(Icelandic) Annar hluti Erasmus samstarfsins

Sorry, this entry is only available in Icelandic. For the sake of viewer convenience, the content is shown below in the alternative language. You may click the link to switch the active language.

Eins og mörgum er kunnugt er Íslenski alpaklúbburinn í samstarfi við alpaklúbbana í Slóveníu og Ungverjalandi. Þeir sem tóku þátt í þetta skiptið fyrir Íslands hönd voru: Árni Stefán Halldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Esther Jónsdóttir, Helga Frímann, Jónas G. Sigurðsson, Ottó Ingi Þórisson, Sif Pétursdóttir og Védís Ólafsdóttir.

Núna í mars síðastliðnum fór íslenskur hópur til Slóveníu í fjallaskíðaferð og núna í ágúst var íslenskur hópur í Ungverjalandi og Slóvakíu að stunda klifur.

Í mars 2019 tekur Ísalp svo á móti hópum frá Slóveníu og Ungverjalandi og sýnum þeim hvað Norðurland hefur upp á að bjóða af brekkum og fossum.

Annar hluti samstarfsins hófst í Vysoké Tatry eða hærri Tatrasfjöllunum í Slóvakíu. Þar varði hópurinn þrem heilum dögum. Þar var farið í fjölspanna klifur, ýmist með eða án bolta, grjótglímu, gönguferðir og einhverjir fóru jafnvel út að hlaupa.

Í lok þriðja dags var keyrt yfir til þjóðgarðsins Aggtelek í Ungverjalandi sem liggur alveg upp við landamærin við Slóvakíu. Í Aggtelek eru víðamiklir kalksteinshellar sem eru á heimsmynjaskrá. Vegna þess að Aggtelek er þjóðgarður þá má bara klifra þar í fjóra daga á ári á meðan að Aggtelek kupa klifurkepnin er haldin.

Hópurinn var kominn til Aggtelek degi of snemma svo að þeim degi var eytt í klifur í Zádiel gilinu í Slóvakíu og svo hellaskoðun seinni part dags.

Hópurinn skráði sig til leiks í keppnina, sem var meira hugsuð sem festival, og hófst handa við að klifra.

Þjóðgarðurinn hefur sett upp þau skilyrði að í lok keppninar skulu öll augu vera hreinsuð af veggnum, á hverju ári eru því leiðirnar skrúfaðar upp á nýtt og tvistur settur í hvert einasta auga. Í hvert sinn sem keppnin er haldin eru 30 leiðir uppi en um 500 boltar eru á svæðinu, því er aðeins hægt að skipta hvaða leiðir eru uppi ár hvert.

Eftir þrjá daga af klifri fóru stigin svo að Ísalp átti fjóra þátttakendur á palli. Árni, Jónas og Ottó lentu í fyrsta, öðru og þriðja sæti í B flokki karla og Védís lenti í fimmta sæti í B flokki kvenna.

Einnig vann liðið “Smalasynir” stífa keppni í reipitogi og hlutu að launum fjórar flöskur af hvítvíni. Liðið samanstóð af Árna, Bjarti, Védísi og Jónasi.

Hópurinn er nú kominn heim eftir grillandi lokadag í Budapest, himinlifandi og spenntur fyrir þriðja og lokahluta Erasmus samstarfsins.

Afsakið myndaflóðið, það var bara svo rosalega gaman hjá okkur!

Leave a Reply