Re: Eftirlit með klifurbúnaði

Home Forums Umræður Ís- og alpaklifur M10 Broddar Re: Eftirlit með klifurbúnaði

#53827
Robbi
Participant

Það heyrist öðru hverju að broddar brotni eða detti af mönnum í klifri. Ég lenti sjálfur í því um helgina að annar broddinn losnaði af mér en sem betur fer var ég 2m frá því að klára spönnina. Þetta klúður skrifast algerlega á mig það sem mér fannst broddinn ekki smellast nægjanlega fast á fótinn áður en ég lagði af stað. Ég nennti bara ekki úr vetlingunum og lét þetta duga.

Til að koma í veg fyrir svona vesen skal skoða klifurbúnað reglulega og yfirfara eftir ferðir. Herða skrúfur á broddum, renna í gegnum línuna og athuga með skemmdir, athuga skrúfur í öxum, athuga ástand á karabinum. Þetta tekur ekki langan tíma og getur sparað manni mikið vesen og jafnvel komið í veg fyrir stórslys.

Ef það eru míkrósprungur í einhverju af járnadóti hjá manni skal skipta því strax út. Hvort sem það eru karabinur, broddar eða axarblað. Bognum ísaxarblöðum skal henda strax, en ekki reyna að rétta það aftur. Leita skal eftir veikleika í kjarna línunnar (eins og línan sé klemmd eða marin).

Þetta er allt saman öryggisbúnaður sem við viljum að virki 100%, og við viljum ekki að hann klikki þegar á reynir.

Það má líka minnast á það að líftími slinga er skráður 5 ár frá framleiðanda. Nælon efni missa styrk með tíma og sérstaklega ef það verður fyrir mikilli UV geislun.

Robbi