Re: svar: Afrek helgarinnar?

Home Forums Umræður Ís- og alpaklifur Afrek helgarinnar? Re: svar: Afrek helgarinnar?

#52257
Skabbi
Participant

Eftir árangurslítinn eltingaleik við snjóinn á laugardaginn (tvöþúskall fyrir eina ferð í diskalyftinnu, sæll?!) var ákveðið að snúa sér að fastari miðli.
Við keyrðum því fjórir, ég, Bjöggi, Gulli granít og Robertino, til Grundarfjarðar og ætluðum okkur stóra hluti í Mýrarhyrnunni daginn eftir.
Að sjálfsögðu var ákveðið ræs í bítið og tekin stuttur hringur á alla bari bæjarins.
Gangan inn eftir tók ögn lengur en ráð var fyrir gert. Er þar helst um að kenna gríðarlegu fannfergi sem plagar Grundfirðinga þessa dagana. Bjöggi og Gulli ákváðu að stefna á svokallað Þvergil fyrir miðri Hyrnunni. Mjög löng stölluð leið sem nær upp í stóra skál og þaðan alla leið upp á topp. Leiðin hefir ekki verið skráð í annála Ísalp en mér þykir ekki ólíklegt að e-r hafi farið þar upp, allavega höfum við Björgvin gert tilraun til þess áður. Þá flúðum við með skottið milli lappanna þegar efri hlutar leiðarinna ákváðu að bregða sér bæjarleið í eftirmiðdagssólinni.
Allvegana, við Robbi héldum göngunni áfram í átt að “alvöru” leiðunum. Fyrsta skráða leiðin sem við sáum liggur djúpt og hátt inní gjá í fjallinu. Leiðin sú mun heita Abdominal og hlýtur að vera meðal formfegurri ísleiða á landinu. Enda vorum við ekki lengi að ákveða okkur. Klifrið var magnað, brothætt blómkál neðst upp í svert kerti sem leiddi í lítinn helli sem við settum stansinn í, full 55 metra spönn. Seinni spönnin var ennþá mergjaðri, akróbatískar teygjur á milli stórra regnhlífa, aðrir 55 metrar upp í íshrímað snjógil. Hugsanlega hefði verið hægt að troðast áfram upp snjógilið í skál þar fyrir ofan en við mátum það svo að hér væri leiðin sjálf búin. Sigum niður og skoðuðum hinar skráðu leiðirnar sem eru hver annari magnaðri. Mátum það svo að það tæki því ekki að byrja á nýrri leið enda farið að skyggja. Á leiðinni að bílnum sáum við að strákranir voru enn hátt uppi í sinni leið. Þeir snéru við eftir 5 spannir, enda fór það svo að þeirra dagur var mun lengri en okkar.

Mýrarhyrnan er magnað klifursvæði sem geymir enn margar óklifraðar leiðir. Gistum á farfuglaheimilinu á Grundarfirði fyrir spottprís. Lókallinn tók okkur með opnum örmum (“Ef þið hefðuð látið vita með smá fyrirvara hefði ég getað hringt út kellingarnar!”)

Mælimeðessu

Allez

Skabbi

PS. Ég hefði tekið myndir en ég átti engan kubb.