Fréttir af ísklifri og aðstæðum

Eilífsdalur fékk sína fyrstu heimsókn á þessum vetri á laugardag en þar voru á ferðinni Gabriel og Eyþór sem heimsóttu Einfarann.

Sunnudaginn nýttu þeir einning en þá inni í Brynjudal. Ísleiðirnar framarlega í Flugugili reyndust þunnar og ekki beint tilbúnar svo að stefnan var þá tekin innar í dalinn og þar urðu fyrir valinu leiðirnar vestast í Skógræktinni. Samkvæmt leiðarvísi voru þar klifnar leiðir B1 sem ber nafnið „Árnaleið“ og  annað nokkuð þétt ísþil sem þyrfti nú að merkja inn í annars metnaðarfullan leiðarvísi um Brynjudal. Snati var orðinn síður en samt ekki að ná jarðtengingu. Þyrfti fleiri góða daga til þess.

Þrándarstaðafossar voru stórir en ekki alveg lokaðir enda vatnsmiklir.
Óríon virðist fjarska fagur.
Almennt talsverður ís kominn.

Hnappavallahamrar hafa verið brúkaðir til ísklifurs á síðustu dögum en þar leynast nokkrar ísleiðir sem detta inn á köldum vetrum. Þó leiðirnar séu fallegar geturur þó varla talist tilefni til þess að aka langar leiðir til að klifra þær. Það væri svona svolítið að leita langt yfir skammt. ;o)
En sé maður á annað borð á svæðinu eru aðgengi og aðstæður til klifurs auðvitað með besta móti. Svo er nátturlega alveg rakið að taka svokallaða “sportþrennu” (Ísklifur-Búlder-Sportklifur) á Hnappavöllum þegar ísinn er til staðar.
Annars eru ísleiðir í Svínafelli sem og annarsstaðar í sveitinni undir eftirliti og munu fregnir af frekara ísklifri þar væntanlega berast bráðlega.
Grafarfoss er tilbúinn og hefur tekið á móti gestum.
Palli Sveins og Matteo opnuðu á umferð þar á föstudaginn fyrir vinnu. Póstuðu myndum og aðstæðuupplýsingum (montmynd) og viðbrögðin létu ekki á sér standa því næsta teymi var mætt seinna sama dag með höfuðljós og hitabrúsa í farteskinu.
Svo fréttist af för þeirra Geira og Dóra þarna á sunnudaginn. Líklega er ráðlegt að leyfa fossinum að hvílast aðeins og jafna sig eftir upphlaup þeirra tveggja.
Múlafjall virðist líka vera alveg toppnæs en þar voru menn að róa á “ný mið” og fóru eitthvað annað en í Testofuna.
Bjartur Týr, Matteo og Jón Gauti fóru semsagt í Hlaðhamra og klifu þar 3 leiðir. Þar sem skráning leiða í Múlafjalli er til þess að gera nýtt fyrirkomulag er ekki mikið um skrásettar leiðir á þessum svæði fjallsins. Á vef klúbbsins segir meira að segja: Hlaðhamrar
Frá áberandi gilinu og austur inn að Glym. Hér er nánast ekkert skrásett en mikið af leiðum, sennilega hellingur af óklifruðum leiðum því austar sem er farið.
Já einmitt, menn eru ekki allir sammála um þessa fullyrðingu um óklifruðu leiðirnar í Múlafjalli en gott vel. Þær eru að minnsta kosti ekki skráðar og því þyrfti að breyta.
Klifra, mynda, gráða, nefna og skrá svo á isalp.is.
Make Múlafjall Great again!
Spori, sá gamli góði og trausti vinur virðist vera eitthvað snjóaður samkvæmt Halldóri Fannari og Ágústi Kr. en þeir voru á ferðinni inni í Kjós þann 23. nóv. Þeir sögðu bændur á Fremra Hálsi hina hressustu þegar þeir bönkuðu upp á og báðu um leyfi til að skottast um landið og leggja á hlaðinu. Það er að sjálfsögð regla að láta vita, spyrja leyfis og óska upplýsinga hjá bændum þegar för manns liggur augljóslega um þeirra svæði.
Skógafoss og umhverfi er ansi hrímað um þessar mundir og í hvilft við hlið fossins hefur myndast ísleið klifin var á laugardaginn. Nokkrar tilraunir tók að klára verkefnið en mögulega er um að ræða “blautustu ísleið landsins” þar sem úðinn frá fossinum hlífir engu og hættir aldrei þegar inn í hvelfinguna er komið.
Svona GoreTex eða gúmmígalli dæmi.
 
Að lokum má svo minna á að Gufunesturninn er að fitna og það eru vinsamleg tilmæli til Ísalpara að láta klifur þar eiga sig þangað til ísbændur sem sjá um ræktunina hafa metið umferðina í lagi. Það verður þá tilkynnt sérstaklega á isalp.is.
Kveðja,
Freysi