Re: Re: Aconcagua – “var hætt kominn á fjallinu”

Home Forums Umræður Almennt Aconcagua – “var hætt kominn á fjallinu” Re: Re: Aconcagua – “var hætt kominn á fjallinu”

#58133
0312487369
Member

Í framhaldi af grein eftir mig sem birtist í Mbl. í gær (16. jan.) langar mig að láta þetta koma fram í tengslum við spurningar frá Ágústi:

– Viðbrögð við aukinni hæð eru einstaklingsbundin og fara eftir mörgu; m.a. erfðum og byggingu hvers fjallamanns. Í 10 manna hópi jafnaldra eru viðbrögðin ólík. Vegna þessa er auðvitað nauðsynlegt að hver fjallamaður byrji á því að kanna hægt og rólega hvernig aukin hæð fer með hann. Fyrsta háfjallaferð ætti í helst öllum tilvikum að miðast við 4000 til + 5000 m. Svo fikra menn sig áfram. Ég tel rangt að byrja á Acongagua, eins þótt það gæti heppnast (eins og dæmin sanna), hvað þá að byrja feril á enn hærra fjalli, segjum 7.000-8.000 m (en líka þar hafa menn komist upp með slíkt). Til eru þeir sem hæðaraðlagast afar illa (og engin þjálfun til sem breytir því róttækt). Ég get ekki fallist á að þeir eigi að hætta sér langt upp yfir það sem þeir þola, með því einu að nota lyf eða súrefni. Ef eitthvað klikkar eru þeir hinir sömu eins og hverjir aðrir óreyndir kafarar á allt of miklu dýpi með skyndilegt vandamál í fanginu. Svo er hegðan hvers og eins á háu fjalli ekki hans einkamál heldur líka mál félaganna, rétt eins og þegar upp koma skyndileg veikindi.

– Hraði hentar mönnum misjafnlega. Mikilvægt er að hlusta á líkamann og meta hraðann hlutlægt fyrir sjálfan sig. Það er ekkert að því að vera 1-2 klst seinna á ferð í tilteknar búðir en einhverjir aðrir í hópnum. Almenna reglan er sú að leggja a.m.k. af stað (yfir 3.000 m) á undir helmingi þess hraða sem maður hefði á langri fjallaleið hér heima. Og oftast hægir maður enn á sér í efstu hæðum, eins þótt hæðaraðlögun gangi vel. Menn verða líka alltaf að muna að á háu fjalli eru t.d. tveir síðustu áfangarnir upp ekki undir 500-1.000 hæðarmetrar (jafnvel meira) og niðurleiðin eftir. Hæga ferðin er er ekki bara nauðsyn vegna hæðaraðlögunar heldur líka til að spara þrek. Svo er annað: Því miður hafa flestir nálægir skipuleggjendur háfjallaferða á ferðaskrifstofuplani skorið ferðir á há fjöll niður í algjört lágmark hvað lengd snertir – bæði vegna verðs og tíma (handa okkur upptekna fólkinu). Hraðinn er oft of mikill einfaldlega vegna þessa, sbr. 5-6 dagar á Kilimanjaro.

– Ef hæðaraðlögun á helst að fara fram með því að nota fyrirbyggjandi meðul (sem eru bæði fá, umdeild, með hliðarverkunum og vafasöm ef hættu ber að höndum) er háfjallamennska orðin að eina sportinu sem ¨doping¨telst sjálfsögð aðgerð. Gleymum því ekki að mikill meirihluta háfjallafara alla síðustu öld, svo að segja, notaði ekki fyrirbyggjandi lyf. Hvernig stendur á því? Mér þætti það ömurleg tilhugsun að kröfur um hraða og yfirkeyrslu (miðað við raunverulega líkamlega getu eða byggingu manns) kalli á diamox eða stera eða viagara eða hvaðeina. Lyfin eru notuð þegar við á og einhver þarf á þeim að halda vegna veikinda. Hvorki lyf né súrefniskútar eru staðalbúnaður í ferðum á 5.000- 8.000 metra fjöll nema sem neyðarbúnaður. Ofan við 8.000 m á ekki að þurfa súrefni nema í undantekningartilvikun á uppleið á langflesta að þessum 14. tindum – nema Everest og kannski K2.
Hitt er svo annað mál að vegna tíðra slysa og til þess að auka hraðann hafa margir skipuleggjendur hópferða tekið upp á að nota súrefni handa fólki í einn eða tvo áfanga á uppleið – á sífellt fleiri af tindunum. Það er öfugþróun. Segir okkur einfaldlega að það augljósa hefur gerst: Stór hluti fólks sem leggur á hæstu fjöllin er ekki komið að þeim í sinni vegferð sem háfjallaklifrarar – um það vitna ótal sannar sögur af mörgum fjallanna.

– Það er því miður margt á kreiki um hæðarveiki, hæðaraðlögun ofl. sem tekið er eins og staðreyndir eða sjálfsagðir hlutir. Næstum allir sem ég hitti líta svo á að háfjallaveiki sé eðlilegur þáttur í ferð, rétt eins og sólbruni í sólarlandaferð eða niðurgangur í safari-ferð. Umræður eru af því góða og einfaldleiki í nálgun fjallamannsins við markmiðið sömuleiðis. Svo verða menn að sjá hvert lyfjaneysla og súrefni geta leitt sportið. Er hægt að sjá fyrir sér unga eða sjötuga manneskju (komin rakleitt frá Buenos Aires) klífa Acongagua, með tvo burðarmenn berandi dótið alla leið, súrefnisgeyma tengda og stútfulla af lyfjum, á einni viku? Auðvitað er dæmið ýkt, auðvitað má einhver gera þetta hafi hann lyst á því, en hinn almenni fjallamaður heldur sig við það sem kallast “fair means”.