

  Þakka þér fyrir þetta Sævar. Það er mikilvægt að heyra réttar frásagnir af svona slysum til að það megi læra af þeim.

  Batakveðjur,

  Atli Páls.

  #58071
  2802693959
  Member

  Sæll Sævar Logi
  Takk fyrir að deila reynslu þinni. Slíkt er ómetanlegt fyrir okkar litla samfélag fjallamanna.
  Vona að þú náir þér að fullu þótt það taki eflaust sinn tíma.

  En að öðru. Veit einhver hér hvernig slysaskráningu óhappa í fjallendi er háttað.
  Án þess að vita það reikna ég með að slysó flokki öll slys til fjalla sem frístundaslys en skyldi landsbjörg halda utan um þetta?
  Spyr sá er ekki veit.
  kv, Jón Gauti

Viewing 9 posts - 1 through 9 (of 9 total)
 • You must be logged in to reply to this topic.