Ferðaþjónustan – gistináttaskattur

Home Umræður Umræður Almennt Ferðaþjónustan – gistináttaskattur

 • This topic is empty.
 • Höfundur
  Svör
 • #47217
  gulli
  Participant

  Svona í framhaldi af þræðinum Af afrekum ferðaþjónustunnar.

  Hvað segja ísalparar um þennan nýja skatt:

  http://visir.is/segja-skattheimtuna-arfavitlausa-og-ala-a-mismunun/article/2011111229965

  Er þessi skattur út í hött?

  Þarf almennt að skattleggja ferðaþjónustuna sérstaklega?

  Hvaða leiðir eru bestar?

  #57241
  0801667969
  Meðlimur

  Þekki nú lítið til rót þessara mála. Hef nú almennt fundist greinin komast full létt frá því að borga í sameiginglega sjóði landsmanna.

  Veit ekki hver hugmyndin eða rökin fyrir því að láta FÍ og Útivist ekki borga þennan skatt eru. Kannski Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ og formaður nefndarinnar sem samdi þetta kunni þessu betri skil.

  http://f4x4.is/index.php?option=com_jfusion&Itemid=228&jfile=viewtopic.php&f=7&t=30782

  Kv. Árni Alf.

  #57242
  Gummi St
  Participant

  Geri ráð fyrir að það séu þessi lög sem um ræðir
  http://www.althingi.is/altext/stjt/2011.087.html

  #57243
  Karl
  Participant

  Spurning hvort greiða verði gistináttagjöld í Bratta og Tindfjallaskála?

  Það að Ferðafélagið verði undanþegið gistináttagjaldi er nokkuð skondið.
  Ferðafélagið segist ekki stunda ferðaþjónustu og hefur tekist að koma sér undan ábyrgðum og trygginga og uppgjörsskyldu vegna ferðaskrifstofuleyfa sem allir aðrir þurfa að uppfylla.
  Nú hefur ferðafélagið einnig náð að koma sér undan gistináttagjaldinu og skondið að þeir sem gista í Landmannalaugum þurfa ekki að greiða gjaldið en þeir sem gista í Landmannahelli þurfa að greiða það?

  Hin hliðin á Ferðafélaginu er að það telur sig ekki eiga samleið með öðrum útivistarfélögum og hefur sagt sig úr Samtökum Útivistarfélaga.

  Af þessu má ætla að FÍ eigi hvorki samleið með útivistargeiranum né ferðaþjónustunni.

  Ætli þeir eigi höfði sínu að halla hjá Félagi Bókaútgefenda eða Bingósamtökum Lýðveldisins?

  #57251
  Steinar Sig.
  Meðlimur

  Ég sé ekki hvar í lögunum FÍ fær undanþágu. Einu sem virðast fá undanþágu eru þeir sem eru ekki virðisaukaskattskyldir skv. 50/1988. Er FÍ ekki virðisaukaskattskylt þegar að kemur að skálagistingu?

  #57252
  2806763069
  Meðlimur

  Nú er ég alveg rasandi brjálaður Árni. Hingað til hefur nú flest sem þú segir átt nokkurn rétt á sér þó að fortíðaþráin og nostalgían hafi stundum verið dáldið fram úr hófi!

  Greiði ég ekki mitt til samfélagsins? Ég veit ekki betur en að ég greiði hér skatta af laununum mínum og þeim vörum sem ég versla. Ég veit ekki betur en að þeir túrhestar sem ég þjónusta greiði sömuleiðis skatta af þeim vörum sem þeir kaupa hér á landi. Ferðaþjónustufyrirtæki greiða svo einnig skatt af t.d. eldsneyti sem þau nota – og það kæmi mér ekki á óvart ef sá skattur væri töluvert hærri en það fjármagn sem notað er í uppbyggingu vegakerfis á helstu ferðaþjónustustöðum (Sólheimajökull er einmitt einn af þeim). Svona þar sem ég sá tölurnar nýlega þá koma 19% af gjaldeyristekjum landsins í gengum ferðaþjónustuna. Eigum við eitthvað að ræða hvað ríkið kostar miklu til til að styðja við þessa gjaldeyrisöflun – svona í samanburði við fisk- og áliðnaðinn?

  Þetta er svona svipað og ef ég færi að væla yfir því hverskonar ómagi þú værir á okkur skattgreiðendum, vinnandi á skíðasvæði sem aldrei skilar hagnaði. Og gerandi það væri ég alveg að gleyma öllum þeim sem vinna við að selja skíðabúnað, skíðafatnað, skíðaferðir, skíðahjálma osf. og greiða af því VSK auk þess að greiða skatt af sínum launum. Ég væri einnig að leiða hjá mér þá staðreynd að stór hluti af þínum launum sem skrifast sem kostnaður á rekstur Bláfjalla fara einmitt beint í ríkiskassan aftur og koma aldrei við í þínum vasa.

  Ég á nú að venjast því að þín skrif séu örlítið ígrundaðari en þetta og vona svo sannarlega að sú verði raunin í framtíðinni.

  Hitt er svo annað mál að FÍ er ótrúlegt batterí. Þetta væri svosem allt í góðu ef þeir gerðu það sem þeir eiga að gera og þjónustuðu eingöngu sína félagsmenn. En þeir gera það ekki og því eru þeir á samkeppnismarkaði en lúta á engan hátt sömu lögum og reglum og aðrir aðilar á sama markaði. Reyndar á maður ekki von á öðru, alveg síðan þingmaðurinn góði reið um sveitir og lofaði niðurfellinu á öllum gjöldum af snjóflóða ýlum, enda öryggisbúnaður en ekki íþróttavörur, gegn því að hann yrði kosinn. Þegar hann svo var kosinn heyrðist ekki meira um það.

  Kannski sérstakur saksóknari sjái sér fært að skoða þessa markaðsmisnotkunn þegar hann er búinn með stóru karlana! Nei líklega ekki því ferðaþjónustan á bara að borga en ekki að vera sjáanleg að öðru leiti.

  Góðar stundir!

  #57254
  Skabbi
  Participant

  Ég skildi það nú ekki svo að Árni væri að halda því fram að þeir einstaklingar sem vinni í ferðaþjónustunni væru ekki að greiða nóg til samfélagsins. Er þetta ekki frekar spurning um það hvort ferðaþjónustan sem atvinnugrein skili því til ríkiskassans sem hún ætti að gera?

  Útgerðin borgar skatta af launum sjómanna og starfsmannna í landi, virðisauka af olíu og skatt af söluhagnaði á útfluttum afurðum. Þar að auki borgar útgerðin auðlindagjald vegna þess að hún nýtir sameiginlega auðlind allra landsmanna, fiskinn í sjónum.

  Ferðaþjónustan borgar vissulega skatta eins og aðrar stéttir, bæði launatengd gjöld og virðisauka. Báðar þessar greinar skila líka gjaldeyri til landsins sem ekki er vanþörf á. Ferðaþjónustan nýtir sér lika takmarkaða auðlind, náttúru Íslands, sem líka er eign allra landsmanna eins og fiskurinn. Við vitum það öll að staðir á borð við Gullfoss, Geysi, Landmannalaugar og Skaftafell verða fyrir verulegum átroðningi vegna þessa.

  Hver er grundvallarmunurinn á þessum tveimur atvinnugreinum? Okkur finnst flestum sjálfsagt að útgerðin borgi aukalega fyrir afnot á auðlindinni, af hverju finnst okkur ekki sjálfsagt að ferðaþjónustan borgi fyrir afnot af annari auðlind?

  Málið með FÍ er svo allt önnur Ella…

  Skabbi

  #57255
  Páll Sveinsson
  Participant

  Ágætis ámynning um að við verðum að muna skila inn okkar nefskatti fyrir hverja gistinótt í Bratta :-)

  kv.
  P

  #57259
  0801667969
  Meðlimur

  Mátti nú varla við svona ádrepu frá Ívari í dag ofan á flensu og tannlæknatíma í dag. Hvað rekstur skíðasvæðanna varðar þá eru þau langt frá því að vera yfir gagnrýni hafin þvert á móti. Kannski best sé að einkavæða bara allt.

  Ég held að eitt mesta mein samfélagsins er að menn sitja ekki við sama borð. Sama á við rekstur í hinum ýmsu atvinnugreinum samfélagsins. Í hótel- og veitingabransanum er mikil kergja . Flestir borga öll gjöld eins og lög gera ráð fyrir en aðrir koma sér hjá því. Og komast undarlega lengi upp með það. Þetta er náttúrulega algjörlgega óviðunandi staða fyrir heiðarlega aðila í greininni. Að hluta til virðist þetta líka eiga við ferðaþjónustuna. Hvernig er það rökstutt að sumir þurfi leyfi og borgi gjöld en aðrir ekki?

  Hvað launagreiðslur varðar þá tíðkaðist það að borga mestan hluta tekna í dagpeningum. Þetta er víst mikið breytt en tiðkast þó enn hjá einhverjum fyrirtækjum.

  Er eðlilegt að borga laun á þennan hátt og að þetta misræmi sé milli fyrirtækja? Mikill sparnaður fyrir viðkomandi en spurning hvort þetta sé eðlilegt.

  Hvað er annars þetta gistináttagjald margar krónur á nóttina?

  Kv. Árni Alf.

  #57261
  2806763069
  Meðlimur

  Humm! Ansi erfitt að bera saman ferðaþjónustu og sjávarútveg.

  – Þú munt ekki sjá eigendur ferðaþjónustufyrirtækja sem kjölfestu fjárfesta í næstu útrás bankanna.

  – Einu framseljanlegu og erfanlegu réttindin í ferðaþjónustu eru landnotkun landeigenda.

  – Það er engin Hafró sem sér um rannsóknir í ferðaþjónustu og þau opinberu framlög sem greinin fær eru ekki í neinu samræmi við það sem sjáfarútvegurinn fær eftir neinum mælikvarða.

  – Allir sem vilja afla sér tekjum af ferðaþjónustu verða að vinna fyrir því. Það er ekki hægt að selja óveidda túrhesta. Maður verður að landa þeim og gera að þeim sjálfur. Eina undantekningin frá þessu eru nokkrir landeigendur fyrir austan sem rukka jafnvel opinbera aðila fyrir myndbirtingar af þeirri náttúru sem sést af landi þeirra.

  Ég er hinsvegar mjög fylgjandi því að mögulegt sé að innheimta gjald af þeim aðilum sem nota viss svæði á landinu til að skapa sér tekjur. T.d. finnst mér að þeir aðilar sem starfa innan þjóðgarða eigi að greiða af því gjald. Þannig ættu þau fyrirtæki sem starfa sannarlega í Skaftafelli að greiða % af tekjum sínum þar, þessar tekjur ætti hinsvegar að nota staðbundið í verkefni sem beint eða óbeint nýtast þessum fyrirtækjum (og um leið þjóðgarðinum, gestum hans og öðrum sem þar starfa). Verkefnin eru víst næg.

  Sólheimajökull er svo annað dæmi – ef hægt væri að gera þeim fyrirtækjum sem þar starfa kleyft að byggja upp aðstöðu, bæta veginn inn eftir svo hann nýtist allt árið væri alveg örugglega grundvöllur til þess að þessi fyrirtæki greiddu hluta af sínum tekju til þjóðfélagsins – umfram það sem þau greiða núna með sköttum og gjöld líkt og aðrir.

  Það sama ætti að gera á öðrum svæðum. Menn eru sem dæmi aftur og aftur að ræða um uppbyggingu Geysissvæðisins. Engir peningar til og þessi auðlind þjóðarinnar er að drabbast niður af ágangi. Á sama tíma er rekin handan götunar sjoppa/veitingarstaður/ferðamannabúð sem ég get ekki ímyndað mér annað en að mali gull – á því að vera nálægt þessari perlu! Þjóðnýting er orð sem kemur upp í huga mér! Ekki ósvipað því og að eiga land þar sem ákveðið er að byggja virkjun – sem er þá keypt eða tekið eignarnámi svo auðlindin megi nýtast þjóðinni í heild til góðra verka.

  Það er hinsvegar gleði efni að Árni sé aftur farinn að skrifa af skynsemi . En hann er aðeins að misskilja mig því ég er síður en svo að lasta rekstur Bláfjalla – þvert á móti var ég að benda á að sá kostnaður sem fer í að halda svæðinu opnu er mjög líklega lægri en þær tekjur sem samfélagið hefur beint og óbeint af rekstri svæðisins. Mér þykir hinsvegar mjög miður að hafa komið illa við Árna – enda einkar gaman að eiga við hann rökræður hér.

  Enn og aftur hvet ég Árna fram á ritvöllinn á viðlesnari vetfangi en þessum. Þá mun hann líklega og vonandi frá mótsvör og stuðning frá klárari og víðlesnari mönnum en undirrituðum.

  Það skal svo að lokum tekið fram að þær skoðanir sem hér eru settar fram eru mínar og endurspegla á engan hátt skoðanir þess fyrirtækis sem ég starfa fyrir.

  En annars er Hardcore farinn að gefa mér hornauga fyrir það að sóa tíma mínum (og hans) í eins nytlausa hluti og að ræða efnahagsmál og politík á vefsvæði sem ætti að vera helgað fjallamennsku og öðru macho-dóti!

  Góðar stundir!

10 umræða - 1 til 10 (af 10)
 • You must be logged in to reply to this topic.