allir á Hnúkinn!

Home Umræður Umræður Almennt allir á Hnúkinn!

  • This topic is empty.
  • Höfundur
    Svör
  • #47596
    2806763069
    Meðlimur

    Nú er Hnúksvertíðin í algleymingi og henni fylgja nú sem fyrr allskonar mis gáfulegar og skemmtilegar uppákomur. Eftir nýafstaðna helgi bættust einhverjar kjaftasögur í sarpinn um uppákomur sem hefðu mjög auðveldlega getað leitt af sér stærsta slys og mesta mannfall í íslenskri fjallamennsku fram að þessu. En eins og svo oft áður skall hurð aðeins nærri hælum og þeir sem hlut áttu að máli (og við hin líka) ganga frá þessu (vonandi) reynslunni ríkari.

    Mig langaði í tilefni af þessu að besserwissast smá og dæmi hver fyrir sig um hversu gáfuleg eða viðeigandi orð mín eru.

    Það er einfaldlega þannig í huga almennings að það að hafa farið í gegnum þjálfun í bj.sv. jafngildir því að vera orðin gersamlega ósigrandi sérfræðingur í fjallamennsku. Við sem vitum betur vitum hinsvegar að þjálfunin er mjög misjöfn og að það er mjög misjafnt hvað hver og einn tekur með sér frá þeirri þjálfun.

    Fyrir þá sem fá nú hringingar frá vinnum, ættingjum eða rekstaraðilum sem vilja að viðkomandi fari með sig á Hnúkinn eru hér nokkrir punktar til umhugsunar.

    # Það er grundvallar atriði að geta ratað – GPS eitt sér er ekki nóg – menn verða líka að kunna að bjarga sér ef batteríin klárast.

    # Sprungubjörgun virðist vera ótrúlega flókin aðgerð. Ef menn ætla að geta framkvæmt sjálfs- eða félagabjörgun í erfiðum veðrum og aðstæðum ættu þeir að geta gert það í æfingaraðstæðum (uppi á jökli í snjó, ekki í bílskúrnum) eins og að drekka vatn. Sé lausnin einfaldlega að taka með sér nóg af prússikböndum, karabínum og öðru drasli og ætla bara að redda sér þá þýðir það einfaldlega að viðkomandi kann ekki til verka.

    # Sá sem fer fyrir hópi óreyndra ætti að hafa mikla reynslu og þekkingu sjálfur.

    # Verið tilbúin að snúa við í tíma.

    # Þeir sem þiggja laun fyrir að fara með aðra í ferðalög verða að hafa tilskilin leyfi til þess. Komi eitthvað upp á þá er mögulegt að þeir sem bera af því skaða eigi skaðabótakröfu á viðkomandi.

    Og nú veit ég að Sissi iðar í skinninu að vita hvað orsakar þessi skrif mín núna. Það sem gerðist um helgina var víst eitthvað á þá leið að ónefndur „gæd“ fann ekki leiðina niður af Hnúknum og ráfaði um með sína „viðskiptavini“ í um fjóra tíma í litlu skyggni og erfiðu veðri. Á þeim tíma var komið inn á erfið sprungusvæði (sumir segja verið við það að ganga fram af Hnúknum vestanmegin) og þá má leiða að því líkur að viðkomandi hafi ekki haft þekkingu til að bjarga sér eða öðrum úr sprungu í erfiðum aðstæðum, amk ekki á þeim hraða sem þyrfti til að koma í veg fyrir að aðrir í hópnum annað hvort færu sér á voða eða liðu af alvarlegri ofkælingu.

    Nokkrir gædar frá einhverju ferða“félagi“ tóku þá réttu ákvörðun á sama tíma að snúa frá þar sem farið var að fenna yfir sprungur og þeir sáu þær ekki (vitna í einn „félagsmanna“ þeirra sem var með í för). Það hlýtur að teljast ákaflega góð ákvörðun að snúa við ef menn treysta sér ekki til að ferðast um sprungusvæði án þess að sjá hvar sprungurnar eru og eiga viðkomandi skilið lof í lófa fyrir. Hinsvegar er kannski rétt að geta þess að sprungur í snjó sjást almennt ekki og því dálítið barnalegt að vera leiðsögumaður á Hvannadalshnúk og geta ekki ferðast um jökulinn án þess að sjá sprungurnar.

    Ég skil hinsvegar vel ef menn hætta við vegna þess að verður eru erfið og auka líkur á að fallið sé í sprungu. Í þannig aðstæðum hef ég oftar en ég hef tölu á einfaldlega snúið við – ég geri ráð fyrir að þannig að aðstæður verið á laugardaginn – enda er það ekki toppurinn sem skiptir máli heldur fyrst og fremst upplifunin af góðum degi á fjöllum!

    En bottom line: Á jöklum eru góðar líkur á slæmum veðrum svo menn verða að vera undirbúnir undir það. Fatnaður, leiðsögutæki, kunnátta. Þar eru einnig góðar líkur á að detta ofan í sprungu þannig að menn verða að vera búnir undir það, línuvinna, sprungubjörgun og viðeigandi búnaður. Sá sem hefur ekki mjög gott vald á þessum hlutum á ekki að taka að sér að ferðast með óvönu fólki, hann/hún á að afla sér reynslu með jafningjum sínum sem í sameiginlegu átaki geta vonandi leyst þau vandamál sem upp koma, eða læra af þeim sem hafa meiri reynslu.

    Góðar stundir
    Ívar F. Finnbogason.

    P.s. það er þunnt á sprungum á Öræfajökli, menn hafa jafnvel verið að stíga í geng á skíðum.

    #57720
    0311783479
    Meðlimur

    Fleiri en Sissi iða í skinninu við að fá öll smáatriði í þessu máli á hreint. Láttu nú allt gossa Ívar minn og ekki beisla Hardcore inn – hann þarf nefnilega að fá að blása gufu af og til!

    Um leið og menn rukka fyrir vinnuframlag þá er eðlileg krafa viðskiptarvinarins að vilja fagmennsku og vel rúmt „margin of error“

    kveðja
    Halli

    #57721
    2806763069
    Meðlimur

    Veit ekki meir. Kannski einhver á Njálsgötunni hafi þessa sögu með meiru kjöt á beinunum.

    Það nú líka þanngi að öllum geta orðið á mistök og stundum verða aðstæður öðurvísi en ætlað var – svo ég er að reyna að kasta ekki of stórum steinum svo rúðurnar í glerhúsinu mínu brottni ekki :)

    (þetta er ekki í fyrsta skipti sem gæd gleymir batteríum í GPS-ið sitt og einhverntíman týndi víst einhver 15 norðmönnum á Vatnajökli – allt hlutir sem eiga sér sínar eðlilegu skýringar, ekki satt?).

    #57722
    Karl
    Participant
    Ívar F Finnbogason wrote:
    # Þeir sem þiggja laun fyrir að fara með aðra í ferðalög verða að hafa tilskilin leyfi til þess. Komi eitthvað upp á þá er mögulegt að þeir sem bera af því skaða eigi skaðabótakröfu á viðkomandi.

    Ekki ætla ég að draga úr eldmessu Ívars um að menn valdi verkum sínum.

    Raunveruleikinn er hinsvegar sá að á Íslandi má Hver-sem-er leiðsegja Hverjum-sem-er, Hvar-sem-er og Hvenær-sem-er. Einu undantekningarnar sem ég man eftir í svipin eru störf hafnsögumanna og hreindýraveiðimannaleiðsögumanna sem krefjast opinbers stimpils.
    Það eru einfaldlega engin leyfi og reglur til um störf leiðsögumanna og Hver-sem er má leigja sér Hvaða-leiðsögumann-sem-er í Hvað-sem-er.

    Hinsvegar gildir það um öll mannanna verk að það skiptir máli að þau séu vel unnin og allir eiga að standa ábyrgir gerða sinna

    Síðan eru til reglur um formlega ferðaskipuleggjendur og ferðaskrifstofur, -en það er allt önnur ella.

    Svo er alltaf uppi spurningin um siðferðisleg gildi þess að draga fólk fótgangandi í þann djöfulskap að vandalisera skíðabrekkur á skósólunum…

    #57723
    1506774169
    Meðlimur

    Ég var umræddann dag ásamt mörgum fararstjórum umrædds ferðafélags sem Ívar er lítill aðdáandi að og sá til þessa hóps sem um ræðir. Þau grundvallarmistök virðast hafa verið gerð að fara á Hnúkinn úr broddastoppinu án þess að fararstjórar hafi tekið með sér bakpokana og því fór sem fór. Frostið var um 14° og rafhlöður því fljótar að tæmast ef menn voru ekki með tækin innan á sér. Skyggni var með versta móti þessa 4 tíma og snjó kyngdi niður sem er ekki óeðlilegt á þessum árstíma.
    Hnúkurinn sjálfur er óvenju brattur og mikið af sprungum undir nýsnævi sem gerði okkur erfitt fyrir með hátt í 100 manna hóp. Fremstu fararstjórar voru að stíga mikið niður í sprungur í 2030 til 2060 metra hæð og því ákveðið að fara ekki lengra með þennan mjög svo óreynda hóp. Skemmtunin var orðin næg.
    Þetta kallast á góðri íslensku að taka ábyrgð, annað væri kannski ef 10 manna hópur vanra væri að ferðast saman .. þá myndi maður fara út í frekari hardcorisma og leikaraskap en með svo stórann hóp gengur það einfaldlega ekki.
    Ég fékk fréttir af því að þessum hópi hefði verið ákaflega brugðið og sumir úr honum orðnir mjög framlágir og jafnvel örmagnaðir svo að sú reynsla hefur væntanlega verið mjög óskemmtileg og vona ég að viðkomandi jafni sig fljótt og missi ekki svefn.
    Annað veit ég ekki um málið.

    #57724
    Ólafur
    Participant
    Karl Ingólfsson wrote:
    Svo er alltaf uppi spurningin um siðferðisleg gildi þess að draga fólk fótgangandi í þann djöfulskap að vandalisera skíðabrekkur á skósólunum…

    Já, þetta er að sönnu sívaxandi vandamál, sér í lagi á SA horninu. Hér er freklega gengið á rétt skíðandi manna/kvenna. Spurning um að leggja málið í nefnd í SAMÚT? Að öðru leiti hefur eldklerkurinn Hardcore lög að mæla.

    #57726
    1902784689
    Meðlimur

    Ég bý á Njálsgötunni og hef ekkert heyrt af þessu, saklaus maður hér á ferð:)

    Er nefnilega búinn að fá símhringingar og kom af fjöllum!

    Förum varlega og hlunkumst til að læra af mistökum annara!!!

    Kv. Jón Heiðar

    #57727
    Páll Sveinsson
    Participant

    Gaman af svona hálfsögðum sögum. Þær gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.

    Hvernig er það Ívar átt þú ekki nokkrar svona sögur frá þér og þínum vinnufélögum sem þig langar að deila með okkur?

    kv. P

    #57728
    Sissi
    Moderator

    Það er löngu tímabært að hnykkja á þessu, við skulum ekki missa sjónar á því.

    Þeir sem hafa verið mikið á ferðinni þarna á vorin hafa flestir orðið vitni að bókstaflega glæpsamlegri háttsemi fólks sem kallar sig „gæda“ en hefur kannski lítið sem ekkert til að bakka það upp.

    Mér er í fersku minni gaurar með nokkrar línur sem mixuðu brjóstbelti á kúnnana úr prússik og pökkuðu svo saman línunum á toppnum og sendu alla niður lausa „því maður lendir ekki í sprungu á leiðinni niður“.

    Umræða er góð, við skulum ekki gleyma því. Og ég held að ef þessi umræða verður til þess að almenningur sé líklegri til að athuga hvort leiðsögumaðurinn þeirra sé traustins verður sé það hið besta mál.

    Það er í raun magnað að það hafi ekkert verulega slæmt gerst þarna miðað við apakettina sem eru þarna á ferðinni með hópa.

    Og nú vil ég taka fram að það er allt í lagi að vera apaköttur með vinum sínum ef maður fer eftir gullnu reglunni: „bannað að slasast“ og er ekki að fá greidd laun.

    Það fylgir ábyrgð því að vera í hlutverki leiðsögumannsins.

    #57730

    Haha, bý líka á Njálsgötunni og hef fengið símtöl, fleiri en eitt. Ég veit ekki meira en Ívar hefur þegar sagt. Heyrði þessa sögu reyndar en ekki frá fyrstu hendi. Held að það þurfi að leita í aðrar götur til að fá betri útskýringar :)

    Tek undir með Ívari… fara varlega, æfa sig og taka hlutverk sitt (sem gæd) alvarlega. Að skoða raunverulegar sprungur innanfrá er fróðleg og góð skemmtun, þ.e.a.s. ef það er gert viljandi og við kontróleraðar aðstæður.

    #57731
    2806763069
    Meðlimur

    Sæll Páll

    Ekki bara það að ég hef sjálfum náð mér í reynslu og sloppið frá því með skrekkinn síðstu árin heldur þar ég líka að svara fyrir allt það sem mínir ca. 30 gædar gera og ekki gera.

    Þannig að ég reyni að halda Hardcore litla aðeins í skefjum í þessu máli.
    En svona krassandi sögu á ég ekki, síðan þetta með Norðmennina þarna ´98.

    kv.
    Softarinn

    #57732
    2007552789
    Meðlimur

    Mér skilst að þetta sé rangt:

    Quote:
    Á þeim tíma var komið inn á erfið sprungusvæði (sumir segja verið við það að ganga fram af Hnúknum vestanmegin)

    Hins vegar get ég ekki tjáð mig um þetta mál að öðru leyti (af því að ég þekki ekki til þess nema örlítið af afspurn). En ég tek sannarlega undir mikilvægi þess að vera vel undirbúinn og skipulagður.

    Einar

    #57733
    0405614209
    Participant

    Blessaðan daginn.

    Ég er svo heppinn að ég fékk símtal frá Hnúknum þennan dag frá systur minni sem var í þessum hópi.

    Ég held að atburðarrásin hafi verið eitthvað í þessa líkingu:
    *Labbitúrinn upp (frá bíl og upp) tók lengri tíma heldur en ráð var fyrir gert þar sem einn af hópnum var ekki í eins fínu formi og vera ætti.
    *Þau skildu pokana eftir á sama stað og hópurinn sem fór upp á undan þeim og notuðu förin eftir fyrri hópinn og hóparnir mættust
    *Héldu á toppinn í förum fyrri hópsins og svo versnaði veðrið og fór að snjóa
    *Á bakaleiðinni af toppnum voru öll förin horfin og þau voru að paufast þarna um í einhverja 2 eða 3 tíma að finna leiðina niður.
    *ég er ekki alveg klár á því hvernig var með batterímálin á gps tækinu og hvort að menn voru með track til að fara eftir en það er svosem ekki mikil not í því að eiga punkt sem gæti verið hinum megin við hamarinn.
    *Það var heldur gloppótt gsm sambandið og eini punkturinn sem ég heyrði var minnir mig 64.00.910. Ég bjallaði í Einar í Hofsnesi og við vorum á því að þetta væri líklega við uppgönguleiðina norðanmegin þó svo að helminginn vantaði á hnitið.
    *Okkur leist best á að stinga uppá því við þau (ef gps tækið (best að vera með amk 2) væri kaput að koma sér niður, finna hamarinn, hlunkast ca 250 metra út með brekkuna á hægri hönd og taka svo áttavitastefnu á Dyrhamar og plampa niður Virkisjökulsleið.
    *Svo birti til og allir urðu ánægðir.

    Ég held að sá sem var að gæda sé vanur náungi með leiðsögumannadiploma. Hann var allavegana pollrólegur þegar ég heyrði í honum þegar þau voru þarna. Held að þeir sem voru óreyndari í hópnum hafi ekkert sérstaklega verið að fíla whiteout aðstæður og frost og eitthvað hark í kringum sprungur.

    Ég rakst á myndir frá þessu á Facebook: http://www.facebook.com/media/set/?set=a.10150870305097360.442433.740957359&type=1
    Myndasíða á FB
    Bestu kveðjur
    Halldór

    PS. Það getur svo vel verið að helmingurinn að ofanrituðu sé vitleysa í mér og hinn helmingurinn rugl.
    Það hringdi svo í mig áðan einhver gúbbi af Mogganum sem var að glugga í þetta sem er verið að skrifa hérna á vefinn. Hann var að leita að manninum sem var hringt í og svo þeim sem hringdi. Líklega kemur fréttin svo á morgun í blöðunum og þá liggur þetta vonandi allt ljóst fyrir.

    #57734
    Páll Sveinsson
    Participant

    Ég rakst á þetta á fésinu frá einum úr hópnum.

    Það ganga miklar tröllasögur af svaðilför á hnúkinn um síðustu helgi. Eftir að hafa lesið lýsingarnar vil ég segja eftirfarandi. Ég var í ferðinni. Þetta var mín fyrsta ferð á jökul. Ég fann aldrei fyrir óöryggi eða hræðslu og ekki varð mér kalt. Ég fékk ítarlegar leiðbeiningar frá leitoga hópsins sem hefur farið um eða yfir 20 ferðir á hnúkinn áður.Ég fylgid þeim. Það skall á blindbylur á meðan við vorum þarna uppi og við fórum varlega í að fara niður. Við glímdum við sprungur og við glímdum við veður og tóm batterý en fyllsta öryggis var gætt allan tímann. Engin óþarfa áhætta tekin og ég færi með leiðtoga hópsins aftur á morgun á hnúkinn ef sú staða kæmi upp. Hann stóð sig frábærlega við erfiðar aðstæður. Allar ákvarðanir hans voru skynsamlegar og teknar með hag heildarinnar að leiðarljósi. Hættið að tala og farið á toppin sjálf.

    kv. P

    #57735
    Karl
    Participant

    Ég veit ekkert um þetta mál.
    Finnst samt glitta í það viðhorf hjá halarófuskósólagædum ákveðins fyrirtækis að þeim finnist ekki alltaf mikið til koma um ferðir og framgöngu samkeppnisaðila.
    Stundum nálgast þetta atvinnuróg sbr komment hér að ofan um starfsleyfi leiðsögumanna sem eru helber uppspuni.
    Slík umræða á ekkert erindi a heimasíðu áhugamanna um fjallamennsku.
    Atvinnunöldur á frekar heima á e-h spjallborði Samtaka Ferðaþjónustunnar.

    #57736
    1811843029
    Meðlimur

    Það er best að taka þátt í þessari líflegustu umræðu sem hefur verið hér á spjallinu lengi.

    Ég tek undir með fyrri ræðumönnum að það skal fara varlega í gagnrýna gjörðir og ákvarðanir annarra eftirá, sérstaklega ef maður var ekki sjálfur á staðnum.

    Hinsvegar er alveg ljóst að það er margt misjafnt að gerast í þessum hnjúkaferðum á vorin og margir af þeim sem eru að taka að sér að leiða hópa þarna upp eru alls ekki með þá reynslu og þekkingu sem til þarf. Umræða um þetta er holl og góð.

    Ég verð nú líka að segja að mín skoðun er sú það er ekki gáfulegt að skilja eftir bakpokann sinn þegar maður er staddur á hæsta jökli landsins! Ég veit ekki hversu oft ég hef útskýrt þetta fyrir mínum kúnnum, að við skiljum ekki pokana eftir því veður getur breyst og ef eitthvað kemur uppá er gott að hafa búnaðinn sinn með sér, til þess er hann jú. Þetta vita allir reyndir leiðsögumenn.

    En þar sem við búum við þann raunveruleika að hver sem er getur kallað sig sérfræðing í fjalla ferðum þá er ljóst að misreynt fólk tekur að sér að leiða hópa á fjöll og jökla. Það er algengur misskilningur að það sé nóg að hafa farið nokkrum sinnum á fjöll til að geta svo farið að leiða óvana.

    Það kunna margir að negla nagla, en ekki þar með sagt að þeir séu smiðir;-)

    Atli Páls.

    #57737
    Karl
    Participant

    Út um allan heim eru gædar að hneykslast á minni spámönnum og sjálfsagt hafa margir Ísalparar upplifað freka leiðsögumenn í Ölpunum að olboga sig um ásetnar leiðir og fulla fjallaskála. Erlend umræða hjá alpaklúbbum er yfirleitt í þá áttina að almennir félagsmenn eru að úthúða frekum gædum. -Gædarnir nöldra svo á eigin vetvangi.
    Greinin hans Ívars er illa skfrifuð og tveir Ísalparar af Njálsgötunnu þurftu að ósekju að taka hér til varna.
    Samanburðurinn við smiðina er arfaslakur. Enginn má kalla sig smið nema hafa þar til gerða opinbera pappíra.

    Hér er ágæt nöldursíða þeirra sem fást við ferðaþjónustu:
    http://www.facebook.com/groups/86880934649/

    #57738
    1811843029
    Meðlimur

    Nei heyrðu Karl, talandi um nöldur. Þó að beisk reynsla þín af gædum í öðrum löndum sé vissulega áhugaverð þá er það nú ekki það sem menn eru að ræða hér. Þetta hágæða nöldur myndi sóma sér mikið betur í sérstökum þræði eða jafnvel sem grein í næsta ársriti, yfirgangur í ölpunum gæti hún heitið.

    Hvaða skoðun sem menn hafa á þeim sem hafa atvinnu af leiðsögn þá hljóta allir að vera sammála um að fólk sem gefur sig út fyrir að leiða óvana um fjöll og jökla verður að hafa til þess mikla reynslu og kunnáttu.

    Mér finnst líkingin við smiðinn skrambi góð og Karl bendir einmitt á það sem ég var að meina, smiður þarf opinbera pappíra enda alvarlegt mál að smíða hús sem hrynja…en af hverju er eðlilegt að hver sem er geti leitt óvana gegn gjaldi á hæsta fjall landsins?

    #57739
    2806763069
    Meðlimur

    Sæll Karl

    Ég er ekki hafinn yfir gangrýni frekar en aðrir og verð satt best að segja að það renna á mig tvær grímur þegar DV er komið í málið. Það var ekki planið en svona eftir á að hyggja kannski jafn fyrirsjálnlegt og lélegt skyggni á Hvannadalshnúk.

    Hugmyndafræðin á bakvið þetta var fyrst og fremst að vekja þá sem núna er verið að sjanghæa í ferðir á Hnúkinn og viðlíka fjöll aðeins til umhugsunar um að það er ekki alltaf einfalt mál að bera ábyrgð á öðrum á fjöllum, hvort sem ábyrgðin er lagaleg eða bara sú sem við berum almennt á samferðarmönnum okkar.
    Menn þurfa hinsvegar ferðaskipuleggjenda-leyfi til að bjóða upp á afþreyingarferðir. Það er ekki atvinnurógur – það er bara þannig! Hefur samt ekki neitt með hæfni að gera.

    Þetta með Njálsgötuna var nú bara svon insider djók fyrir Halla – en auðvitað býr helmingurinn af öllum fjallamönnum landsins á Njálsgötunni. Ég held að það hafi ekki valdið neinum verulegum óþægindum en biðst að sjálfsögðu velvirðingar á því hafi það gerst.

    Þetta með bakpokana er svo mest lýsandi dæmið af öllum. Hafi menn virkilega hugsað málið til enda hlýtur niðurstaðan að vera að maður vill hafa öll auka föt og annað sem í bakpokanum leynist meðferðis þegar farið er upp í versta veðrið og verið er að fara yfir stærstu sprungurnar. Hafi menn ekki hugsað málið til enda þá ættu þeir kannski að leggjast aðeins yfir það áður en þeir fara með hóp af óvönum á fjöll.

    Ég sé því ekki eftir að hafa hafið þessa umræðu, ég mun ekki hefja hana á öðrum vettfangi því ég tel þetta vera þann vettfang sem nær til þeirra sem eiga að heyra. Og þeir sem ekki hafa áhuga og sjá ekki skemmtanagildið í þessu munu líklega bara sleppa því að lesa svona umræður.

    Góðar stundir,
    Softarinn

    #57740
    Karl
    Participant
    Ívar F Finnbogason wrote:
    Sæll Karl
    Hugmyndafræðin á bakvið þetta var fyrst og fremst að vekja þá sem núna er verið að sjanghæa í ferðir á Hnúkinn og viðlíka fjöll aðeins til umhugsunar um að það er ekki alltaf einfalt mál að bera ábyrgð á öðrum á fjöllum, hvort sem ábyrgðin er lagaleg eða bara sú sem við berum almennt á samferðarmönnum okkar.
    Menn þurfa hinsvegar ferðaskipuleggjenda-leyfi til að bjóða upp á afþreyingarferðir. Það er ekki atvinnurógur – það er bara þannig! Hefur samt ekki neitt með hæfni að gera.
    Góðar stundir,
    Softarinn

    Sæll Ívar, ekki ætlaði ég að fara í e-h umræðu maður á mann og er satt að segja ligeglad yfir þessu öllu og tengist hvorki rekstraraðiliðum eða ferðafélögum.

    Ég blandaði mér í umræðuna út af villandi texta þínum sem ég vitna til í fyrsta innslaginu.
    Sýnist að þú sért ennþá að rugla saman leyfisskyldri starfsemi á borð við það að bjóða til sölu ferðir (ferðaskipuleggjandi) og því að starfa sem leiðsögumaður sem er ekki leyfisskyld starfsemi.
    Hver sem er má taka að sér leiðsögn fyrir hvern sem er og skiptir ekki máli hvort kaupandi að þjónustu leiðsögumannsins er skráður ferðaskipuleggjandi, saumaklúbbur, Dúddi Begg (hann býr ekki á Njálsgötunni) eða hjólbarðaverkstæði. Það er hinsvegar leyfisskylt að bjóða ferðir á Hnjúkinn en engin leyfi þarf til að taka að sér slík störf eða bjóða sína þjónustu sem frílans gæd á hvaða fjall sem er.

    Hugsanlega felst munurinn í því að frílans gæd má frá greitt með eingreiðslu eða tímagjaldi en ferðaskipuleggjendaleyfi þarf til að selja þjónustuna á hausagjaldi.

    Það er svo annað mál hvort ástæða er til að breyta þessu fyrirkomulagi og hvaða kröfur eigi að gera til þeirra sem leiðsegja við hinar eða þessar aðstæður

    #57741
    Karl
    Participant

    Datt í hug í frh af þessari umræðu… -Fyrir 30 árum tóku sig saman nokkrir ÍSALPARAR og stofnuðu Félag Íslenskra Fjallaleiðsögumanna. Mig minnir að Helgi Ben, Pétur Ásbjörns, Ágúst Guðmundsson Addi Blöndal, Torfi, Anna Lára og nokkrir fleiri hafi verið í þessum hóp. (man að e-h þeirra var seinna í nöp við firmanafnið „Íslenskir Fjallaleiðsögumenn“ -þótti að samtökunum vegið þó svo að þeir hafi flestir verið hættir þessu brölti á þeim tíma!)
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=119850&pageId=1602280&lang=is&q=fjallalei%F0s%F6gumenn

    Þetta var víst frekar óformlegt en markmiðið var að snapa e-h verkefni og halda upp standard á þessu sviði.
    Í sjálfu sér væri gott mál að endurvekja þessi samtök, kjósa Helga Ben sem ævifélaga eða lukkudýr og koma þessari umræðu uppúr skotgröfum einstakra fyrirtækja.

    #57742
    aronreyn
    Meðlimur
    Ívar F Finnbogason wrote:
    Það er einfaldlega þannig í huga almennings að það að hafa farið í gegnum þjálfun í bj.sv. jafngildir því að vera orðin gersamlega ósigrandi sérfræðingur í fjallamennsku. Við sem vitum betur vitum hinsvegar að þjálfunin er mjög misjöfn og að það er mjög misjafnt hvað hver og einn tekur með sér frá þeirri þjálfun.

    Veit ekki betur en þú hafir hringt grátandi ofan af Vatnajökli fyrir þremur árum til þess að fá „frítt far niður“ hjá björgunarsveit. Held þú ættir að sýna aðeins minni hroka gagnvart þeim eru að leggja fram tíma og peninga við að bjarga þér og hundskast til að biðjast afsökunar… já og skammastu þín svo þarna í glerhúsinu.

    #57743
    1707844219
    Meðlimur
    Aron Reynisson wrote:
    Veit ekki betur en þú hafir hringt grátandi ofan af Vatnajökli fyrir þremur árum til þess að fá „frítt far niður“ hjá björgunarsveit. Held þú ættir að sýna aðeins minni hroka gagnvart þeim eru að leggja fram tíma og peninga við að bjarga þér og hundskast til að biðjast afsökunar… já og skammastu þín svo þarna í glerhúsinu.

    Kaldhæðni skilar sér stundum illa yfir internetið. Með það í huga er ég þó alls ekki viss um að það sé tilfellið núna. Misskildirðu það sem var skrifað, sem þú vitnar til eða vitnaðirðu í rangan texta? Biðjast afsökunar á hverju?

    Einhver wrote:
    Það er einfaldlega þannig í huga almennings að það að hafa farið í gegnum nám hjá einkaþjálfarskóla jafngildir því að vera orðin gersamlega alvitur einkaþjálfari. Við sem vitum betur vitum hinsvegar að þjálfunin er mjög misjöfn og að það er mjög misjafnt hvað hver og einn tekur með sér frá þeirri þjálfun.
    #57744
    Karl
    Participant
    Aron Reynisson wrote:
    Veit ekki betur en þú hafir hringt grátandi ofan af Vatnajökli fyrir þremur árum…..

    Er það þetta sem þú átt við?

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/05/09/bjargad_af_vatnajokli/

    http://www.isalp.is/forum/9-skiei-og-bretti/8583-hardcore-i-tjaldi.html

    Spurning hvort enn sé það mikill snjór í Bláfjöllum að Árni geti tekið jöklagædana á námskeið?

    #57745
    1811843029
    Meðlimur

    Jæja góðir hálsar

    Ég vill bara minna menn á að vera málefnalegir og gæta hófs í skrifum sínum.

    Atli Pálsson
    Formaður Isalp

25 umræða - 1 til 25 (af 34)
  • You must be logged in to reply to this topic.