Re: svar: Glerárdalshringurinn

Home Forums Umræður Almennt Glerárdalshringurinn Re: svar: Glerárdalshringurinn

#49832
1709703309
Member

Þennan texta og myndir getur þú fundið undir ÍSALP – Allar greinar – Þumall

Ferð á Þumal er mögnuð, drífið ykkur.

Kv.
Stefán Páll


Þú þarft ekki að vera ruglaður til að fara á Þumal en það hjálpar. Gangan frá Skaftafelli að Hnútudal er nægilega löng til að æra fólk í annars mjög stöðugu ástandi. En það stoppaði þó ekki 11 þátttakendur í ferð á vegum klúbbsins helgina 13.-15. júlí til að leggja í ferð á fyrirheitna tindinn.

Fylgt var fyrirfram ákveðinni ferðalýsingu sem fól í sér að leggja af stað frá tjaldstæðinu á Skaftafelli og ganga strax inn í Morsárdal og þaðan inn í Kjós, þar sem lagst var til hvílu um föstudagsnóttina. Hvílst var í fjórar stundir áður en lagt var af stað upp Hnútudal. Í stuttu máli sagt þá fóru 9 þátttakendur af 11 af stað um morguninn en tveir fóru í göngu inní Kjós sökum gamalla hnjámeiðsla. Þeir sem lögðu af stað fóru á topp drangans og áttu þar góða stund með glæsilegt útsýni til allra átta enda veður hlýtt og gott að öllu leyti.Að loknum uppáferðum þá var haldið í menninguna í Skaftafelli til Atla þjóðgarðsvarðar þar sem nokkrir tjölduðu sökum óstjórnandi svefnþurftar meðan aðrir héldu á Hnappavelli.

Rétt er að nefna að þó ekki sé um mjög langa leið að ræða getur reynst nauðsynlegt að klifra í nokkrum spönnum á toppinn. Sama gildir um sigið sökum þess að leiðin liggur í spíral upp drangann og mikið viðnám á línu eykur mjög á slit þeirra.

Að lokum fylgja hér upplýsingar um Þumal sem byggðar eru á rit i Ísalp nr. 20 frá júní 1981, en þar koma fram ágætis upplýsingar um aðkomu og lýsingar á leið inn Kjósina og upp á Þumal.

Ferðum á Þumal (1279), sem er forn gígtappi úr blágrýti, hefur farið fjölgandi síðustu ár. Hann var fyrst klifinn svo vitað er um í ágúst árið 1975, af þremur Vestmannaeyingum. Það liðu tvö ár þangað til hann var klifinn næst, og aftur liðu tvö ár þar til þriðji hópurinn hafði stígið á topp Þumals. Frá því að dranginn var fyrst klifinn fyrir 26 árum hafa klifrarar beitt mismunandi aðferðum við að nálgast viðfangsefnið. Í fyrstu ferðunum var valið að gista við Kjósina en heyrst hafa sögur um 14 tíma ferð frá Skaftafelli á Þumal og til baka í Skaftafell. Skipta má leiðinni í fjóra hluta; Skaftafellsheiði (4,5 km), Morsárdal+Kjós (5,5 km), hækkunin upp Hnútudal (ekki Vestari Hnútudal) að Þumli (3,5 km) og síðast en ekki síst bröltið upp á drangann sjálfann um 120 m.