Ólafsfjarðarmúli

Allar upplýsingar eru fengnar út leiðavísinum „Ólafsfjarðarmúli“ eftir Sigurð Tómas Þórisson og Jökul Bergmann.

Almennt:

Milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar liggur hinn frægi Ólafsfjarðarmúli. Alræmdur forðum fyrir hinn ófrýnilega og varasama veg fyrir Múlann en eftir að jarðgöngin gegnum voru opnuð árið 1991 hefur orðspor hans heldur batnað. Afar víðsýnt er til flestra átta og m.a. er vinsælt meðal norðanmanna að gjóa á miðnætursólina af gamla veginum á sólstöðum en einnig er fríð sín til austurs á Látraströndina. Fyrstu heimildir um ísklifur í Múlanum eru frá byrjun árs 1983 þegar Gunnlaugur Sigurðsson og Vilhelm Hallgrímsson klifur fossinn Míganda og Lambaskersfoss. Mígandi hefur líklega verið með mestu afrekum síns tíma í ísklifurbransanum og því óhætt að segja að þeir félagar hafi verið miklir brautryðjendur. Fóru þeir einnig tvær klettaklifurleiðir á svæðinu að sumri og eru nokkrir glæsilegir veggir í Múlanum sem prýða mætti með klettaklifurleiðum til að bæta flóruna af slíku í Eyjafirðinum. Í þessum leiðarvísi eru tíundaðar 12 ísleiðir en efni er eflaust í ca. 20-30 leiðir í viðbót af öllum erfiðleikastigum.

Svæðið er margskipt og gerir sjógangur og brattar skriður aðkomu að stórum hluta svæðisins erfiða eða ómögulega. Hefur því enn sem komið er aðeins verið brölt á tveimur megin svæðum, þar sem aðkoma er sæmilega greið. Eina leiðin sem sést vel frá veginum þegar ekið er frá Dalvík er Mígandi sem fellur vatnsmikill fram af 70m háu klettanefi sem aðskilur Flæðarmálið og Vogana en það eru þau svæði sem mest hefur verið prílað í. Er leitun að hrikalegra og tilkomumeira ísklifursvæði. Langar leiðir af öllum kalíber með urrandi brimið í baksýnisspeglinum geta ekki annað en heillað alla sem hingað koma. Tilvalið er að slá saman ferð í Múlann og Kaldakinn og/eða skíðaferð í Eyjafjörðinn enda glæsileg skíðasvæði á Tröllaskaganum og yfirleitt nóg af snjó allan veturinn, svo ekki sé minnst á alla möguleikana til fjallaskíðaiðkunar og alpaklifurs. Opnun Héðinsfjarðarganga hefur verið bylting fyrir ísklifrara og fjallaskíðafólk, því nú er aðeins um 20 mín akstur milli Dalvíkur og Siglufjarðar svo dæmi sé tekið.

Um ísklifrið:

Á svæðinu eru nú 12 skráðar ísleiðir en enn eru margar línur ófarnar á svæðinu af flestum erfiðleikastigum. Hugsanlega eru einhverjar leiðir sem farnar voru fyrir margt löngu eignaðar öðrum í seinni tíð en það er lítið við því að gera enda lítið til af heimildum um klifur á svæðinu. Lengd leiða á svæðinu er frá 10-20m nýgræðingsleiðum allt upp í ófarnar massívar 100m+ mixleiðir og að sjálfssögðu öll flóran þar á milli. Erfiðleikar skráðra leiða enn sem komið er er allt frá WI3 upp í WI6+ R. Léttari leiðirnar eru flestar í Flæðarmálinu og í Svartskeggi (svæði A og D) og þær erfiðari í Sjóræningjavogi og Plankanum (svæði C og B). Mælt er sérstaklega með leiðunum Míganda (WI4+ klassík), Gale Force (WI5) og Surfs Up (WI5+). Svæðið Ytri-Vík um 4km sunnan við Flæðarmálið býður upp á nokkurn fjölda ófarinna 20-30m leiða beint ofan við fjöruna. Aðkoma er sunnan við víkina og er hún sæmilega greiðfær en betra er að fara inn á fjöru. Best er að sjá svæðið á leiðinni til baka til Dalvíkur til að átta sig á hvar best er að stoppa.

Gisting:

Annar höfunda og fjölskylda rekur ferðaþjónustu á bænum Klægshóli í Skíðadal og getur hann hýst 12 manns. Fyrirtækið heldur úti heimasíðu á slóðinni www.bergmenn.com. Um 30 mín akstur er frá Klængshóli út í Múlann auk þess sem fjölda ísklifurleiða er að finna í fjallinu Stólnum í Skíðadal og Búrfellshyrna í Svarfaðardal með sitt alpatvist er í skotfjarlægð sem og hin margrómaða leið Kerlingareldur (enn ófarin um vetur…) Gistingu er einnig að fá á nokkrum gististöðum á Dalvík. Upplýsingar er hægt að nálgast á www.dalvik.is Einnig er hægt að gista á fjölda gististaða á Akureyri, upplýsingar á www.akureyri.is

Leiðarlýsing

Frá Dalvík er nokkura kílómetra akstur (í átt til Ólafsfjarðar) að svæðunum og um 10 mín gangur, brölt eða sig að leiðunum þaðan. Frá Akureyri er 44km akstur til Dalvíkur og bein leið frá Reykjavík til Dalvíkur er 405km. Til að komast að Flæðarmálinu er ýmist hægt að leggja úti í vegkanti þar sem vegriðið inn að göngunum byrjar eða leggja á flötu malarplani rétt neðan við vegriðið (ófært ef snjóþungt er). Frá veginum/planinu er gegnið beina leið niður í fjöru sunnan megin við planið eftir litlu lækjargili. Eftir fjörunni er svo gegnið til norðurs nokkur hundruð metra þar til komið er að fyrstu leiðunum. Aðkoma að nyrstu leiðinum þarna er erfið á flóði því skjótast þarf út á klettafjöru út fyrir nokkur lítil klettanef og er því vissara að fara á fjöru (og vera viss um að komast upp á brún eða bíða eftir næstu fjöru til að komast til baka...) Til að komast að Vogunum er bílnum lagt þar sem gamli Múlavegurinn klýfur sig upp í hlíðina frá gangaveginum (nokkur hundruð metrum lengra en Flæðarmálið). Þaðan er gengið beint niður brekkuna í átt til sjávar og eru nokkrir möguleikar á niðurleið þar.
a) Brölt niður greinilegt gil beint neðan við Múlaveginn
um 15m sunnan við Míganda. 1.-2. gráðu ís/snjó-
brölt niður nokkra klakabunka koma manni niður á stóra
syllu ofan við brimið. Sunnan við gilið eru möguleikar á
nýjum leiðum af ýmsum gerðum en norðan við er sjálfur
Mígandi. Ef gengið er norður fyrir Míganda blasa við
Vogarnir og er gott aðgengi alla leið í þriðja vog
(Svartskegg).
b) Síga niður í Sjóræningjavog á sigakkeri ofan við Rip
Tide. Akkerið er tveggja bolta og staðsett á stórum
steini ofan brúnar, um 85m norðan Míganda. NB Þarf
80m línu! Lítil varða er ofan við akkerið.
c) Síga niður í Sjóræningjavog á sigakkeri ofan við Surfs
Up, 125m norðan við Míganda. NB Þarf 80m línu!
Lítil varða er ofan við akkerið. Þetta er án efa besta
sigleiðin í Vogana!
d) Síga niður í Sjóræningjavog á sigakkeri ofan við Gale
Force, 160m norðan við Míganda. NB Þarf 70m
línu! Akkerið er tveggja bolta á klettaslabbi nyrst og yst
í áberandi litlu gili sem steypist fram af hömrunum. Lítil
varða er ofan við akkerið. Þetta er án efa besta
sigleiðin í Vogana!
e) síga niður fossinn Míganda en hann er eini fossinn
sem býður upp á möguleika á V-þræðingu uppi á brún.
Hafa ber í huga að á háflóði og í miklu brimi er hætta á
óvæntu baði og að ekki þarf að spyrja að leikslokum ef
manni skrikar fótur og endar í sjónum á þessu svæði!

Kort

Skildu eftir svar