Re: Re: Bláfjöll 2012-13

Home Forums Umræður Skíði og bretti Bláfjöll 2012-13 Re: Re: Bláfjöll 2012-13

#57999
0801667969
Member

Föstudagur 7. des 2012

Það var áhugavert að skoða ummerkin eftir snjóflóðin í gær. Mjög oft er það þannig að vindur og úrkoma afmá ummerki snjóflóða að hluta eða alveg. Þau hverfa einfaldlega. Ekki er hægt að sjá útlínur flóðanna, þau snjóar í kaf og brotstálið fennir í kaf eða hreinlega skefur burt. Þetta er vandamál sem björgunarfólk getur staðið frammi fyrir. Útlínumerking áður en allt hverfur er kannski mikilvægari en margan grunar.

En aftur að gærdeginum. Neðri hluti flóðanna var sums staðar ógreinilegur. En brotstálið var hins vegar flott. Verð að viðurkenna að ég þorði ekki út á brúnina til að mæla þykktina. Komst hins vegar að þar sem sprunga var í flekanum upp á fjallinu fjær brúninni. Þar er flekinn miklu þynnri en engu að síður 2,5 metrar. Ég reikna með að brotstálið óvísindalega áætlað hafi verið a.m.k. 4 metrar á þykkustu köflunum. Þetta er reyndar þykkast þarna á brúninni og hengjan sjálf kemur inn í.

Þetta er fleki sem rennur á hörðu undirlagi og skilur ekki snjókorn eftir. Ljóst að gríðarlegt efni hefur bæst í skíðabrekkurnar. Ef einhver er að tala um snjóframleiðslu þá er þetta með því afkastameira.

Á Suðursvæðinu þá er sneiðingur sem menn fara um þegar farð er úr tvíburalyftunum. Á köflum þar var allt pakkað í kögglum en annars staðar voru engin ummerki eftir flóð þó þau væru til staðar neðar í brekkunni. Það virðist því sem flóðið eða flekinn hafi svifið þarna yfir. Vel má vera að þetta hafi verið fleiri en eitt flóð. A.m.k. alltaf gaman að spá og spekúlera í snjónum. Hvort það sé eitthvað gáfulegt er allt annað mál.

Kv. Árni Alf.

P.S. Verst er að hafa ekki haft tíma né myndavél til að eiga betur við þetta. Flott mótíf. Hefði örugglega getað fengið einhvern fórnfúsan til að pósa undir brotstálinu.