Re: Re: Ævintýri í Óríon – framhald

Home Umræður Umræður Ís- og alpaklifur Ævintýri í Óríon Re: Re: Ævintýri í Óríon – framhald

#57194
Skabbi
Participant

Annar hluti

Takk fyrir viðtökurnar gott fólk, gaman að fá smá umræður í gang.

Áður en ég vendi mér í framhald sögunnar ætla ég að koma nokkrum atriðum á framfæri. Þessi frásögn átti ekki að vera hetjusaga á nokkurn hátt heldur raunsönn lýsing á fokki sem við lentum í en náðum blessunarlega að leysa. Það var enginn sérstaklega töff eða ótöff, menn tóku ákvarðanir, sumar til gagns en nokkrar til ógagns. Ég stóð sjálfur fyrir mestu glappaskotunum, sem er langt frá því að vera töff í svona aðstæðum. Vonandi geta aðrir lært e-ð á þessu, ég gerði það allavega.

Flestar self-rescue bækur og greinar sem ég hef lesið í gegnum tíðin eiga það sameiginlegt að miðast við klettaklifur og þurrviðri. Þar beita menn allskyns flottum aðferðum til að klifra upp og niður línur til að losa festur. Í mörgum tilfellum eru prússikhnútar notaðar í slíkar tilfæringar enda eiga nokkur prússikbönd að vera staðalbúnaður allra klifrara. Enn sem komið er hef ég ekki rekist á grein sem lýsir því hvernig best sé að eiga við hrímaðar og ísaðar línur. Það kom nefnilega berlega í ljós þegar við ætluðum að beita þessum þekktu aðferðum um línutog og klifrun að prússikhnútar og bönd hafa ekkert hald á ísaðri línu. Allar vangaveltur um að klifra upp línurnar með prússikhnútum eru því gagnslausar í aðstæðum sem þessum. Sama gildir um að setja upp dobblun til að toga í línurnar, það einfaldlega virkaði ekki. Þegar hér var komið sögu voru línurnar farnar að ísast það mikið að meiriháttar vandræði hefðu fylgt því að færa hvaða línutól, T-block eða júmmara eftir línunum.

Eftir talsverðar bollaleggingar var því orðið ljóst að tveir kostir væru í stöðunni; að skera lengri endann og síga niður á ca. 15 metra stubb og skilja restina eftir, eða klifra upp aftur og losa línuna. Það hefði líklega tekið okkur amk 5 ef ekki 6 sig að komast niður neðri spönnina á stubbnum, auk þess sem við vorum ekkert sérlega spenntir fyrir því að eyðileggja eina línu og skilja hina eftir.

Það varð því úr að við lögðum hausinn í bleyti til að finna út úr því hvernig hægt væri að komast upp aftur og losa línuna á sæmilega öruggan hátt. Að lokum komum við niður á eftirfarandi aðferð: Reverso í autoblock mode var fest í belay lykkjuna á þeim sem skyldi klifra. Tólið er því í raun á hvolfi þannig að það læsist ef klifrarinn sest í línuna en hægt er að toga línu í gegnum það ef engin þyngd er á því. Þar sem ég hafði sett upp akkerið sem varð til þess línan fraus föst tók ég þetta hlutverk að mér. Til verksins fékk ég eina höfuljósið sem ennþá virkaði.

Fyrstu metrarnir gengu þokkalega, ég gat klifrað ca tvo metra í einu, stoppað og strákarnir togað línu í gegnum reversóið. Eftir því sem ofar dró jókst ísingin á línunni þannig að erfiðara var að ná henni í gegnum tólið. Þá var líka farið að verða verulega óþægilegt að láta toga í sig neðanfrá. Ég settist því í línuna og notaði axirnar til að skafa ísinn af línunni eins langt frá mér og ég náði. Síðan klifraði ég lengra, stoppaði og togaði sjálfur línuna í gegn. Nokkrum sinnum á leiðinni setti ég inn skrúfu til að setjast í á meðan ég vann ísinn af línunni, tók hana svo aftur úr þegar ég hélt áfram. Það þarf varla að taka það fram að þessi aðferð tók óratíma. Efst í spönninni var línan hreinlega komin á kaf í ísinn þannig að það var ljóst að við hefðum aldrei átt minnsta möguleika á því að losa hana neðanfrá. Línan hafði brotið skarð í barminn á lóninu efst þannig að vatn flæddi beint niður hana með fyrrgreindum afleiðingum.

P1020204-edit.jpg

Þegar upp var komið losaði ég línuna úr þræðingunni og leitaði að hentugri stað nær brúninni. Ómögulegt var að útbúa þræðingu, ísinn til hliðar við lónið var of þunnur, þannig að ég endaði með því að skilja eftir skrúfu og karabínu ofaní lóninu. Þegar ég seig aftur niður reyndi ég að koma í veg fyrir að línan legðist á brúnina eins og fyrra siginu. Svo dreif ég mig niður í stansinn til strákanna.

Blessunarlega gátum við nú dregið línuna til okkar og komist niður. Allir vorum við orðnir svangir og þreyttir, ég af púli, strákarnir á því að norpa í stansinum í fleiri klukkutíma.

Seinni sigin gengu vel þrátt fyrir allt og gangan út Flugugil líka. Ég fann meirað segja höfuðljósið mitt aftur fyrir neðan fyrsta aðkomuhaftið.

Lærdómur:

Aldrei að vanmeta nauðsyn þess að vera með höfuðljós í svona klifri, og auka batterí. Að sjálfsögðu hefði ég átt að taka mér smástund í að síga eftir ljósinu þegar ég missti það. Í þessu tilviki hefði ég líklega náð að hlaupa uppfyrir neðstu höftin og hitta strákan fyrir neðan aðalfossinn. Maður hefur komist upp með svona heimskupör áður og verður værukær.

Þegar tveir okkar klifruðu efri spönnina í Óríon skildum við einn eftir í stansinum. Það var ekki sérstaklega skynsamlegt. Ef við hefðum lent í vandræðum í þeirri spönn eða uppi á brún hefði hann getað verið fastur í stansinum með enga línu.

Staðsetningin á toppakkerinu var út úr kortinu í þessu tilfelli. Þegar rennslið og bleytan á toppnum var með þessu móti er fullkomið rugl að hafa akkerið svona langt frá brúninni. Ég hefði átt að sjá það þegar fyrri maðurinn seig niður í stans, og færa akkerið. Aftur eru þetta heimskupör sem maður hefur gert áður og sloppið með það.

Sjálfsbjörgun á ísuðum línum er tómt vesen. Ég veit ekki hvort við duttum niður á bestu aðferðina, eða góða aðferð yfir höfuð, en hún virkaði allavega fyrir rest. Ég er enn ekki viss um að til góð lausn í svona stöðu en það borgar sig allavega að hugsa út í svona hluti.

Eitthvað fleira?

Takk fyrir að lesa

Skabbi