Annar hluti Erasmus samstarfsins

Eins og mörgum er kunnugt er Íslenski alpaklúbburinn í samstarfi við alpaklúbbana í Slóveníu og Ungverjalandi. Þeir sem tóku þátt í þetta skiptið fyrir Íslands hönd voru: Árni Stefán Halldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Esther Jónsdóttir, Helga Frímann, Jónas G. Sigurðsson, Ottó Ingi Þórisson, Sif Pétursdóttir og Védís Ólafsdóttir.

Núna í mars síðastliðnum fór íslenskur hópur til Slóveníu í fjallaskíðaferð og núna í ágúst var íslenskur hópur í Ungverjalandi og Slóvakíu að stunda klifur.

Í mars 2019 tekur Ísalp svo á móti hópum frá Slóveníu og Ungverjalandi og sýnum þeim hvað Norðurland hefur upp á að bjóða af brekkum og fossum.

Annar hluti samstarfsins hófst í Vysoké Tatry eða hærri Tatrasfjöllunum í Slóvakíu. Þar varði hópurinn þrem heilum dögum. Þar var farið í fjölspanna klifur, ýmist með eða án bolta, grjótglímu, gönguferðir og einhverjir fóru jafnvel út að hlaupa.

Í lok þriðja dags var keyrt yfir til þjóðgarðsins Aggtelek í Ungverjalandi sem liggur alveg upp við landamærin við Slóvakíu. Í Aggtelek eru víðamiklir kalksteinshellar sem eru á heimsmynjaskrá. Vegna þess að Aggtelek er þjóðgarður þá má bara klifra þar í fjóra daga á ári á meðan að Aggtelek kupa klifurkepnin er haldin.

Hópurinn var kominn til Aggtelek degi of snemma svo að þeim degi var eytt í klifur í Zádiel gilinu í Slóvakíu og svo hellaskoðun seinni part dags.

Hópurinn skráði sig til leiks í keppnina, sem var meira hugsuð sem festival, og hófst handa við að klifra.

Þjóðgarðurinn hefur sett upp þau skilyrði að í lok keppninar skulu öll augu vera hreinsuð af veggnum, á hverju ári eru því leiðirnar skrúfaðar upp á nýtt og tvistur settur í hvert einasta auga. Í hvert sinn sem keppnin er haldin eru 30 leiðir uppi en um 500 boltar eru á svæðinu, því er aðeins hægt að skipta hvaða leiðir eru uppi ár hvert.

Eftir þrjá daga af klifri fóru stigin svo að Ísalp átti fjóra þátttakendur á palli. Árni, Jónas og Ottó lentu í fyrsta, öðru og þriðja sæti í B flokki karla og Védís lenti í fimmta sæti í B flokki kvenna.

Einnig vann liðið „Smalasynir“ stífa keppni í reipitogi og hlutu að launum fjórar flöskur af hvítvíni. Liðið samanstóð af Árna, Bjarti, Védísi og Jónasi.

Hópurinn er nú kominn heim eftir grillandi lokadag í Budapest, himinlifandi og spenntur fyrir þriðja og lokahluta Erasmus samstarfsins.

Afsakið myndaflóðið, það var bara svo rosalega gaman hjá okkur!

Skildu eftir svar