Re: svar: Fréttir af Ísalp-klifri?

Home Umræður Umræður Almennt Fréttir af Ísalp-klifri? Re: svar: Fréttir af Ísalp-klifri?

#52101
2008633059
Meðlimur

Hérna kemur stutt frásögn af jólaklifri ÍSALP núna á laugardaginn.

Stjórn ÍSALP auglýsti fyrir nokkru jólaklifur sem undirritaður skráði sig að sjálfsögðu í, engin spurning að taka þátt í öllu skemmtilegu sem klúbburinn stendur fyrir. Stefnan var sett upp í Elífsdal, veðrið eins og best gerist og hélst þannig allan daginn, gott skjól í dalnum fyrir vindi fyrir utan smá ofanfok af fjallinu þegar á leið. Að því er best varð séð voru flestar leiðir í góðu standi þrátt fyrir asahláku vikuna á undan.

Eftir þetta venjulega brekkutölt, pælingar í kennileytum og nokkrar frægðarsögur af klifi á þessum slóðum (ásamt fínum tipsum um hvernig hægt er að bjarga sér ef WC rúllan gleymist heima) var komið að verkefni dagsins, Einfara sem var í fínum aðstæðum. Broddar voru því spenntir á og axirnar mundaðar. Þótt það komi málinu ekkert við þá lúkkaði undirritaður svo sem ekki neitt vel með fetlana á sínum öxum, en til allrar hamingju voru legghlífarnar látar óhreyfðar í bakpokanum.

Hópurinn sem taldi sex manns skipti sér í tvær línur og síðan hófst bröltið. Reynsluboltarnir sem fullyrtu fyrst að að þetta væri nú bara klassísk 3ja gráða voru samt eitthvað farnir að tala um „stífa 3ju gráðu“. Þeir sem voru með tæknina á hreinu fóru þetta samt áreynslulaust án meðan aðrir lömdu og spörkuðu ísinn af öllum kröftum, lafmóðir og svitastorknir. Allir hreyfðust samt upp á við og kláruðu fyrstu spönnina.

Í annarri spönn fór svo að verða virklega gaman, ekki síst eftir að einhverjir tóku upp á því að taka teygjustökk í línunum og jafnvel að fleygja frá sér öxum í leiðinni. Það var meira að segja stungið upp á því að endurskíra leiðina Eplatré með vísun til ofþroskaðra ávaxta sem eiga til að falla til jarðar. Þarna skildu leiðir, á meðan sumir sigu bara niður kröfsuðu aðrir sig áfram upp í gegnum tortryggt ísfrauð og síðan snjóhengu á brúninni. Hlýtur að hafa verið mikið afrek því fagnaðarópin heyrðust langt niður í dal!

Þeir sem ekki fóru alla leið upp voru komnir í bæinn um hálf átta en hinir að verða níu. Að sjálfsögðu fóru allir beint í jólaglögg klúbbsins og skemmtu sér vel. Þetta var glæsileg ferð og vil ég þakka ferðafélögunum, Freysa, Skabba, Bjögga, Gulla og Braga fyrir skemmtilegan dag!

JLB